Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 22:13:31 (8718)

2002-05-02 22:13:31# 127. lþ. 135.14 fundur 520. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir og náttúrustofur) frv. 92/2002, Frsm. meiri hluta MS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[22:13]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Magnús Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, með síðari breytingum, frá meiri hluta umhvn.

Nefndin fjallaði um málið, sendi það til umsagnar, fékk nokkrar umsagnir og fékk síðan á sinn fund fulltrúa umhvrn.

Frumvarpið var lagt fram á 126. löggjafarþingi, en varð ekki útrætt. Fyrir lágu þó nokkrar umsagnir frá þeim tíma um málið.

Meginatriði frumvarpsins eru að lögfestar eru skýrar gjaldtökuheimildir fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Þá er lagt til að náttúrustofur verði samtals átta í stað þess að vera sex talsins og jafnframt er lögð til sú breyting að staðsetning þeirra verði ekki bundin sérstaklega við kjördæmaskipan. Fram hefur komið að æskilegt sé að náttúrustofur dreifist jafnt um landið allt þannig að öll sveitarfélög hafi greiðan aðgang að náttúrustofu. Gengið er út frá því að starfræksla náttúrustofa sé alfarið á ábyrgð þeirra sveitarfélaga sem að þeim standa en með stuðningi ríkisins og að fulltrúar í stjórn komi eingöngu frá sveitarfélögunum sjálfum. Fram hefur komið í máli fulltrúa ráðuneytisins að framlög til einstakra náttúrustofa muni ekki minnka þrátt fyrir fyrirhugaða fjölgun þeirra. Þá er gert ráð fyrir að verkefni þeirra verði aukin og ætlunin er að breytt og aukin starfsemi náttúrustofa muni styrkja sveitarstjórnarstigið í framkvæmd náttúruverndarmála.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að í þeim samningum sem ráðherra mun gera við náttúrustofur, á grundvelli 2. gr. frumvarpsins, verði kveðið á um að umhverfisráðuneytið fundi reglubundið með Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins þar sem farið skuli yfir þau verkefni sem stofnanirnar hafa falið náttúrustofum á grundvelli d- og e-liðar 4. gr. frumvarpsins.

Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum sem gerð er til laga um í sérstöku þingskjali.

Undir nál. skrifa hv. þm. úr umhvn., Magnús Stefánsson, Kristján Pálsson, Katrín Fjeldsted, Gunnar Birgisson, Ásta Möller og Ísólfur Gylfi Pálmason. Með fyrirvara rita undir álitið hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir og Jóhann Ársælsson.