Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 15:42:06 (8580)

2002-04-30 15:42:06# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eiginlega ekkert af því sem hér kom fram svaravert. Hér hefur farið fram mikil gengisfelling á orðum og andstöðu við mál því eins og hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa talað í þessu máli sem nú er á lokastigi í umræðu er hreint með ólíkindum.

Um það er að ræða að selja hlut ríkisins, 30% hlut í vel reknu fyrirtæki, og það er hægt að tala um það klukkutímum saman og staglast á sömu fullyrðingunum endalaust. Ég er aldeilis undrandi.

Það er þó eitt sem ég ætla að reyna að svara einu sinni enn af því að hv. þm. hefur sennilega ekki verið í salnum. Hann þarf ekkert endilega að vera í salnum nema þegar hann er að hlusta á sjálfan sig. Hann talaði um hvers vegna ríkið hefði ekki keypt. Þannig er að ríkið tók þátt í hluthafasamningi með samkomulagi frá 1989. Ríkið taldi líklegt að Paroc mundi hugsanlega vilja kaupa hlut þess í fyrirtækinu en svo reyndist ekki vera. Það kom í ljós í samtölum sem áttu sér stað hjá eigendum, þrem stærstu eigendunum, að Paroc vildi selja líka. Þá var það að mínu mati sjálfsagt mál, til að verja hlut ríkisins í þessu fyrirtæki, að taka þátt í sölunni með hinum tveimur stærstu eigendunum enda barst tilboð frá ábyrgum aðilum um kaup á þessum hlutum.

Hvað varðar samkeppnisyfirvöld er það bara eins og lög gera ráð fyrir. Þau eru að fara yfir samkeppnisþátt þessa máls. Forúrskurður er ekki lengur í lögum Samkeppnisstofnunar þannig að ekki er um slíkt að ræða.