2002-05-03 05:18:29# 127. lþ. 136.1 fundur 662. mál: #A raforkulög# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 127. lþ.

[29:18]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég á svolítið erfitt með að átta mig á hvers vegna efnt er til þessarar umræðu nú á sjötta tímanum því að frv. hefur verið lagt fram í þinginu og ætti þannig að fullnægja skilyrðum sem sett eru í Brussel hvað það snertir.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er með þessu frv. verið að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku. Frá þessu segir í 1. gr. frv. Þetta er hið fyrsta sem upp er talið og megináherslan í máli hæstv. ráðherra var á þetta, enda áréttaði hún að sett hefði verið fram mikil gagnrýni um skort á samkeppni í raforkugeiranum.

Hvaðan hefur þessi gagnrýni komið? Frá almenningi í landinu? Það er talað líka um nauðsyn þess að skapa fjárfestum eðlileg og góð skilyrði. Ég held að almenningur á Íslandi sé upptekinn við annað en þetta. En þetta er nálgun úr þessari fjárfestingar- og markaðsvæðingarátt.

Sú gagnrýni sem ég hef heyrt er að ríkisstjórnin skuli ekki hafa haft dug í sér til að leita eftir undanþágu frá reglum Evrópusambandsins og gagnrýnin sem ég hef heyrt, bæði frá almenningi og innan úr raforkugeiranum, er einmitt sú að okkur sem stöndum utan markaðssvæðis Evrópu skuli gert að laga okkur í einu og öllu að reglustiku Brussel-valdsins, Evrópu. Kom það aldrei til álita af hálfu ríkisstjórnarinnar að leita eftir slíkri undanþágu og kemur það enn til greina að fara fram á slíka undanþágu? Það kæmi ekki í veg fyrir það hins vegar að við gerðum ýmsar breytingar. En okkur væri þá í sjálfsvald sett að ákveða hverjar þær yrðu.