Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 19:47:44 (8597)

2002-04-30 19:47:44# 127. lþ. 134.4 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, GE
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[19:47]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Í dag voru þingmenn af Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurl. v. kvaddir til kynningar á sýningunni Perlunni Vestfjörðum. Á þeirri kynningu var þingmönnum afhent leiðarrún. Þessi leiðarrún var dregin úr pungi töframanns og henni, virðulegi forseti, fylgir sá máttur að sá sem á henni heldur og hefur hana milli klæða þann tíma sem hann telur sig þurfa mun halda sinni stefnu. Sá mun aldrei glata áttum og mun komast á áfangastað. Kynningin á Perlunni Vestfjörðum styrkti mig í að halda þeirri stefnu sem ég hef komist á, að hætta ekki fyrr en það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við verður aflagt.

Virðulegur forseti. Markmið sýningarinnar Perlunnar Vestfjarða er að kynna Vestfirði með áherslu á gróskumikið mannlíf, atvinnulíf, fjölbreytta ferðamöguleika. Á sýningu sem halda á í Perlunni í Reykjavík ætla Vestfirðingar að kynna stofnanir sínar og starfsemi. Það á að kynna Vestfirði sem áhugaverðan áfangastað. Sveitarfélögin ætla að kynna búsetukosti og þjónustu sem er í boði. Atvinnuþróunarfélagið mun kynna þá aðstöðu og umgerð sem fyrirtækjum býðst á Vestfjörðum. Inn í þetta verður fléttað menningar-, fræðslu- og skemmtidagskrá.

Það er landshlutinn Vestfirðir, virðulegi forseti, sem stendur að þessari kynningu. Íbúum þar finnst að þeir hafa fengið jákvæða umfjöllun að undanförnu, ekki síst fyrir að gera eigin byggðaáætlun. Þeir telja sig hafa fundið nýjan tón sem gæti gefið aðra mynd af samgöngum, atvinnulífi og búsetu á Vestfjörðum. Samt sem áður eru fiskveiðar kjölfestan á svæðinu en núverandi fiskveiðistjórnarkerfi er að eyða þar byggð og hrekja fólk á brott. Þessu verður að linna.

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja að hvort hæstv. sjútvrh. er í húsinu.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. ráðherra er í húsinu. Óskar hv. þm. eftir að honum séu gerð boð um að koma í salinn?)

Ég óska eftir að hann verði viðstaddur í um þrjár mínútur af ræðu minni, sem gæti orðið mjög löng.

(Forseti (GuðjG): Ég læt bera honum boð um það.)

Virðulegur forseti. Þakka þér fyrir. Ástæða þess að ég þarf að ræða þetta mál ítarlega er að hér er rætt um að setja veiðigjald á fiskveiðistjórnarkerfið sem við búum við í staðinn fyrir þróunarsjóðsgjald. Veiðigjaldið sem sett verður á verður lægra heldur en þróunarsjóðsgjaldið. Ég get ekki samþykkt það. Það er verið að breyta kvótaþakinu þannig að einstök útgerð má auka hlutdeild sína úr 12% upp í 20%. Menn stunda byggðakvótabiks, 6--7 milljarða virði á að fara til einstakra aðila. Ég kalla það byggðakvótabiks og ég get ekki sætt mig við að auðlindin, fiskurinn í sjónum, fari á færri hendur.

Ég fagna því að ég sá hæstv. sjútvrh. á leið í salinn. Ég bíð eftir því að hann komi svo hann heyri það sem ég hef sérstaklega við hann að segja. Ég doka þá við ef hann má ekki vera að því að koma hér inn, ég doka þá við í nokkrar mínútur með það.

Virðulegur forseti. Allt ber að sama brunni. Allt fer á sömu lund. Stefnan er óbreytt, samdráttarstaðirnir minnka, vaxtarstaðirnir stækka. Stjórn fiskveiða á Íslandi er á villigötum. Menn sitja fastir í hinu mannlega þorskaneti, þ.e. fiskveiðistjórnarkerfinu sem er afskræmt orðið, óhugnaður ógeðfelldrar gróðahyggju sem vex eins og slímug forynja og bólgnar út á einum stað um leið og reynt er að setja á hana hömlur á öðrum.

Virðulegi forseti. Mér þætti vænt um að ég gæti tryggt að hæstv. sjútvrh. heyrði það sem ég ætlaði að segja við hann en ég doka að sjálfsögðu við þangað til ég næ við hann sambandi þannig að hann gefi svar með höfuðhnykk eða einhverju því um líku. Þangað til það verður doka ég við með að tala til hans.

Herra forseti. Ég segi enn sem áður að fiskveiðistjórnarkerfið felur í sér allt það sem andstætt er þeim gildum sanngirni og réttlætis sem ég er alinn upp við, sem ég veit að er það besta veganesti sem unnt er að fá í lífinu. Þau gildi byggjast á aldagamalli hefð og trú á almætti jafnrar skiptingar og jafnræðis. Ég vona, herra forseti, að mér takist að setja orð mín í þann búning að sársaukinn komi í ljós gagnvart þeim ósóma sem gert hefur einn að öreiga og annan að auðkýfingi, þ.e. íslenska fiskveiðistjórnarkerfið.

Herra forseti. Það sem ég ætla beina til hæstv. sjútvrh. er þetta: Mér er kunnugt að hæstv. ráðherra óskar þess að þessari umræðu ljúki á þessum degi. Hann hefði getað hlutast til um að þetta mál kæmi fyrr á dagskrá þingsins. Þeir sem nú eru á mælendaskrá og hafa mikið að segja um þetta mál hefðu þannig getað lokið málinu fyrir þennan dag sem hann þarf að hverfa úr landi. Mér er fullkunnugt að þeir sem enn eru á mælendaskrá eru fullkomlega sáttir við að hæstv. ráðherra fari úr landi og sinni þeim mikilvægu málefnum sem hann þarf að leysa úr varðandi hugsanlegar hvalveiðar í framtíðinni. Það er fullkomin sátt um það hjá þeim sem enn eru á mælendaskrá. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að fara jafnvel þó að þessu máli sé ekki lokið. Ég er þess fullviss að fyrir hann fæst staðgengill á næstu dögum vegna mikilvægis þess máls sem hann þarf að fjalla um á erlendum vettvagi.

Ég, virðulegi forseti, geri enga frekari kröfu um að hæstv. ráðherra hlýði á orð mín. Það sem ég geri kröfu um, þ.e. það sem ég óska er að vekja megi athygli á því hvert stefnir. Það er stefnt að því að festa þessa forynju, slímugu forynju, sem bólgnar á einum stað um leið og reynt er að setja á hana hömlur á öðrum, í sessi. Ræða mín gengur út á að kerfið verði hins vegar aflagt. Ég get ekki, virðulegur forseti, á neinn hátt bælt niður það sem mér býr í brjósti varðandi þetta kerfi sem ég veit að eyðir byggð og eykur misskiptingu í þessu landi. Þau gögn sem ég styðst við sýna það svo sannarlega: skýrsla frá Byggðastofnun eftir Stefán Ólafsson, Búseta á Íslandi, rannsókn á orsökum búferlaflutninga; skýrsla um sjálfbæra þróun, þ.e. nýja stefnu fyrir Norðurlönd; skýrsla Þjóðhagsstofnunar um árangurinn af fiskveiðistjórnarkerfinu og áhrif þess á byggðina í landinu. Þetta eru gögnin, virðulegi forseti, sem ég styðst við. Ég get ekki annað en talað um niðurstöðurnar. Ég get heldur ekki látið vera, virðulegur forseti, að ræða um færeyska fiskveiðistjórnarkerfið sem ráðamenn á Íslandi hafa því miður gert mjög lítið úr.

Þegar umræða var á þingi um sjávarútvegsmál í vetur ræddi ég um þá möguleika sem við ættum í að skoða á hvern hátt við gætum aðlagað það kerfi okkar. Þá lá við að ráðamenn gerðu grín að þeim vangaveltum. Ég get ekki, virðulegi forseti, látið vera að ræða um þessi mál. Þess vegna verð ég að hafna þeirri umleitan að ég stytti mál mitt á einhvern hátt. Þau atriði í þessu frv. sem ég nefndi í upphafi og eru andstæð skoðunum mínum get ég ekki samþykkt. Í öðru lagi er fiskveiðistjórnarkerfið ónýtt í heild sinni. Ég reyndi samt að bera í bætifláka fyrir það í upphafi þar sem ég hélt að kerfið væri ekki verra en mennirnir sem stjórnuðu því.

[20:00]

Fiskveiðistjórnarkerfið er þannig saman sett að mér finnst það gersamlega óásættanlegt og úr takti við öll þau gildi sem mér var kennt að virða í uppeldi mínu, á sjómannsheimili þar sem fólk bjó við kröpp kjör og þurfti að lifa af því sem sjórinn gaf.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að fara nokkrum orðum um niðurstöðu Stefáns Ólafssonar í skýrslu eða rannsókn á orsökum búferlaflutninga en þar segir orðrétt, með leyfi forseta, á bls. 182--192 í samandregnum niðurstöðum:

,,Markmið rannsóknarinnar er að leita skýringa á búferlaflutningum milli landshluta á Íslandi á síðustu árum og áratugum. Slíkar skýringar geta veitt gagnlegar vísbendingar um það, hvaða aðgerðir eru líklegar til að hafa áhrif á framtíðarþróun búferlaflutninga í landinu.

Við hönnun rannsóknarinnar var höfð hliðsjón af helstu kenningum sem fram hafa verið settar um viðfangsefnið erlendis og fyrri rannsóknum á þessu sviði hér á landi. Fyrirliggjandi gögn um fólksfjöldaþróun, búsetu, búferlaflutninga, atvinnuþróun og skyld atriði voru könnuð og að hluta borin saman við upplýsingar frá nágrannalöndunum. Þá voru framkvæmdar tvær sérkannanir vorið 1997 til þess að afla nýrra gagna til að varpa ljósi á tengsl búsetuþróunar og mats almennings í einstökum landshlutum á búsetuskilyrðum í eigin byggðarlagi. Sá þáttur rannsóknarinnar sem lýtur að athugun á tengslum búsetumats og búsetuþróunar felur í sér nýja aðkomu að viðfangsefninu, sem virðist veita afar öfluga skýringu á ólíkum mynstrum búferlaflutninga frá einum landshluta til annars.

Forsenda slíkra skýringa er sú, að hvað sem líður einstökum þáttum ytri skilyrða þá eru búferlaflutningar endanlega afleiðing ákvarðanatöku einstaklinga og fjölskyldna, sem byggist á mati og samanburði viðkomandi aðila á kostum og göllum aðstæðna í upprunabyggð og hugsanlegum áfangastað. Heildarútkoma slíks mats á aðstæðum og kostum ræður niðurstöðunni um val á búsetustað. Einnig er hugsanlegt að um þvingaða búferlaflutninga geti verið að ræða, til dæmis vegna atvinnuleysis eða ófullnægjandi menntunaraðstæðna í heimabyggð.``

Virðulegi forseti. Ég stoppa aðeins við þessar samandregnu niðurstöður úr skýrslunni Búseta á Íslandi, rannsókn á orsökum búferlaflutninga. Hvað er verið að segja í þessum niðurstöðum, virðulegi forseti? Það er verið að segja að vegna atvinnuleysis eða ófullnægjandi menntunaraðstæðna í heimabyggð ákveði fólk að flytja. Ég hef áður sagt að á árunum kringum 1948--1954 fluttist fólk m.a. af Vestfjörðum til Suðvesturlands og Suðurlands vegna þess að það var ekki fiskur í sjónum við Vestfirði á hefðbundnum slóðum. Var það vegna kvótakerfisins? Nei, svo var ekki. Var það út af því að menn hefðu ekki veiðiheimildir? Nei, það var ekki út af því. Það var vegna þess, virðulegi forseti, og það verður aldrei of oft sagt, að skilyrðin í hafinu á hefðbundnum veiðislóðum voru þannig að þar var ekki fisk að fá. Þess vegna flutti fólk þaðan. En núna er það þannig að það er nægur fiskur á hefðbundnum slóðum við Vestfirði en þeir sem eiga heima þar hafa ekki heimildir til að veiða hann. Þess vegna flytur fólk af Vestfjörðum nú. Ég nefni þetta sem dæmi.

Svo að ég haldi áfram tilvitnun minni í skýrsluna, með leyfi virðulegs forseta, segir þar:

,,Líklegast er þó að búferlaflutningar sem eru afleiðing tiltölulega frjáls vals einstaklinga hafi verið ríkjandi á Íslandi um árabil. Það kemur meðal annars fram í því, að fólk hefur flutt í miklum mæli frá landsvæðum þar sem atvinnuástand hefur verið gott og meðaltekjur yfir landsmeðaltali. Val á framhaldsmenntun felur oft í sér meðvitað val á starfsferli sem stýrir þar með búsetu að nokkru leyti. Í slíkum tilvikum er frekar um frjálst val að ræða en þvingaðan flutning.

Í nágrannalöndunum hafa búferlaflutningar breyst á undanförnum áratugum. Fram til um 1970 var víða aukning á streymi fólks frá jaðarsvæðum til þéttbýlli staða og stórborga. Eftir það hægði sums staðar á búseturöskuninni, til dæmis í Skandinavíu, Finnlandi og Bretlandi, og fólk tók að flytja í vaxandi mæli frá stórborgunum til smærri þéttbýlisstaða og dreifbýlis, oft í nánd við stórborgirnar. Þessi umbreyting búsetumynstra hefur verið kennd við þjónustuþjóðfélagið og er víða spáð áframhaldi slíkrar þróunar. Hér á landi gætir slíkrar þróunar aðeins í mjög litlum mæli enn sem komið er.

Búferlaflutningamynstur þau sem ríkjandi eru hér á landi, með þungum straumi fólks frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, eina eiginlega borgarsvæðisins hér á landi, eru einkennandi fyrir þau mynstur sem víða ríktu fyrr á eftirstríðsárunum í nágrannalöndunum. Það er því athyglisverð spurning hvort vænta megi aukinna búferlaflutninga frá höfuðborgarsvæðinu á næstu árum, til dæmis til smærra þéttbýlis eða dreifbýlis sem er innan seilingar við höfuðborgarsvæðið?``

Virðulegi forseti. Ég geri hlé á tilvitnun minni í skýrsluna. Mig langar að hugleiða það sem hér stendur. Þessi skýrsla er frá 1997 og staðreyndin er sú að það hefur hægt verulega á flutningi til höfuðborgarsvæðisins. Eins og hér er getið um flytja menn til smærra þéttbýlis í nágrenni höfuðborgarinnar. Menn eru ekki að flytja í dreifbýlið. Það er ekki verið að flytja á staðina þar sem samdrátturinn er vegna þess að þar er búið að selja fiskveiðiheimildirnar frá byggðunum til þéttbýlissvæðanna. Áfram með tilvitnun í þessa skýrslu, með leyfi virðulegs forseta:

,,Á síðustu tveimur árum`` --- þ.e. 1995 og 1996 --- ,,hefur verið meiri straumur fólks til höfuðborgarsvæðisins en nokkru sinni fyrr frá 1960. Horfurnar eru því tvísýnar og í reynd benda áform landsbyggðarmanna um brottflutning á næstu tveimur árum til þess að straumurinn verði áfram með svipuðum hætti og verið hefur síðastliðin ár.``

Allt eru þetta staðreyndir, virðulegur forseti, sem byggjast á niðurstöðu könnunar Þjóðhagsstofnunar í skýrslu sem lögð var fyrir endurskoðunarnefnd um stjórn fiskveiða. Þetta eru allt staðreyndir sem blasa við. Samt sem áður, virðulegur forseti, er lagt fyrir hv. Alþingi frv. sem festir fiskveiðistjórnarkerfið enn í sessi. Ég get ekki og mun ekki samþykkja þetta frv. Ég get ekki annað en talað gegn því.

Virðulegi forseti. Ég vitna áfram, með leyfi forseta, til skýrslunnar frá Byggðastofnun sem ég veit að hæstv. starfandi forseta er mjög vel kunnug:

,,Fram kemur í rannsókninni að áhugi landsbyggðarfólks á nútímalegum lífsháttum, til dæmis fjölbreyttum atvinnutækifærum, ríkulegum aðgangi að verslun og þjónustu, fjölþættri aðstöðu til menningarneyslu og afþreyingar, góðum húsnæðisaðstæðum og samgöngum, skiptir miklu máli fyrir val á búsetustað. Mjög sterkt samband er milli ánægju íbúa með búsetuskilyrði og fólksfjöldaþróunar í einstökum landshlutum. Þar vegur þungt hvort aðstæður fyrir framangreinda þætti nútímalegra lífshátta eru hagstæðar eða ekki.``

Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að gera hlé á tilvitnuninni og hugleiða aðeins það sem sagt er. Í fréttatímum ber það gjarnan við á fallegum vordegi að teknar eru myndir af fólki í skemmtilegu samfélagi á Austurvelli við góðar aðstæður, í sólskini, þegar hægt er að sitja í skjóli við húsin í norðansveljandanum. Það eins og setið sé í sólarlöndum. Fólk er jafnvel með ölkrús á borði og hlær við myndatökumanninum þannig að þetta virðist allt svo fallegt og fínt. Staðreyndin er hins vegar sú að ærið oft, eftir að fólk hefur tekið ákvörðun um að flytja í þéttbýlið, finnur það fyrir einangrun, jafnvel enn meiri einangrun en var í dreifbýlinu þar sem menn eru meðvitaðri hver um annan en hér í þéttbýlinu. Þetta vil ég segja, virðulegur forseti, af því að ég hef haft af þessu spurnir og kynni.

Ég held þá áfram með tilvitnun í þessa skýrslu, virðulegur forseti:

,,Þau svæði á landsbyggðinni sem byggja öðru fremur á frumvinnslugreinum atvinnulífsins, landbúnaði og sjávarútvegi, einkum fiskvinnslu, fá að öðru jöfnu lakasta einkunn frá íbúunum sjálfum fyrir einstaka þætti búsetuskilyrða og þau hafa jafnframt tapað flestu fólki.``

Hver er ástæðan, virðulegi forseti, svo að ég hugleiði þetta áfram, fyrir þessari framsetningu? Jú, það kemur í ljós að fólk hefur takmarkaðan áhuga á að vinna við atvinnugrein þar sem lægstu launin eru greidd. Þannig hagar til í hinum dreifðu byggðum að eftir því sem kvótinn minnkar, þeim mun minni vinna er við atvinnugreinina og þeim mun minni laun eru greidd. Þess vegna vill fólk fara. Það er mín túlkun á þessum orðum, virðulegi forseti. Hér segir áfram, með leyfi forseta:

,,Þróun atvinnutækifæra í fiskvinnslu hefur mikla fylgni við þróun nettóbúferlaflutninga frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins á tímabilinu frá 1961 til 1996. Þegar fjölgaði störfum við fiskvinnslu þá dró landsbyggðin til sín fleiri íbúa frá höfuðborgarsvæðinu, en þegar fjölgunin stöðvaðist um 1980 jókst tap landsbyggðarinnar á íbúum til höfuðborgarsvæðisins.`` --- Það jókst enn frekar í kjölfar aukinna erfiðleika í sjávarútvegi upp úr 1987.

Virðulegi forseti. Hvað er verið að segja þarna með þessari skýrslu? Frá 1987? Hver eru aftur viðmiðunarárin? Hvenær byrjar fiskveiðistjórnarkerfið? Ef ég man rétt, þá voru lög nr. 38/1990 afleiðing þess sem var að gerast á viðmiðunarárunum frá 1987--1990. Þetta segir alla söguna, virðulegi forseti. Þetta segir okkur að sá sem hefur farið í gegnum málin getur ekki sætt sig við það sem menn eru að gera, þ.e. meiri hlutinn á Alþingi og hæstv. ríkisstjórn. Þeir sem skilja hvað er að gerast, eins og ég tel mig hafa komist í gegnum eftir mikla yfirlegu og vangaveltur, með tilvitnun í fjölmarga vísindamenn sem hafa staðfest þessa skoðun mína, vita að fiskveiðistjórnarkerfi okkar er aðalorsakavaldur þess að smærri staðir eru að missa íbúana og þess að íbúum á stærri stöðum fækkar. Það fylgir fiskveiðiheimildunum sem færast á færri og færri hendur og til þéttbýlisins. Það er staðreynd, virðulegur forseti.

[20:15]

Almennt skýrir búsetumat almennings búsetuþróunina í landinu, segir í skýrslunni. Auðvitað skiptir viðhorf fólksins máli, virðulegi forseti. Viðhorf fólksins breytist vegna utanaðkomandi þátta sem það getur ekki haft áhrif á, þ.e. þegar tekin er frá því lífsbjörgin og sjálfstæði einstaklingsins, frelsið, frá dugandi fólki sem enn býr í byggðarlögunum sem ég var að vitna til. Það mun smám saman láta undan ef það á að fara að gefa heimild, eins og gera á með breytingu á þessum lögum, til að flytja heimildirnar á færri hendur. Það eru nefnilega tiltölulega fáir sem hafa yfirráð yfir öllu fiskveiðistjórnarkerfinu í dag og það er verið að gefa heimildir til að flytja fiskveiðiheimildirnar yfir á um sex fjölskyldur í landinu, 5--6 fjölskyldur í landinu. Það er það sem þetta fiskveiðistjórnarkerfi felur í sér. Ég mótmæli því. Ég get ekki orðið við beiðni um að stytta mál mitt um nokkuð sem er mitt hjartans mál.

Virðulegi forseti. Það má velta fyrir sér samkeppnisstöðu byggðarlaganna. Ég geri það með tilvitnun í sömu skýrslu, með leyfi forseta:

,,Þegar almennt er hugað að samkeppnisstöðu höfuðborgar og landsbyggðar, á grundvelli mats íbúanna sjálfra á búsetuskilyrðum, hefur höfuðborgarsvæðið einkum yfirburði gagnvart landsbyggðinni á sviði aðstöðu til menningarneyslu og afþreyingar annars vegar og verslunar og þjónustu hins vegar. Landsbyggðin hefur yfirburði á sviði umhverfisskilyrða og opinberrar þjónustu.``

Þetta er niðurstaðan, virðulegi forseti, í þessari skýrslu. En hvað er að gerast? Landsbyggðin hafði yfirburðastöðu á sviði umhverfisskilyrða og opinberrar þjónustu. Þegar hér er komið hefur hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar gripið til þess að minnka þjónustuna, minnka þjónustuna sem talin var til kosta landsbyggðarinnar. Það er verið að fækka póstþjónustustöðvum, það er verið að leggja niður opinberar stofnanir og stytta þjónustutímann í hverju sveitarfélaginu á fætur öðru. Það er verið að taka það af hinni dreifðu byggð sem hún hafði fram yfir þéttbýlið. Þetta er stórt atriði og tengist beinlínis og beint fiskveiðistjórnarkerfinu sem við erum að ræða um.

Virðulegi forseti. Ég vitna enn í þessa sömu skýrslu. Hér segir hér, með leyfi forseta:

,,Frá þeim sem fluttu milli byggðarlaga á árunum 1992--96 var fengið mat á aðstæðum í fyrra og núverandi byggðarlagi. Flestir voru ánægðari með vöruúrval á nýja staðnum,`` --- nýi staðurinn er þá Reykjavík, Hafnarfjörður, Kópavogur, stóru staðirnir með stóru markaðina sem bjóða lægra verð þegar búið er að leggja allan flutningskostnaðinn á vörur sem fluttar eru út á land --- ,,síðan kom, í þessari röð, menningarlíf, atvinnutækifæri, húshitunarkostnaður, þjónustuúrval, skemmtanalíf, flugsamgöngur, atvinnuöryggi, aðstaða til afþreyingar og íþróttaiðkunar, verðlag, framhaldsskólamál, framboð hentugs húsnæðis og tekjuöflunarmöguleikar.`` Úr öllum þeim þáttum, virðulegi forseti, sem ég las hér upp hefur verið dregið á landsbyggðnni.

Það er barist í að reyna að koma því kerfi á að þéttbýliskjarnar myndist þar sem hægt er að veita þá þjónustu sem hér var minnst á. Þetta eru hugsanlega varnaraðgerðir sem er verið að leggja fram hugmyndir um. Hvenær? Jú, þær hugmyndir eru lagðar fram í byggðaáætlun nú á síðustu dögum þingsins. Það gefst ekki einu sinni, virðulegi forseti, tækifæri á að gera tillögur um að breyta þessum hugmyndum. Þetta eru ekkert nema hugmyndir og hugleiðingar um hvað hægt væri að gera. Nánast væri hægt að segja í einni setningu það sem fram er lagt í byggðaáætlun, þessum hugmyndum hæstv. byggðamálaráðherra: Svona vildum við sem búum úti á landi gjarnan að hlutirnir litu út. Búið.

Virðulegi forseti. Eftir því sem ég kafa meira ofan í skýrslur og athugasemdir fræðinganna hvers á fætur öðrum, m.a. skýrslur stofnunarinnar sem slegin var af, Þjóðhagsstofnunar, stofnunarinnar með dýra sláturkostnaðinn, sem kostaði svo mikið að leggja niður, því skelfilegri verður niðurstaðan. Ég vitna einnig í skýrslu stofnunarinnar sem flutt var úr Reykjavík á annan stað á landinu, sem ég vona þó að hafi verið vænleg byggðaaðgerð en þær ber allar að sama brunni, þ.e. samkvæmt mínu mati að framkvæmd fiskveiðistjórnarkerfisins sé meginorsök búferlaflutninga sem átt hafa sér stað hér á landi.

Það er rétt að minna á, virðulegi forseti, að atvinnuástand, t.d. á Vestfjörðum, hefur verið gott og tekjur voru langt yfir landsmeðaltali um langt árabil. Ástandið núna er hins vegar þannig, sem er afleiðing af þessu kerfi, að meðaltekjur á Vestfjörðum eru komnar töluvert undir landsmeðaltal. Fullyrðingar mínar um fiskveiðistjórnarkerfið eru samkvæmt þessu á rökum reistar og þróuninni verður ekki snúið við nema með breytingum, með því að hverfa frá því kerfi sem við erum með.

Atvinnuleysi hefur ekki aukist á þessum stöðum vegna þess að fólk hefur hrakist í burtu. Þrátt fyrir að það hafi átt eignir þá hefur það skilið þær eftir, eignir að verðmæti 16--28 millj. væru þær hér á höfuðborgarsvæðinu, eru að seljast fyrir 3--5 millj. á stöðum þaðan sem mestur brottflutningur hefur verið. Það er til skýrsla sem sýnir auðar íbúðir í röðum sem ég tel að þetta fiskveiðistjórnarkerfi hafi skapað.

Þó að menn tali um að aukin tækni spari mannskap --- ég viðurkenni að það er rétt --- breytir það engu um að fyrst og fremst er það kolvitlausu fiskveiðistjórnarkerfi að kenna hvernig búferlaflutningar hafa verið á Íslandi undanfarið, orsakarinnar er að leita í fiskveiðistjórnarkerfinu sem við búum við og viðhalda á með þeim lagabreytingum sem hér er fjallað um.

Virðulegi forseti. Ef maður skoðar það sem sagt er um búsetu á Íslandi í skýrslu Stefáns Ólafssonar frá því í nóvember 1997 má sjá að þar er að finna algeran samhljóm við niðurstöðu athugunar Þjóðhagsstofnunar, sem ég gerði rækilega grein fyrir í 2. umr. um þetta mál. Ég ítreka kröfu mína um að þetta mál verði tekið af dagskrá og þrautreynt verði hvort hægt er að ná sáttum þó að það yrði gert með bráðabirgðaaðgerð. Skýrsla Þjóðhagsstofnunar frá því í október árið 2000 er í samræmi við skýrslu og niðurstöðu skýrslu Stefáns Ólafssonar frá 1997. Þannig skortir ekkert á að menn hafi skrifað og hugsað um þessi mál og fyrir liggi staðreyndir. Viljinn hjá hæstv. ríkisstjórn til að skoða það sem fyrir liggur er hins vegar enginn. Helstu niðurstöðurnar eru þær, eins fram kemur í skýrslu Þjóðhagsstofnunar, að hlutdeild samdráttarstaðanna í veiðiheimildum í þorski hefur minnkað verulega á undanförnum árum en hlutdeild vaxtarstaðanna aukist á sama tíma. Þetta er alger samhljómur og er svo einföld staðreynd að ég segi eins og ágætur maður sem er farinn til feðra sinna, þetta ættu allir í heiminum að geta skilið þó ég skilji það ekki.

Það er sífellt að koma betur fram hversu gallað þetta slímuga forynjuafskræmi er. Ég vitna í DV frá því í dag, með leyfi forseta, en þar segir í viðtali við Sigurð Viggósson, framkvæmdastjóra Odda á Patreksfirði:

,,Steinbítsvertíð hefur gengið þokkalega það sem af er. Hins vegar segir hann að það sé ljóst að aflinn á þessu ári skerðist líklega um 40% miðað við síðasta ár vegna kvótasetningar steinbíts á smábátum. Hann segist þó ekkert kvarta og menn reyni bara að gera sitt besta.``

Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér að undirstrika að hann segist þó ekkert kvarta og menn reyni bara að gera sitt besta. Áfram segir í þessari grein:

,,Eftir að steinbítur var kvótasettur í upphafi yfirstandandi fiskveiðiárs hafa smábátar ekki lengur frjálsan aðgang að steinbítsveiðum. Sigurður segir að þetta komi greinilega niður á því sem að landi berst á Patreksfirði og á Tálknafirði. Þar hafi steinbítsafli tveggja stærstu fyrirtækjanna á þessum stöðum í fyrra verið um 1.200 tonn sem unnin voru á hvorum stað og allt bendir nú til þess að samdráttur verði um 40% á þessari vertíð. Það eru samtals 900--1.000 tonna samdráttur, aðeins hjá tveimur stærstu fyrirtækjunum á staðnum.``

Síðar í sömu grein segir:

,,Sigurður segir að þetta hafi veruleg verðáhrif á störf í landi en stærsti hluti steinbítsaflans fór til vinnslu. Hann telur einnig víst að skerðing verði á steinbítskvótanum á næsta ári.

Sigurður segir að vissulega eigi margir aflamarksbátar í erfiðleikum varðandi steinbítsveiðarnar þar sem þá skorti kvóta fyrir þorsk og annan meðafla.``

Þá skortir kvóta fyrir þosk og annan meðafla. Virðulegur forseti. Svo ég tæpi á því sem ég hef verið að lesa upp er hér um að ræða þorsk, ýsu, karfa og ufsa sem meðafla með steinbít. Áður var steinbítur meðafli með þorski og ýsu. Áfram, með leyfi forseta, með tilvitnun í þessa grein í DV:

,,Hann segir það hins vegar alvarlegast í stöðunni að vegna hins háa leiguverðs á kvóta eigi margir ekki annan kost en að leggja bátunum. Það borgi sig hreinlega ekki að gera út. Hann segir fyrirtækið Odda þó hafa verið sæmilega sett með kvóta en vissulega sé hann aldrei nægur. Það horfi því dapurlega í sumar ef stór hluti aflamarksbátanna lendi í sjálfheldu og hætti.

,,Við höldum hins vegar í vonina með að góðar gæftir verði hjá dagabátunum hér út af í sumar. Þá eru meiri líkur til að fjöldi þeirra leiti hingað til veiða. Veiðar þessara báta eru hins vegar ekkert sjálfgefnar,`` segir Sigurður.

Hann tekur undir umræður um horaðan þorsk á Vestfjarðamiðunum í vetur og meira sé um það en áður. Hann segir sjómenn töluvert hafa talað um þetta, ekki síst fyrr í vetur. Þá hafi þorskur sem veiðist samhliða steinbít að undanförnu verið frekar rýr en það sé þó ekki óalgengt á þessum árstíma.``

[20:30]

Það sem þarna er sagt, virðulegi forseti, með síðustu orðunum er að eftir hrygningu er fiskurinn magur.

Virðulegi forseti. Sem hugleiðing um þessa grein þar sem ég undirstrikaði að Sigurður Viggósson segist ekki kvarta --- hvað er hann þá að segja? Hafi ég réttan skilning, virðulegur forseti, er þessi maður langveinandi undan kerfinu eins og stunginn grís. Það er það, virðulegur forseti, sem þetta viðtal við Sigurð Viggósson í DV í dag segir mér. Af einhverjum ástæðum reynir hann að fegra þær aðgerðir með því að segjast ekki vera að kvarta en veinar þó undan kerfinu sem hann býr við.

Það vantar ekki að margir fjalla um fiskveiðistjórn. Margir fjalla um sjálfbæra þróun og umhverfissjónarmið með fögrum orðum og að því er virðist með góðum áformum. Ég hef sagt það áður að ég aðhylltist stjórnun, aðhald og eftirlit með takmörkuðum auðlindum okkar. Ég geri það í raun, virðulegur forseti. Ég aðhyllist stjórnun, ég aðhyllist aðhald og eftirlit með takmörkuðum auðlindum. Til að staðfesta það sem ég var að segja um fögru orðin vitna ég, með leyfi forseta, í bókina ,,Sjálfbær þróun`` með undirtitlinum ,,Ný stefna fyrir Norðurlönd``. Þar standa á bls. 93 fögur og fín orð og góð áform. Með leyfi forseta stendur hér:

,,Fiskveiðar, veiðar á sjávarspendýrum og fiskeldi. Þróun og verkefni. Í hafinu eru miklar og mikilvægar auðlindir sem Norðurlöndin bera sameiginlega ábyrgð á. Þær hafa átt þátt í að skapa grundvöll strandmenningar á öllum Norðurlöndum --- frá Eystrasalti í austri til heimskautssvæða í norðri og vestri í Norður-Atlantshafi. Á tilteknum svæðum á Norðurlöndunum eru þessar auðlindir grundvöllur lífsafkomu.

Norrænu hafsvæðin eru meðal hinna gjöfulustu í heiminum. Þau eru grundvöllur atvinnu íbúanna og mikilvægi fæðuframleiðslu á alþjóðlegan mælikvarða. Forsenda þess að hafið varðveitir framleiðslugetu sína og að koma á sjálfbærri nýtingu auðlindar er að umhverfi hafsins haldist hreint. Norðurlöndin eiga að vera í fararbroddi og benda á sameiginlega ábyrgð þjóða heimsins á verndun sjávar.

Nýting á auðlindum hafsins verður að byggjast á grundvelli varúðarreglunnar, heildarsýnar, þekkingar og rannsókna. Nauðsynlegt er að stjórnun og nýting auðlinda hafsins byggist á skilningi á heilum vistkerfum. Það gildi, sem auðlindir hafsins hafa sem lifandi uppspretta náttúrulegrar og endurnýjanlegrar fæðu, gerir það að verkum að ekki aðeins sjávarútvegurinn heldur allir geirar, sem nýta og hafa áhrif á hafið, bera sérstaka ábyrgð. Forðast verður starfsemi sem hefur neikvæð áhrif á umhverfi hafsins og þar með á framleiðslu eða gæði fæðunnar fyrir íbúa heimsins. Langtímamarkmið er að nýting allra lifandi auðlinda sjávar á Norðurlöndum verði sjálfbær.``

Virðulegur forseti. Það sem ég las eru bara fögur orð, bara fögur áform. Framkvæmdin, virðulegi forseti, er grátleg. Hún er skelfileg. Hér hefur verið framkvæmt arðrán í vissum skilningi með eyðileggingu uppeldisstöðva. Þetta fullyrði ég, virðulegur forseti. Með því að eyðileggja ákveðnar fiskislóðir, uppeldisslóðir, með aðgerðum sem fara þvert gegn öllum þeim fögru áformum sem hér standa. Hvað er búið að gera í Norðursjónum? Hvernig er með allt það eitur sem er verið að hleypa út um allan þennan heim sem ég var að lesa upp áform frá? Frá Eystrasalti, heimskautssvæðin í norðri og vestri, í Norður-Atlantshafi. Það er svo grátlegt, virðulegur forseti, að menn skuli setja á blað þessi orð í einhverju yfirskilvitlegu ástandi um að hafa allt fagurt og fínt en gleyma staðreyndunum, gleyma því hverju þeir sjálfir standa að, m.a. með því að viðhalda því fiskveiðistjórnarkerfi sem viðgengst á Íslandi.

Þá er ástæða, virðulegur forseti, til að lesa upp úr þessari skýrslu um sjálfbæra þróun nýja stefnu fyrir Norðurlönd, lesa upp umhverfisstefnu íslenska sjútvrn. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Umhverfisstefna íslenska sjávarútvegsráðuneytisins. Árið 1998, á Ári hafsins, gaf sjávarútvegsráðuneytið út yfirlýsingu um mikilvægi þess að taka tillit til umhverfissjónarmiða við nýtingu auðlinda hafsins. Yfirlýsingin hefst á eftirfarandi orðum: ,,Í sjávarútvegsráðuneytinu er stefnt að því að nýting auðlinda hafsins sé sjálfbær og byggt sé á bestu tiltæku vísindalegu rökum þegar ákvarðanir eru teknar. Þess verði gætt að líffræðilegri fjölbreytni og vistkerfi hafsins sé ekki ógnað. Við stjórnvaldsákvarðanir ber að taka mið af skyldu hverrar kynslóðar til að skila afkomendum sínum lífvænlegu umhverfi, skyldum þjóða til að vernda lífríki og vistkerfi hafsins og mikilvægi þess að bjóða neytendum íslensks sjávarfangs heilnæmar afurðir.````

Virðulegur forseti. Mjög mikilvæg orð standa í þessari skýrslu um umhverfisstefnu íslenska sjútvrn. En ég spyr, virðulegur forseti: Eru þetta fögur orð á blaði eða er þetta það sem farið er eftir með íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu? Er það að afneita brottkasti á 50--100 þús. tonnum af fiski á ári hverju á undanförnum árum þangað til menn neyddust til að gera úttekt sem sýnir a.m.k. 30--40 þús. tonna brottkast --- eftir fjögurra, fimm ára sífellda umræðu um brottkast var gerð úttekt --- að fara eftir því sem hér stendur í umhverfisstefnu íslenska sjútvrn. um að vistkerfi hafsins verði ekki ógnað? (GAK: 10 ára umræður.) Það eru 10 ár, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, það eru 10 ár, það er rétt. Það eru ekki fimm ára, ekki sex ára heldur 10 ára umræður um brottkast, og hvað tók langan tíma að fá samþykkt að gerð væri skoðun, úttekt? Það tók sex, sjö ár þangað til hægt var að berja menn, þvinga þá, til að skoða þessa hluti. Hvað var gert við þá sem reyndu að sýna fram á á hvern hátt þetta væri gert? Þeir eru dregnir fram sem einhverjir misindismenn.

Virðulegur forseti. Ég get ekki sætt mig við að menn segi eitt í dag og framkvæmi svo annað á morgun. Þess vegna, virðulegur forseti, mótmæli ég þessu með því að reyna að fara yfir málið á sem gleggstan hátt og aðskiljanlegastan máta fyrir þá sem einhvern tíma eiga eftir að kanna það sem hér er verið að segja. Ekki er því að heilsa að hv. þm. stjórnarliða fylgist með þeim hugleiðingum sem ég eða aðrir ræðumenn hér hafa fram að færa.

Herra forseti. Í næsta kafla ræðu minnar mun ég styðjast við skýrslu Byggðastofnunar um áhrif kvótasetningar aukategunda hjá krókabátum í byggð á Vestfjörðum. Þessi skýrsla, virðulegur forseti, er frá því í október 2001 og fjallar um eftirtalin byggðarlög, talin upp frá suðri um vestur til norðurs: Reykhólar, Patreksfjörður, Tálknafjörður, Bíldudalur, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Bolungarvík, Ísafjörður, Súðavík, Hólmavík og Drangsnes. Samantekt á niðurstöðum er svohljóðandi, virðulegur forseti:

,,Atvinnulífið á Vestfjörðum er háð fiskvinnslu og fiskveiðum. Í vestfirskum sjávarbyggðum er hlutfall fiskvinnslu og fiskveiða víða á bilinu 30--60% ársverka. Hlutur vestfirskra báta í heildaraflamarki hefur dregist saman um rúmlega 30% frá upphafi kvótakerfisins. Hlutur vestfirskra skipa í veiðiheimildum krókabáta hefur aukist um 30% frá 1995--2001 og sóknardagabátum á Vestfjörðum hefur á sama tíma fjölgað um rúm 50%.``

Virðulegi forseti. Þessir punktar segja okkur svo skýrt hvað um er að vera. Þetta er skýrsla frá því í október 2001. Það eru örfáir mánuðir síðan skýrslan var gerð. Svo skulum við skoða áfram niðurstöðurnar, með leyfi forseta:

,,Á síðasta fiskveiðiári lönduðu krókabátar 49% alls þorsks á Vestfjörðum, 65% af ýsu, 32% af ufsa og 64% af steinbít.`` --- Það eru krókabátar, virðulegur forseti, sem eru undirstaða atvinnulífs að meginhluta til á Vestfjörðum. --- ,,Miðað við landaðan afla á síðasta fiskveiðiári og úthlutað krókaaflamark má ætla að afli vestfirskra krókaaflamarksbáta verði 6.200 tonnum minni á þessu fiskveiðiári en því síðasta miðað við slægðan afla samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu.``

[20:45]

Virðulegur forseti. Ég les áfram, með leyfi, þessi hörmulegu orð: ,,Fyrirsjáanlegt er að samdráttur í aflaverðmæti hjá vestfirska krókabátaflotanum muni nema rúmum milljarði á nýhöfnu fiskveiðiári vegna kvótasetningar ýsu, ufsa og steinbíts, sé miðað við meðalverð á fiskmörkuðum í síðasta mánuði.``

Og enn áfram, virðulegur forseti:

,,Miðað við samdrátt í afla til vinnslu upp á 6.200 tonn af slægðum afla, vegna kvótasetningar ýsu, steinbíts og ufsa, má gera ráð fyrir því`` --- þeirri hörmulegu staðreynd vil ég bæta hér inn í --- ,,að ársverkum í landvinnslu á Vestfjörðum fækki um 93, sé miðað við upplýsingar frá Samtökum fiskvinnslustöðva.

Landssamband smábátaeigenda gerir ráð fyrir því að störfum við smábátaútgerð á Vestfjörðum fækki um 160--200 vegna kvótasetningar ýsu, steinbíts og ufsa.``

Í því frv., virðulegi forseti, sem við erum að fjalla um er gerð tilraun til að bæta þessa skelfilegu samdráttaraðgerð upp með því að úthluta, eftir aðferð sem mörgum er óskiljanleg, einhverju til einhverra á undarlegan máta sem stenst engan veginn skoðun þegar farið er yfir málið að nýju.

Ég er, virðulegur forseti, að fjalla um hlut krókabáta í sjávarútvegi á Vestfjörðum. Það er unnt að meta afleiðingar af veiðikerfi smábáta sem skall yfir þá 1. sept. sl., þegar kvótinn var settur á veiðar þeirra sem stunda veiðar á steinbít, ýsu og ufsa, og ég held einhvern veginn að skelfilegust séu áhrifin á þá staði, ekki bara á Vestfjörðum sem ég nefndi áðan, heldur reyndar fleiri þar sem menn hafa byggt mikið á því sem hefur verið kallað meðafli.

Sérstaklega á Vestfjörðum byggist atvinnulíf á fiskveiðum. Fiskvinnsla er allt að 60% atvinnulífsins en ég man það, virðulegur forseti, með því að skoða hlutina að þar sker Ísafjörður sig nokkuð úr frá smærri stöðunum og það má líka rekja upp þjónustustaðinn Patreksfjörð sem er í vissum skilningi þjónustustaður fyrir suðursvæði Vestfjarða. Þjónustustörfin standa öll og falla á einn eða annan máta með störfum í sjávarútvegi. Þetta þýðir að þegar aflaheimildirnar eru teknar af þessum stöðum fækkar fólki við fiskvinnslu, og um leið fækkar fólki í verslun, iðnaði og öðrum þjónustugreinum. Sagt var í skýrslu Byggðastofnunar að það sem stæði upp úr á landsbyggðinni væri betri opinber þjónusta en afleiðingin af þessum samdrætti öllum saman er að ríkið gengur fremst í flokki með því að draga úr þeirri opinberu þjónustu sem þótti þó vera betri úti á landi en í þéttbýlinu Reykjavík og nágrenni.

Grundvallaratriðið í dag er þetta fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við, þ.e. yfirráð yfir aflaheimildum í sjávarútvegi nútímans. Það eru grundvallaratriði og þessar veikari byggðir hafa orðið að láta frá sér aflaheimildir í stórum stíl.

Hlutur Vestfjarða hefur dregist saman eins og ég sagði áðan um yfir 30% frá árinu 1990. Á tæplega 12 ára tímabili hafa veiðiheimildir farið frá Vestfjörðum sem nemur 30% miðað við það sem þeir höfðu í upphafi kvótakerfisins. Ég ætla ekki að ræða um krókabátakerfið á þessu augnabliki en það er ástæða til að gera því nokkuð góð skil síðar.

Varðandi það hvernig aflamagnið er saman sett sem kemur til vinnslu á Vestfjörðum má geta þess að á síðasta ári var steinbíturinn 5.500 tonn og ýsa tæp 3.000 tonn miðað við óslægðan afla. Eins og ég gat um áðan er þó verið að reyna að klóra í bakkann með þessu frv. og laga aðeins til samdráttinn sem áætlaður var 1. sept. sl. Kannski verður ekki eins alvarlegur samdráttur og horfði til. Rétt er að geta þess að samsetning vinnu var þannig á Vestfjörðum árið 1997 að 957 manns unnu í fiskvinnslu og 580 manns í fiskveiðum. Ársverkin 1997 voru um það bil 4.369. Þessum störfum hefur fækkað verulega á síðustu fjórum árum sem má sjá á því að íbúum Vestfjarða hefur fækkað úr 7.341 í 6.983 árið 2000 eða um 358 manns. Rétt er að geta þess að störfum í fiskvinnslu hefur fækkað lítillega á öllu landinu á sama tíma en þar má geta um nýja tækni við fiskvinnslu og breytingar við fiskútflutning þar sem verið er að flytja út æ meira af ferskum fiski með flugi í stað þess að frysta fisk í landi. Það gefur skýringu á því sem ég var að fjalla um.

Ég sagði, virðulegur forseti, að ég ætlaði að fjalla lítillega um krókabátana á Vestfjörðum. Það er ástæða til þess vegna þess að vestfirskir krókabátar koma með stóran hluta þess afla sem krókabátaflotinn á landinu kemur með á hverju ári. 43% af þorskafla krókabáta var landað á Vestfjörðum, 48% af ýsunni var landað af krókabátum á Vestfjörðum, 8% í ufsa og 71% í steinbít þannig að áhrifin af því fiskveiðistjórnarkerfi eða breytingum sem gengu í gildi 1. sept. sl. voru uggvænleg. Það er ekki að furða, virðulegur forseti, að menn í þessum byggðum hafi sagt sig úr stjórnarflokkunum með heitingum um að vinna þeim allt hið versta sem til væri. Það er ekki að furða að menn hafi brugðið á það ráð að selja frá sér bátana sína og koma sér burt úr byggðinni. En á þetta hlustar auðvitað ekki nokkur stjórnarliði vegna þess að hæstv. ríkisstjórn segir þeim að gera það ekki.

Þær breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem gengu í gildi 1. sept. 2001 fólust í kvótasetningu svonefndra aukategunda, þ.e. ýsu, steinbíts og ufsa, vegna þess að þessi veiði var frjáls hjá smábátum með þorskaflahámark og sóknardaga fram að þeim tíma. Þetta horfði því strax til mikilla áhrifa á smábátaútgerð, sérstaklega þeirra útgerðarmynstra sem ég benti á, þ.e. smábáta með sóknardaga og þorskaflahámark. Um áhrif þessara lagabreytinga á Vestfjörðum segir í skýrslu sem ég gat um í upphafi, virðulegur forseti:

,,Eins og sagt var frá hér á undan er hlutur smábáta í útgerð á Vestfjörðum stór, en þeir veiða t.d. helming þess botnfisksafla sem berst á land á svæðinu. Uppgangur í veiðum smábáta á Vestfjörðum á síðustu árum hefur skapað þar mikil verðmæti og mörg störf og að nokkru leyti komið í staðinn fyrir samdrátt sem orðið hefur, t.d. vegna flutnings aflamarks frá svæðinu. Áhrif nýrra laga um veiðar smábáta verða því meiri á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum. Skipta má áhrifum áðurnefndra breytinga á vestfirskt atvinnulíf í tvennt. Í fyrsta lagi mun afli sem kemur til vinnslu minnka verulega sem væntanlega mun leiða af sér samdrátt í landvinnslu. Leiða má að því líkur að störfum í landvinnslu fækki af þessum sökum, ef ekki kemur til hráefni úr öðrum áttum. Hinn hluti áhrifanna snýr að útgerð krókabátanna. Gera má ráð fyrir því að kvótasetning ýsu, steinbíts og ufsa, bann við veiðum á öðrum tegundum og samdráttur í þorskveiðiheimildum leiði af sér uppsagnir hjá útgerðarmönnum krókabáta. Hér er um að ræða fólk sem vinnur í landi við beitningu og aðra þjónustu við báta og einnig má gera ráð fyrir að í einhverjum tilfellum verði fækkað í áhöfnum, auk þess sem einhverjum bátum verður lagt.``

Virðulegur forseti. Frá því í haust hefur fjölmörgum þeim sem unnu við beitningu á stöðunum sem ég rakti upp áðan á öllum Vestfjörðum verið sagt upp, þeim sem voru við beitningu, þeim sem voru við fiskveiðar, þeim sem voru á bátunum. Þess vegna er verið að klóra í bakkann, vegna þess að barið var á mönnum vegna þessa kerfis, og menn verða að reyna að klóra í bakkann með þeim aðgerðum sem bæta þó engan veginn upp þær vondu aðgerðir sem fylgja einnig með í þessum lagabreytingartillögum.

Virðulegur forseti. Ég má í lokin til með að vitna í niðurlag þessarar skýrslu Byggðastofnunar um áhrif kvótasetningar aukategunda hjá krókabátum á byggð á Vestfjörðum. Niðurlagið er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein á Vestfjörðum og nálægð við gjöful fiskimið er einn helsti styrkleiki vestfirskra byggða. Þegar haft er í huga áðurnefnt mikilvægi smábátaútgerðar fyrir sjávarútveg á Vestfjörðum liggur það í augum uppi að allar breytingar á löggjöf um veiðar smábáta sem hafa í för með sér skerðingu á veiðiheimildum þeirra munu hafa mikil áhrif á byggð á Vestfjörðum. Í þessari samantekt var gerð tilraun til að meta það hvaða áhrif kvótasetningar á ýsu, steinbít og ufsa gæti haft á byggð á Vestfjörðum. Eftir þessa stuttu samantekt verður ekki annað séð en að áhrif hennar gætu orðið mjög alvarleg í ljósi áðurnefnds mikilvægis krókabátaútgerðar á byggð á Vestfjörðum.``

Virðulegur forseti. Þessari skýrslu fylgja súlurit sem sýna í einstökum atriðum áhrifin á heildarafla og krókaaflamark á stöðunum frá Brjánslæk að Hólmavík talið frá suðri og vestur um til norðurs, og í nákvæmum atriðum eru rakin þau áhrif sem urðu við lagasetninguna 1. sept. sl. Það sem verið er að reyna að klóra í bakkann núna kemur að litlu leyti, tel ég, til hluta þeirra staða sem hér var um getið --- en bara hluta þeirra staða sem hér var um getið.

[21:00]

Herra forseti. Ég mun nú fjalla um þá veiðiaðferð sem ég tel vistvænasta, umhverfisbesta og þá einu sem auðvelt er að útfæra, stjórna og ná með markmiðum góðs veiðistjórnarkerfis. Það er hægt með því kerfi sem ég ætla að fjalla um. Ég á þar við veiðar með línu. Ég sé ástæðu til að fara mjög rækilega í gegnum það kerfi sem ég tel að væri hægt að aðlaga færeyska sóknardagakerfinu. Það er það, virðulegur forseti, sem ég ræddi um í vetur, og ráðamenn gerðu nánast grín að og vildu ekki eyða tíma sínum, þeim dýrmæta, í að hugleiða einu sinni. Ég ætla að fara yfir skiptakjör þegar menn veiða með línu í landróðrum og um þær veiðar gildir eftirfarandi, virðulegur forseti:

Á landróðrabátunum sem stunda veiðar með línu fá skipverjar í hlut ákveðinn hundraðshluta af skiptaverðmæti aflans. Þar er flotanum skipt allt frá 12 rúmlestum upp til 500 rúmlesta og þar segir að á skipum 12--20 rúmlesta sé miðað við 39% skiptingu miðað við 7 menn í áhöfn. Á skipum 21--30 rúmlesta er 33% hlutdeild miðað við 8 menn. Á skipum 31--50 rúmlesta er skiptaprósentan 30,5% miðað við 10 menn. Á skipum 51--110 rúmlesta er skiptahlutfallið 29,5% miðað við 11 menn. Á skipum 111--200 rúmlesta er skiptaprósentan 29,2% miðað við 11 menn. Á skipum 201--239 rúmlesta 28,5% miðað við 11 menn og síðan á skipum sem eru 240--500 rúmlestir 27,5% miðað við 11 menn. Í liðum c--g er reiknað með að fimm menn séu í landi.

Ef mann vantar í róður skiptist hlutur hans milli þeirra sem róðurinn fara. Það gildir einnig um hlut til landmanna, ef einn vantar skiptist hlutur milli landmannanna enda er gert ráð fyrir að þeir sem eftir eru vinni störf hans.

Hér er fjallað um útilegu. Útilega er það þegar menn hafa verið minnst tvær legur og þar af aðra leguna þar sem afli er slægður og ísaður. Hér er fjallað um landróðra á bátum með beitningarvélar og hér er fjallað um útilegur á bátum með beitningarvélar. Fjallað er um skiptakjör á lúðuveiðum og skiptakjör á grálúðuveiðum. Hér er getið um hafnarfrí, löndunarfrí og róðrafrí. Þetta kerfi sem ég er að ræða um á allt við línuveiðar þannig að hverju einasta atriði varðandi línuveiðar er hægt að framfylgja, og það er hægt að aðlaga það mjög þægilega einmitt færeyska sóknardagakerfinu.

Virðulegur forseti. Við 2. umr. um frv. um síldveiðar, þ.e. úthlutaðan kvóta vegna veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, greiddi ég einn atkvæði gegn því, þ.e. ég greiddi atkvæði gegn kvótaúthlutunaraðferðinni. Í ræðu sem ég flutti við 2. umr. um þetta frv. fór ég nokkrum orðum um síldveiðar og byggði þá á bókinni ,,Svartur sjór af síld``. Þar var sagt frá ferli síldarinnar, því þegar síldveiðibæirnir, Siglufjörður, Raufarhöfn, Húsavík og aðrir slíkir staðir, voru nánast gullgrafarabæir á Íslandi. Þar var sagt frá hruni síldveiðistofnsins. En í upplýsingaveitu sjútvrn. sem heitir ,,Ábyrgð í sjávarútvegi`` er getið um síld á þennan hátt, með leyfi virðulegs forseta:

,,Heimkynni síldarinnar eru um norðanvert Atlantshaf, umhverfis Ísland og á stórum svæðum við norðaustanvert Atlantshafið, en einnig vestan þess langt suður með ströndum Ameríku. Síldin er uppsjávar- og miðsævisfiskur og heldur sig í torfum. Hún finnst frá yfirborði sjávar og niður á um 250 m dýpi og lifir einnig við mismunandi seltustig. Hún lifir mest á smákrabbadýrum, einkum rauðátu, en einnig á ljósátu og loðnuseiðum.``

Síðan er sagt hér, með leyfi forseta:

,,Þrír aðskildir síldarstofnar eru á Íslandsmiðum: 1) íslenska vorgotssíldin, sem er mjög lítill stofn, 2) íslenska sumargotssíldin og 3) norska vorgotssíldin sem stundum er nefnd norsk-íslenski síldarstofninn. Stofnarnir þrír hegða sér á mismunandi hátt hvað varðar vaxtarhraða, hrygningartíma og göngur. Íslenska sumargotssíldin hefur verið veidd samfellt síðan um miðjan 8. áratuginn en þar áður voru miklar veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum uns hann hrundi undir lok 7. áratugarins. Sá stofn hefur hins vegar náð sér til fulls á undanförnum árum og árið 1994 veiddu Íslendingar úr þessum stofni á ný og hafa gert síðan.``

Virðulegur forseti. Mér finnst vanta í þessar upplýsingar um ábyrgð í sjávarútvegi mikla sögu. Það vantar söguna um hvers vegna stofninn hrundi. Hér er sagt, með leyfi forseta:

,,Veiðar á íslenskri sumargotssíld eru vertíðabundnar og aðallega veiðist hún á tímabilinu október/janúar undan suðvestur-, suður- og suðausturströnd landsins. Síldin hrygnir í júlí og heldur síðan í leit að æti. Hrygningarstofninn er talinn hafa verið um 700.000 tonn sumarið 2001. Norsk-íslenski stofninn hrygnir hins vegar undan ströndum Noregs snemma vors og ókynþroska síld heldur sig við Noreg en eldri fiskurinn fer í ætisleit út á Norðaustur-Atlantshafið. Stórar göngur norsk-íslensku síldarinnar komu upp að ströndum Íslands á sumrin fram yfir miðjan 7. áratuginn og voru grundvöllur veiðanna hér við land. Hrygningarstofninn er talinn hafa verið rétt rúmlega 6 milljónir tonna árið 2001.

Síld er veidd í síldar- og loðnunót og í flotvörpu. Aðallega veiðist 4--7 ára síld, 30--35 cm á lengd og 200--300 g að þyngd. Fituinnihald í holdi síldar er mjög breytilegt og fer eftir ætisskilyrðum og árstíma. Best er síldin þegar hún er stinn og fiturík.``

Virðulegur forseti. Skyldi það geta verið að fiskveiðistjórn á Íslandi varðandi síldveiðar sé með eðlilegum hætti? Er eðlilegt að síldin sé veidd þegar hún er nánast grindhoruð og óhæf til manneldis? Er góð nýtingarstefna að vinna á þann máta? Hún er a.m.k. ekki stinn og fiturík fyrr en vel er liðið á vertíðina.

,,Árlegur afli íslensku sumargotssíldarinnar hefur verið að aukast síðan 1975 og hefur verið nálægt 100.000 tonnum undanfarin ár.``

Hér er það mikilvægasta sem mig langar til að vitna í af þessum vef, upplýsingaveitu sjútvrn.:

,,Lexía fyrir framtíðina.

Hrun síldarstofnanna upp úr miðjum 7. áratugnum hafði mjög slæm áhrif á íslenskt efnahagslíf en skýr merki ofveiði og óhagstæð umhverfisskilyrði réðu mestu um að svo fór sem fór. Á hinn bóginn hafa markvissar aðgerðir við uppbyggingu stofnsins orðið að fyrirmynd fiskveiðistjórnar í seinni tíð. Árið 1975 var í fyrsta skipti sett heildaraflamark fyrir veiðar á íslensku sumargotssíldinni og var það jafnframt í fyrsta skipti sem kvóti var settur á veiðar hér við land. Veitt hefur verið úr stofninum með kjörsókn að leiðarljósi og stofninn farið stækkandi lengst af.

Lexían sem læra varð af síldveiðum fyrir 30 árum reyndist notadrjúg fyrir framtíðina.``

Virðulegur forseti. Ég óttast að í þessum orðum felist mótsögn við eiginlega framkvæmd á veiðunum. Ég óttast að veiðar með flottrolli hafi veruleg áhrif, ekki bara með því að meira af veiddri síld drepist og kremjist heldur að síldin komi til með að tileinka sér hegðunarmynstur vegna þeirra veiðarfæra sem verið er að nota. Þess vegna geld ég varhuga við því að veiðar á síld skuli leyfðar með flotvörpu.

Ástæða væri til að fara rækilega yfir þær heimildir um ábyrgð í sjávarútvegi sem eru um þorskinn á upplýsingaveitu sjútvrn. Ég held, og það er best að segja það með þessum orðum, að þessar upplýsingar séu vægast sagt mjög hæpnar því að í ljós er að koma að við Ísland veiðist þorskur af a.m.k. fleiri en einum stofni. Því tel ég, virðulegur forseti, að það sem stendur á þessari veitu ásamt og með öðru því sem ég hef verið að skoða á upplýsingaveitu sjútvrn. sé rangt, a.m.k. er sneitt fram hjá þeim efasemdum sem ríkja meðal þeirra sem hafa mesta afkomu af sjávarútvegi á Íslandi.

Alveg sama má segja um ýsuna. Ég tel að þar vanti verulega á það sem ætti að vera upplýst um. Það þarf að upplýsa um að fleiri en einn stofn af ýsu eru við landið. Það eru mjög mismunandi vaxtarskilyrði fyrir ýsu í kringum landið og það er alveg ótrúlegt að ýsa veidd í Hvalfjarðarkjaftinum, þrískæð ýsa sem menn kalla, ýsa sem er um 2 kg, getur verið um 9 ára gömul þrátt fyrir smæðina, og það gefur vísbendingu um að á þeim slóðum sé annar stofn en t.d. ýsan sem kölluð er Eyrarbakka-ýsa sem er alltaf 7--8 kg 4--5 ára gömul. Svo eru menn að segja að það sé einn ýsustofn við landið.

Virðulegur forseti. Á Íslandsmiðum hafa fiskveiðar verið stundaðar öldum saman á litlum opnum bátum við erfiðar og hættulegar aðstæður. Síðan komu skúturnar og vélknúnu þilfarsbátarnir. Þetta boðaði breytta tíma, minna erfiði og meira öryggi sjómanna. Sjómennska hefur verið talin til hættulegri starfa hér á landi. Það má minnast þess að fyrsti togarinn sem kom til Íslands hét Coot ef ég man rétt. Nú brestur mig kannski minni og þarf að leita til hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar um það hvort ég fer með rétt mál en mig minnir að Coot hafi verið fyrsti togarinn sem kom til Íslands. Það segir sitt að sá togari kom í kringum 1905 þannig að togaraútgerð á Íslandi hefur þróast síðan, og er enn að þróast.

[21:15]

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum á að halda öllum útgerðarmunstrum sem eru í gangi á Íslandi. Ég tel að menn þurfi bara að gera upp við sig hvernig við viljum nýta þær fjárfestingar sem liggja í skipunum okkar, í tækninni okkar til þess að það komi sem best að notum fyrir alla landsmenn vegna þess að mín einlæga skoðun er sú að fiskinn í sjónum eigum við Íslendingar allir sameiginlega og við Íslendingar eigum allir að njóta góðs af þessari auðlind. Ekki sé ég eftir því þó svo þeir sem stunda veiðarnar og þeir sem reka útgerðina beri góðan hlut frá borði. Það eiga þeir svo sannarlega að gera. Skipstjórar á íslenskum skipum bera mikla ábyrgð. Þeir bera ekki aðeins ábyrgð á því að fara vel með skipin og mannskapinn heldur bera þeir ábyrgð á því að fara vel með þann afla sem þeir sækja á Íslandsmið. Þeir bera einnig ábyrgð á því að ganga vel um miðin. Þeir bera meiri ábyrgð en útgerðarmaðurinn sem gefur skipun um að koma með ákveðnar tegundir að landi úr hverjum róðri eða hverjum túr.

Mér er það minnisstætt að í ævisögu Haraldar Böðvarssonar segir hann frá því þegar hann sem ungur maður seldi hross og keypti bát, keypti síðan annan bát vegna þess að hann græddi á bátakaupunum. Hann gerðist síðan útgerðarmaður og hélt úti vinnu á Akranesi. Á sama hátt eða svipaðan gerðust hlutirnir hjá mörgum sem unnu sig upp úr því að vera einstaklingar sem höfðu lítið á milli handanna. Smám saman stækkuðu þeir sína hlutdeild, ekki vegna þess að þeir fengu gefnar veiðiheimildir heldur vegna þess að þeir sóttu í sameiginlega auðlind landsmanna.

Við eigum aðra nytjastofna á Íslandi til viðbótar við bolfiskinn og þær fisktegundir sem ég var að nefna, þ.e. skelfisk og krabbadýr. Við eigum að nýta allar tegundir sem við eigum hvort sem það er þorskur, ýsa, ufsi, karfi, grálúða, hvers konar flatfiskar, steinbítur, síld, loðna, humar, rækja, hörpudiskur eða aðrir stofnar. Þá ég við krækling og alls konar skelfisk. Við eigum að nýta auðlindina í hafinu. Við þurfum bara að fara rétt að því.

Vinnuaflið sem er í sjávarútvegi stendur undir afkomu þessarar þjóðar að verulegum hluta. Þess vegna eigum við svo mikið undir fiskveiðistjórnarkerfinu, virðulegur forseti. Þess vegna vil ég í lok ræðu minnar fjalla um færeyska sóknardagakerfið. Það er fiskveiðistjórnarkerfi sem ríkir mikil ánægja með, bæði hjá útgerðar- og sjómönnum og einnig öðrum landsmönnum í Færeyjum. Allir eða flestir í Færeyjum lifa af fiskveiðum. Virðulegur forseti. Ég mun styðjast við grein Magnúsar Þórs Hafsteinssonar sem birtist í 3. tölublaði Sjómannablaðsins Víkings frá liðnu ári.

Það er nefnilega þannig að í umræðu um sjávarútvegsmál hér á landi hefur umræðu um færeyska sóknardagakerfið öðru hverju borið á góma. Sá sem hér stendur fjallaði um færeyska sóknardagakerfið nokkuð í ræðu í vetur og þá bar svo við að ákveðnir aðilar í stjórnarmeirihlutanum, ákveðnir ráðherrar, gerðu nánast grín að þeim orðum að rétt væri að skoða vel það kerfi sem svo mikil sátt og ánægja ríkti með í Færeyjum. Það er ekki minnst vegna þeirra viðbragða að ég fór yfir skoðanir mínar á fiskveiðum á Íslandi og fiskveiðistjórn nokkrum orðum. Í þessari umræðu hefur ýmislegt verið missagt og kannski margt ósagt. Magnús Þór Hafsteinsson gerir glögga grein fyrir færeyska kerfinu. Þær upplýsingar eru byggðar á opinberum gögnum og viðræðum við hagsmunaaðila í Færeyjum. Segja má, virðulegur forseti, að færeyskur sjávarútvegur sé í mikilli sókn. Þó að sjávarútvegur sé í mikilli sókn þá hefur ekki orðið veruleg endurnýjun í flotanum. Nú leyfi ég mér að vitna beint til greinar Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, með leyfi forseta:

,,Veiðar ganga vel við eyjarnar. Afli fer vaxandi í mörgum tegundum og fiskstofnar virðast í þokkalegu ásigkomulagi. Útgerðir og sjómenn þéna vel á stighækkandi fiskverði á heimsmarkaði, enda er skilið á milli veiða og vinnslu.``

Virðulegi forseti. Ég stoppa hér við í tilvitnuninni. Á Íslandi er ekki skilið á milli veiða og vinnslu. Við í Samfylkingunni höfum hvað eftir annað flutt mál sem lúta að því að skilja á milli veiða og vinnslu. Það er hægt að skilja á milli veiða og vinnslu bókhaldslega. Það er enginn að segja að útvegsmaður geti ekki haft vinnslu undir höndum. Það þarf bara að aðskilja framkvæmdina á veiðunum og vinnslunni. Svo segir, með leyfi forseta:

,,Fyrir tæpum tíu árum gerðu stjórnvöld í Danmörk og Færeyjum samning sín á milli. Færeyingar voru á hvínandi hausnum. Danska herraþjóðin ákvað að veiðum skyldi stýrt með kvótum. Fyrirmyndin var að verulegu leyti fengin frá gamalli nýlendu sem búin var að leika lausum hala í hálfa öld: ...`` --- Hvaða gömlu nýlendu skyldi vera verið að vitna í? Jú, það er Ísland. --- ,,Veiðikvóta átti að ákveða út frá ráðleggingum Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Færeyingar keyrðu fljótt á ýmsa veggi. Kvótarnir voru litlir og veiddust fljótlega upp. Menn lentu í vandræðum. Þeir áttu ekki næga kvóta fyrir tegundum sem litið var á sem meðafla, t.d. á þorskveiðum. Fiski var fleygt í sjóinn ef ekki var til kvóti fyrir honum.``

Virðulegi forseti. Ég stoppa við í þessari tilvitnun. Er þetta eitthvað sem við þekkjum á Íslandi? Var ég ekki að segja fyrr í ræðu minni að hér hefði verið hent að líkindum allt að 50--70 þús. tonnum árlega í sjóinn. Af hverju var það gert? Það hefur verið gert vegna þess að menn áttu ekki kvótann til og vegna þess að þeir þurftu að veiða stærri fisk, verðmeiri fisk til að útgerð þeirra gæti borið sig. Það var auðvitað vegna leiguliðakerfisins.

,,Alls kyns svindl var stundað í tengslum við skráningu á afla.`` --- Skyldum við þekkja það, virðulegi forseti?

,,Kvótakerfið olli brátt gríðarlegri óánægju í Færeyjum. Sífellt háværari raddir voru um að það væri handónýtt. Bæri að afnema það að hið fyrsta.``

Færeyingar sneru blaðinu við.

,,Eftir aðeins tveggja ára reynslu skildu Danir að kvótakerfið hentaði afar illa við Færeyjar. Stjórnvöld í Kaupmannahöfn féllust á að Færeyingar fengju sjálfir að semja eigin fiskveiðilöggjöf með því markmiði að tryggja sjálfbærar veiðar. Bæði með tilliti til efnahagslegs sjálfstæðis sjávarútvegsins og uppbyggingar fiskstofna.

Færeyska landstjórnin beið ekki boðanna. Hún skipaði svokallaða fiskveiðistjórnarnefnd í árslok 1995. Í henni áttu sæti fulltrúar frá hagsmunasamtökum sjávarútvegsins, landstjórninni og færeysku hafrannsóknastofnuninni.

Nefndin starfaði aðeins í rúma tvo mánuði. Í febrúar árið 1996 kynnti hún sínar tillögur. Lagt var til að kvótakerfið yrði lagt niður.`` --- Eftir tveggja mánaða umfjöllun. --- ,,Í staðinn yrði tekið upp kerfi með framseljanlegum sóknardögum og friðun hafsvæða fyrir veiðum um lengri eða skemmri tíma.

Ekki var tvínónað við hlutina. Þann 1. júní 1996 tóku gildi ný lög um fiskveiðistjórn við Færeyjar. Nú skyldi ekki lengur reynt að stjórna afla, heldur sókn.

Á rúmum tveimur mánuðum var fiskveiðistjórn umbylt við Færeyjar.``

Virðulegi forseti. Það væri ástæða til þess að bjóða hæstv. sjútvrh. upp á samkomulag --- ég þori að gera það úr þessum stól --- bjóða hæstv. sjútvrh. upp á samkomulag um að hann taki upp að hluta til sóknarkerfið færeyska við stjórn á íslenskum fiskveiðum eftir nánari samkomulagi og að þessu máli verði lokið á mjög skömmum tíma á grundvelli slíks samnings. Ég þori að segja þetta, virðulegi forseti, í krafti þess að nauðsynlegt er að hefja breytingar nú þegar á stjórn fiskveiða við Ísland.

Virðulegi forseti. Þetta var gert þannig í Færeyjum að flotanum var skipt upp í ákveðna flokka. Þar eru strandveiðibátar sem veiða með handfærum og línu og svo eru stærri línuskip og togarar. Hvað var ég, virðulegur forseti, að ræða um áðan? Ég var að ræða um fiskveiðar á línu á bátum allt frá 4 tonnum og upp í 500 tonn. Þá sem stunda slíkar veiðar gætum við aðlagað því kerfi á mjög auðveldan máta. Við þurfum ekkert að finna neitt hjól upp. Við þurfum bara að aðlaga það að færeyska fiskveiðistjórnarkerfinu.

Virðulegi forseti. Ég sagði að flotanum hafi verið skipt upp í ákveðna flokka, þ.e. strandveiðibáta sem veiða með handfærum og línu, stærri línuskip og togara. Þessum flokkum var síðan aftur skipt í stærðarflokka, mælt í brúttólestum og vélarstærð. Hver stærðarflokkur af þessum þremur skipaflokkum fékk síðan ákveðinn fjölda sóknardaga. Þeim var skipt jafnt á milli allra skipa í hverjum flokki. Fjöldi skipa í hverjum flokki var takmarkaður með ákveðnum fjölda veiðileyfa. Skipting fjölda veiðidaga var ákveðin út frá aflatölum á árinu 1984--1994. Það var lagt mat á hve stór hluti af hverjum fiskstofni hefði að meðaltali verið veiddur á hverju skipi í ákveðnum flokki. Þetta, virðulegur forseti, liggur allt fyrir með einföldum upplýsingum frá Fiskistofu. Það er mjög aðvelt að aðlaga þetta að ákveðnum hluta íslenska fiskveiðiflotans og hægt að fara allt frá smábátum upp í togara þess vegna ef menn vilja.

Menn gerðu meira. Til viðbótar var færeysku lögsögunni skipt upp í innra og ytra sóknardagasvæði. Einn sóknardagur veitir rétt til að stunda veiðar í einn sólarhring á innra sóknardagasvæði. Hverjum sóknardegi á innra svæðinu má skipta fyrir þrjá sóknardaga á ytra svæði. Margar aðrar skiptingar hafa verið teknar upp. Línuveiðar báta yfir 110 tonn að stærð eru aðeins leyfðar að sex sjómílna mörkunum. Þar fyrir innan geta aðeins litlir línubátar og handfærabátar veitt. Togbátar fá aðeins að fara inn að 12 mílna mörkunum.

[21:30]

Eina undantekningin er að 14 litlir togbátar að 50 tonnum með vélar undir 500 hestöflum fá að fara inn fyrir 12 mílur í fjóra mánuði á ári. Fyrir utan 12 mílna mörkin er stórum svæðum lokað fyrir togveiðum, annaðhvort allt árið eða stóran hluta ársins. Stórum svæðum sem eru hrygningarsvæði nytjafiska innan lögsögunnar er lokað fyrir tog- og línuveiðum á meðan á hrygningu stendur. Netaveiðar eru bannaðar nema á dýpi undir 500 metrum og þá til að veiða grálúðu og skötusel. Dragnótaveiðar eru alveg bannaðar.

Stjórnvöld geta lokað svæðum tímabundið vegna smáfisks eins og gert er við Ísland. Frystitogarar fá ekki að veiða í færeysku lögsögunni. Þeir verða að treysta á veiðar í Barentshafi og á Reykjaneshrygg. Sóknardagakerfið nær eingöngu til botnfisksveiða. Veiðar á uppsjávarfiski eins og síld og makríl eru enn kvótastýrðar. Færeyingar telja að hægt sé að stýra slíkum veiðum með kvótum. Aukaafli í öðrum tegundum er þar ekki vandamál. Auk þess eru stundaðar veiðar úr flökkustofnum sem Færeyingar deila með öðrum þjóðum. Veiðikvótum er skipt með samkomulagi milli landa.

Virðulegur forseti. Það er þingið sem ákveður í Færeyjum. Það má höndla með sóknardaga milli skipaflokka. Meginregla er að sóknardagar eru þá keyptir eða leigðir til allt að 10 ára í senn. Ýmsar undanþágur er að finna í lögunum, t.d. er stjórnvöldum heimilt að tvöfalda fjölda sóknardaga strandveiðiskipa kjósi eigendur þeirra að veiða með handfærum. Stjórnvöld ákveða fjölda sóknardaga á hverju fiskveiðaári sem er frá 1. sept. til 1. sept. árið eftir.

Virðulegur forseti. Mér heyrist að það sem ég var að leggja til að semja um við hæstv. sjútvrh. gæti verið tiltölulega einfalt í framkvæmd. Það er í þessu dæmi, virðulegur forseti, eins og í svo mörgum öðrum að vilji er allt sem þarf. (Gripið fram í.) Það var gert, hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson. Á tveimur mánuðum var breytt úr því kerfi sem var í Færeyjum yfir í sóknardagakerfið. Sjútvrh. flytur lagafrv. þar um á Lögþinginu eftir að hafa fengið ráð um fjölda sóknardaga fyrir næsta fiskveiðaár frá svokallaðri sóknardaganefnd. Þau ráð eru gefin eftir að fiskifræðingar, sjómenn og aðrir hagsmunaaðilar hafa gefið nefndinni umsagnir sínar. Þingið tekur síðan afstöðu til frv., samþykkir það eða fellir. Virðulegur forseti. Það sem er ástæða til að velta fyrir sér í þessari umsögn er að sjómennirnir, skipstjórarnir, hagsmunaaðilarnir eru kallaðir til, og reyndar einnig Hafrannsóknastofnunin. Það er tekið tillit til þeirra manna sem stunda veiðarnar, ráða þeirra og hugsana.

Virðulegur forseti. Fjöldi sóknardaga til hvers skipaflokks hefur reyndar oft verið til umræðu í Færeyjum meðal hagsmunaaðila og stjórnmálamanna. En síðan lögin voru samþykkt hafa verið gerðar nokkrar breytingar. Það sem er staðreynd varðandi þetta færeyska fiskveiðistjórnarkerfi er að þar hafa verið ágæt aflabrögð, bæði á bolfiski, öðrum smáfiski og uppsjávartegundum. Markaðir og afkoma fiskveiða og fiskvinnslu hafa verið með ágætum. Mjög góð sátt ríkir um kerfið eins og það er. Fiskvinnslan og útgerðin eru aðskilin með bókhaldsaðgerðum þannig að segja má að þarna hafi verið gripið til einfaldra, góðra aðgerða sem ég tel að séu til fyrirmyndar fyrir okkur Íslendinga.

Virðulegur forseti. Ég hef lítillega rætt um færeyska fiskveiðistjórnarkerfið, hvernig hægt væri að koma því á í tilraunaskyni á Íslandi, en það sem ég nefndi áðan varðandi umhverfið og aðstæður í sjónum tel ég að sé ekki nándar nærri nógu mikið tillit tekið til á Íslandi. Á Íslandi og víða annars staðar eru notuð í fiskifræði líkön sem hafa þann tilgang að lýsa framrás fiskstofnanna á stærðfræðimáli miðað við gefnar ákveðnar forsendur. Tilgangurinn er m.a. sá að auðvelda mönnum að sjá hvað gerist ef forsendum er breytt. Það er af og frá að líkönin lýsi því sem raunverulega gerist. Til þess taka þau til allt of fárra þátta.

Virðulegur forseti. Það er ástæða til þess að hv. þm. sem hér eru í sal hlýði á lokaorð mín. Þau eru mjög mikilvæg vegna þess að þeir sem taka hinar endanlegu ákvarðanir um stjórn fiskveiða verða að þekkja óvissuna í þekkingu manna á svo mörgum þáttum sem hafa áhrif á stofnútreikningana og þar með veiðiráðgjöfina. Menn verða að vita að meiri hætta er fólgin í friðun þegar hún á ekki rétt á sér en að gripið sé of seint til friðunaraðgerða. Ég segi þessi orð, virðulegur forseti, vegna þess að ég veit að hér er doktor í fiskifræðum sem ég gæti vitnað til vegna nákvæmlega þessara orða, að meiri hætta er fólgin í friðun þegar hún á ekki rétt á sér heldur en að of seint sé gripið til friðunaraðgerða.

Virðulegur forseti. Þessi orð verða lokaorð mín en ég ítreka þó upphafið, að allt það sem hefur gildi í uppeldi mínu segir mér að við eigum að fara gegn íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu, taka það upp og breyta því og hefja að nýju framkvæmd á því. Ég segi eins og ég byrjaði á, virðulegur forseti, að sá rúnasteinn, sá leiðarvísir, sem ég held á í höndum mínum mun vísa mér leið þannig að ég missi ekki af endamarki, og að takmarkið verði alltaf ljóst, þ.e. að breyta og leggja af það íslenska fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum nú við.

Virðulegur forseti. Með þessum orðum og þeirri tilvitnun sem ég hafði í þennan rúnastein sem galdramaður á Ströndum afhenti í dag lýk ég ræðu minni.