2002-05-03 02:48:02# 127. lþ. 135.2 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál. 30/127, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[26:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gerði það. En ég hefði heldur kosið að ríkisstjórnin hefði á þessu stigi málsins veitt fjármagn til að kanna með hvaða hætti er best að afla óslægðs þorsks til áframeldis. Auðvitað má spyrja hv. þm., af því að verið er að tala um óslægðan þorsk: Veit hv. þm. til þess að einhvers staðar sé veitt heimild til þess að nota slægðan þorsk við áframeldi?

Herra forseti. Nú er það svo að það er talsvert erfitt að veiða stálpaðan fisk í náttúrlegu umhverfi og koma honum á legg. Það hefur sá sem hér talar reynt í tilvikum tveggja tegunda, sandhverfu og þorsks. Í bæði skiptin var það að vísu utan landsteina Íslands.

Herra forseti. Það er nákvæmlega ekkert eða mjög lítið vitað um hvaða aðferðum er best að beita. --- Ef hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vildi hlusta á mig, þá yrði ég glaður. --- Það er nákvæmlega ekkert um það vitað hvaða aðferðum er best að beita til að ná stálpuðum þorski til áframeldis. Á að taka hann í einhvers konar nætur? Á kannski að taka hann á króka? Ég taldi upphaflega að það væri ákaflega erfitt að taka hann á króka vegna þess að hann mundi særast og yrði erfitt að koma honum upp. En reynslan sýnir annað.

Við þurfum hins vegar að kanna hvaða aðferðum er best að beita. Væri kannski heppilegast að taka hann í gildrur þar sem hann særist ekki neitt og engin hætta er á að sundmaginn láti undan út af þrýstingi eins og í nótum eða trolli? Við hefðum á þessu stigi málsins átt að veita fjármagn til þess að kanna þetta. Hefur hv. þm. beitt sér fyrir því? Ekki vil ég saka hann um annað. En ekki hef ég séð Byggðastofnun gera það, ekki hef ég séð stjórnarliða gera það. Það hefur hins vegar verið reifað í þessum sölum af hálfu stjórnarandstöðu.

Ef menn ætla að byggja upp atvinnuveg á grundvelli þess að veiða þorsk og ala hann áfram, af hverju ráðast menn ekki í rannsóknir á með hvaða hætti er best að gera það?