2002-05-03 01:03:44# 127. lþ. 135.2 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál. 30/127, Frsm. 2. minni hluta ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[25:03]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti Við ræðum till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005. Ég ætla ekki að halda langa ræðu í kvöld, en auðvitað er svo sem hægt að taka undir langflest sem þarna er sett á blað. Þetta eru almenn markmið og bollaleggingar. Eins og ég sagði í fyrri umræðu um þetta mál þá er fyrst og fremst talað gegnum fjárlög til að undirbyggja þær tillögur sem svona eru settar fram. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir nefndi það áðan í ræðu sinni að þar stendur oftast hnífurinn í kúnni. Það er þrotlaus barátta fyrir því að fá framlög til sjálfsagðra hluta. Við þyrftum auðvitað miklu lengri tíma, einn eða tvo daga, til að ræða um byggðamálin vegna þess að í mínum huga er aðalvandinn í byggðamálum hér á hinu háa Alþingi.

Við erum í hverri einustu viku að samþykkja lög sem byggja á miðstýringu, núna síðast í dag t.d. um Umhverfisstofnun. Allur sá lagapappír sem fer hér í gegn dregur umsvif og umsýslu frá landsbyggðinni og byggir hana upp hér. Ég nefni Umhverfisstofnunina sem dæmi. Ef við hefðum hugsað á nýtískulegum nótum um stöðu og vægi landsbyggðarinnar þá hefðum við nálgast það mál allt öðruvísi. Við hefðum dreift valdinu, lagt niður fyrir okkur í hversu stóru landi við búum og við hefðum látið verkefnin af hendi þannig að þau yrðu unnin heima fyrir. Ég nefni þetta bara sem dæmi. Við erum í hverjum einasta mánuði að styrkja og efla eftirlitsiðnaðinn í landinu. Í fiskveiðistjórnargeiranum sköpum við t.d. tugi starfa á höfuðborgarsvæðinu á hverju einasta missiri. Þannig nálgumst við ekki þessi mál í dag. Þetta er gamaldagsaðferð. Það hefur verið okkar stærsta vandamál í gegnum tíðina að efla miðstýrt kerfi sem síðan nærir sig sjálft.

Það var stórkostleg byggðaaðgerð á sínum tíma að byggja upp Háskólann á Akureyri og við vorum sammála um það. Það sjá allir. Það hefur verið mjög mikið rætt um þá stofnun og allir eru sammála um að það hefur verið gríðarlega stórt mál og til góðs fyrir Eyjafjarðarsvæði og Akureyri. En bara sem dæmi: Á sama tíma er ráðist í uppbyggingu Háskólans í Reykjavík. Það talar enginn um það sem neitt stórmál. En sá háskóli er t.d. sem háskólaeining kominn fram úr Háskólanum á Akureyri hvað varðar framlög úr ríkissjóði. Það telst sjálfsagður hlutur vegna þess að hann er á þessu svæði. Ef við köfum ofan í þetta sjáum við að við erum í vondum málum hvað grunninn varðar, þ.e. hvernig við hugsum þessi mál.

Tökum líka sem dæmi heilbrigðisgeirann, það sem er næst mér norður á Akureyri. Talað er um það í þessum tillögum að efla Akureyri sem byggðakjarna. Bara lítið atriði þar, endurhæfingarstöðin og bæklunardeild á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og Kristnesi, þá kostar smápeninga að láta þá stofnun þjóna þeim sem þarf að þjóna á því svæði, þ.e. Norður- og Austurlandi. En fyrir því er ekki vilji að það sé gert og fyrir vikið eflast tilsvarandi stofnanir hér sem þjóna síðan þessum aðilum og taka við, eins og þeir kalla það, og eru síðan sjálfala nánast á framlögum úr ríkissjóði í framhaldi af því. Þetta eru grunnatriði.

Ef við ætlum að efla hinar dreifðu byggðir þá verðum við að gera það út frá þeirri grunnhugsun að brjóta upp þann fasa sem við erum föst í hvað þetta varðar. Mál eftir mál í þinginu veikir landsbyggðina. Útibúastefna og að færa stofnanir ríkisins út á land er mjög vandasamt verk og hefur hingað til ekki gefist vel. Um stundarsakir getur það gengið, samanber t.d. svæðisútvarpið á Akureyri. Meðan menn höfðu metnaðinn til þess og voru sammála um að efla ætti starfsemina þar var staðan þannig að stöðugildin voru orðin 11. En síðan misstu menn móðinn og létu stofnunina sem slíka ráða ferðinni. Á örfáum missirum er starfsemin helminguð, fór ofan í 4,5--5,5 stöðugildi. Það er mjög erfitt að nálgast þessi mál á þeim nótum sem við höfum gert hingað til. Við keyrum þetta samfélag á miðstýringu og það er ein höfuðástæða þess hvernig komið er fyrir okkur. Þá tek ég út fyrir sviga stóru málin eins og fiskveiðistjórnarkerfið og allt sem að því lýtur.

Rekstur hins opinbera hefur gríðarlegu hlutverki að gegna. Ég nefni sem dæmi, af því að maður tekur það sem manni er næst, að hið opinbera gaf tóninn norður á Akureyri á allra síðustu árum með smávægilegum framlögum í tvo pósta, þ.e. Háskólann á Akureyri og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, þ.e. hvora stofnun fyrir sig. Gerður var samningur um uppbyggingu við Háskólann á Akureyri sem losaði 100 millj. Síðan var skotið inn uppbyggingu við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri í svipuðum skala. Þetta hafði gríðarleg áhrif. Í fyrri ræðu minni um þessi mál gat ég þess að í raun þyrfti kannski enga byggðastefnu eða till. til þál. um byggðastefnu af þeim toga sem hér er vegna þess að í langflestum liðum er hægt að tala þessu máli í gegnum fjárlögin. En það er ekki gert.

Varðandi svæði eins og Eyjafjarðarsvæðið þá þarf í raun að tala í gegnum fjárlögin og gefa tóninn þar til uppbyggingar og reksturs á ríkis- og sveitarstjórnarplani þannig að fólk sé meðvitað um það og finni á sér að standa eigi að því að byggja upp viðkomandi svæði. Þetta er lykilatriði í mínum huga.

Ég hef komið að gerð svona áætlana í námi mínu erlendis, í Skandinavíu. Sú grunnhugsun sem er sett fram með eflingu byggðakjarna hefur ekki tekist neins staðar. Það er einfaldlega vegna þess að til lengri tíma litið stenst byggðakjarni ekki ef baklandið fúnar. Þetta er augljóst hverjum manni ef við tölum um Akureyri, Ísafjörð eða Egilsstaði. Það er verið að nefna þessa þrjá staði. Það er nákvæmlega jafnslæmt fyrir Akureyri sem kaupstað og efnahagskerfið þar ef það fækkar um 50 manns í Ólafsfirði og ef það fækkaði um 50 manns í bænum. Þannig er staðan orðin. Nánast öll þjónustan er fengin á svæðinu, á Akureyri, þannig að baklandið er algjört lykilatriði og allt sem við erum að byggja upp, hvort sem það eru sjúkrastofnanir, öldrunarþjónusta eða skólar, byggir á fólkinu á þessu baklandi. Þetta vitum við. Svíar fóru í að efla byggðakjarna á sínum tíma. Það gafst vel meðan tæmingin átti sér stað. Það þekkjum við líka frá Vestfjörðum að auðvitað fjölgaði á Ísafirði meðan Strandir voru að tæmast. Hluti fólksins sem bjó þar flutti inn á Ísafjörð o.s.frv. Þetta er gríðarlegt umhugsunarefni. Ég held að þetta sé fyrst og fremst stjórnsýsludæmi hjá okkur og höfuðvandamál okkar er miðstýringaráráttan sem við ástundum hér.

Síðan er hugsunarhátturinn alveg makalaus vegna þess að á síðustu tíu árum alla vega hefur sú stefna verið keyrð að ekki megi styrkja neitt nema í litlum mæli sé og að markaðurinn eigi að ráða o.s.frv. En á sama tíma er beint og óbeint verið að nota opinbert fé til stórkostlegrar uppbyggingar á höfuðborgarsvæði. Menn voru t.d. ekki feimnir við að nýta sér afl fyrirtækja, t.d. Landssíma Íslands eins og hann væri eins konar atvinnuþróunarsjóður fyrir hugbúnaðargeirann á höfuðborgarsvæðinu.

Mér sýndist á plöggum sem við skoðuðum um daginn að Landssíminn hefði verið notaður til þess að koma af stað líklega í kringum 10--15 fyrirtækjum með tuga milljóna kr. framlagi. Ég held að það hafi verið um hálfur milljarður. Síðan missa menn andann yfir því ef farið er fram á smáar upphæðir til þess að leiðrétta gríðarleg mistök eða áföll sem eiga sér stað úti á landi, eins og þrautaganga okkar þingmanna Norðurl. e. fyrir Hrísey upp á einar 30 millj. ber vitni um. Það var bara ómögulegt að koma því í gegn. En á sama tíma var hitt hægt. Menn loka bara augunum fyrir þeirri sjálfvirkni sem hér er, þ.e. sjálftöku á opinberu fé sem þyrfti að kortleggja hvernig í ósköpunum getur átt sér stað. Við verðum að fara yfir í þessa grunnþætti og velta þeim fyrir okkur. Við þurfum miklu lengri tíma til þess að fá frjóa umræðu um þá. Hér verður ekki frjó umræða klukkan að ganga tvö að nóttu um þetta stóra mál. Það er augljóst í mínum huga.

[25:15]

Virðulegi forseti. Ég held að við verðum að taka okkur tak og skoða hvernig aðrir hafa farið í þessi mál. Að mörgu leyti erum við náttúrlega að vinna með gamlar lummur sem hafa ekki gengið annars staðar. Það liggur ljóst fyrir. Þessi stjórnsýslumál eru einn meginþátturinn í vanda okkar í tengslum við búsetumálin.

Annar minni hluti átelur harðlega flaustursleg vinnubrögð við gerð áætlunarinnar og umfjöllun um hana. Í hana vantar stefnu og heildarsýn varðandi byggð og búsetumál í landinu öllu. Það vantar bæði áætlun um hvernig kjör fólks skulu jöfnuð eftir aðstæðum og búsetu og áætlun um jöfnun samkeppnisstöðu atvinnulífs í hinum dreifðu byggðum landsins. Á þeim málum er ekkert tekið. Áætlunin er almennt orðuð án þess að þar séu settar fram áætlanir um kostnað og framlög til einstakra málaflokka sem er þó algjörlega nauðsynlegt til að ná einhverjum árangri í þessum málaflokki. Áætlunin hefur fengið mjög takmarkaða umfjöllun í nefndinni. Hún var afgreidd í miklum flýti og ljóst er að það hefði þurft að vinna hana miklu betur og samhæfa við þær tillögur sem hafa komið frá öðrum stjórnmálaöflum. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram fjölda mála sem eiga heima í áætlun af þessu tagi. Má nefna þar til sögunnar styrkingu skipaiðnaðar, framlög til atvinnuþróunarfélaga, strandsiglingar, almenningssamgöngur í Eyjafirði og aðgerðir í byggðamálum. Þetta eru þær tillögur sem við höfum sett fram.

Ég vil vitna í hæstv. fjmrh. sem tók þátt í umræðunni fyrr í kvöld og viðurkenndi að við hefðum verið kaþólskari en páfinn, t.d. í sambandi við skipaiðnaðinn, og fyrir vikið horft fram á hrun hans. Þetta kom fram í umræðunni um ríkis\-ábyrgð fyrir stórfyrirtækið Íslensk erfðagreining og deCODE. Það var einn liðurinn í því að þessi iðnaður hrundi gjörsamlega. Hann er ekki beysinn lengur og beinist nánast eingöngu að viðgerðum. Auðvitað hanga þessi mál öll saman.

Þá er þess að geta að sjávarútvegsstefnan er veigamikill þáttur í þróun byggðamála. Hún er í uppnámi. Engin tilraun hefur verið gerð af hálfu stjórnarmeirihlutans til þess að koma til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar í þeim efnum.

Margt í áætluninni er þó góðra gjalda vert sem markmið, en áætlun af þessu tagi er gagnslaus nema með fylgi áætlun um framlög til aðgerða. Byggðaáætlun verður að byggjast á efnahagslegum forsendum, en þær eru ekki fyrir hendi þannig að líta verður á þessa áætlun sem almennar bollaleggingar. Það gerist ekkert nema fyrir hendi sé markviss áætlun um fjárveitingar til margra þeirra málaflokka sem dregnir eru fram í tillögunni og eru í sjálfu sér góðra gjalda verðir. Þannig telur 2. minni hluti að á grunni tillögunnar hefði þurft að vera viljayfirlýsing ríkisstjórnarinnar um tilgreinda fjármuni til þessara hluta.

Annar minni hluti telur að vandi hinna dreifðu byggða sé af pólitískum toga. Stefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur verið hlutafélagavæðing og síðan einkavæðing grunnþjónustufyrirtækja í samfélaginu. Stefnan hefur verið sú að horfa á hagkvæmni stærðarinnar og stuðla að fækkun og stækkun fyrirtækja. Stefna ríkisstjórnarflokkanna er þannig andstæð hugmyndum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um fjölbreytilegt atvinnulíf og styrkar stoðir þess í hinum dreifðu byggðum landsins.

Annar minni hluti átelur harðlega að áætlunin hafi ekki fengið meiri og víðtækari um fjöllun, bæði í iðnaðarnefnd og á Alþingi og telur miður að ekkert hafi verið gert á Alþingi til þess að skapa breiða samstöðu um innihald hennar. Til þess var fullt tilefni og engin ástæða til að ætla annað en að það hefði getað tekist með meiri umfjöllun og vinnu. Þessi byggðaáætlun er alfarið á ábyrgð stjórnarmeirihlutans og mun 2. minni hluti, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Þetta mál er alfarið á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar og þeirra þingmanna sem hana styðja. Ég árétta þó, eins og kemur fram í nál., að auðvitað er margt góðra gjalda vert í tillögunni, almennar yfirlýsingar og bollaleggingar um byggðamál.