Upplýsingar um þingmál

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 10:41:38 (8606)

2002-05-02 10:41:38# 127. lþ. 135.91 fundur 569#B upplýsingar um þingmál# (aths. um störf þingsins), KHG
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[10:41]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Þetta var skemmtileg ræða aldrei þessu vant hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Hann kemur upp og belgir sig í ræðustól og heimtar fund í efh.- og viðskn. til þess að svara fjölmörgum spurningum sem honum hefur dottið í hug síðan nefndin kom saman síðast. (ÖJ: Til þess að svara hér á þinginu.) Farið var fram á fund í efh.- og viðskn. Héðan úr ræðustóli var farið var fram á að haldinn yrði fundur í efh.- og viðskn. (GÁS: Til að greiða fyrir þingstörfum.) Nú er upplýst, eftir að ég gekk á þá þingmenn sem þessar kröfur settu fram, að þeir hafa ekki talað við formann nefndarinnar og þeir hafa ekki beðið um fund í efh.- og viðskn. Er það til að greiða fyrir þingstörfum (Gripið fram í.) að koma upp í upphafi þingfundar og fara fram á að umræðan hefjist ekki um málið vegna þess að þeir vilji fá fund í nefndinni en hafa svo ekki farið fram á fundinn? (Öj: Ég var ekkert ...) Hvers konar málflutningur er þetta, herra forseti?

Hitt er svo annað mál, sem öllum er ljóst, að aldrei verður hægt að halda það marga fundi í efh.- og viðskn. að öllum þeim spurningum sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kann að láta sér detta í hug verði svarað. Það er alveg ljóst að við getum örugglega ekki þurrausið svörin við öllum spurningunum sem fram kunna að verða bornar þannig að það er ekki mælikvarði á það hvenær umræðu er lokið um mál í nefndum að hv. þm. Ögmundur Jónasson geti ekki lengur látið sér detta í hug fleiri spurningar.

Hvað varðar spurninguna um stjórnarskrána þá leitumst við auðvitað við eftir föngum og bestu getu að sjá til þess að mál sem eru lögð fyrr þingið stangist ekki á við stjórnarskrá. Það er hins vegar dómstóla að lokum að skera úr um það. Það er ekki þingsins eða framkvæmdarvaldsins. Það er dómsvaldsins að skera úr um þennan þátt málsins og enginn annar hefur endanlegt úrskurðarvald í þeim efnum.