2002-05-03 05:20:47# 127. lþ. 136.1 fundur 662. mál: #A raforkulög# (heildarlög) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 127. lþ.

[29:20]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ekki er um það að ræða að við sækjum um það nú að fá undanþágu frá þessari tilskipun. Ég tel reyndar að ekki hafi heldur verið grundvöllur til þess að fara fram á það fyrr á þessu ferli. Þessi tilskipun er staðreynd sem við þurfum að innleiða og þyrftum að hafa innleitt í sumar fyrir 1. júlí. Það mun ekki takast. Ég tel þó mikilvægt að málið er til umfjöllunar á Alþingi. Mælt hefur verið fyrir því hér. Síðan verðum við að sjá til hvernig ESA mun taka á því. En ég vonast svo sannarlega til þess að það verði að lögum snemma á haustþingi.

Ég tel að þetta mál sé í raun engin neyð fyrir okkur Íslendinga, að það sé ekki bara vegna tilskipunarinnar að mikilvægt sé að við förum í þessa breytingu. Ég held að hún muni leiða af sér gegnsæi í raforkukerfinu sem er mikilvægt. Ég held að með þessu frv. getum við séð fram á nýja tíma og mikla þróun í raforkugeiranum sem verði okkur öllum til framdráttar, bæði neytendum og fyrirtækjum í landinu.