2002-05-03 05:22:17# 127. lþ. 136.1 fundur 662. mál: #A raforkulög# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 127. lþ.

[29:22]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála hæstv. ráðherra um að ekki hafi verið forsendur til að leita eftir undanþágu. Ég tel tvímælalaust að forsendur hafi verið til þess að leita eftir undanþágu, fyrst og fremst vegna þess að við erum ekki hluti af markaðssvæði Evrópu.

Varðandi gagnrýni sem fram hefur komið þá er hún efnisleg. Ég nefni sem dæmi að starfsmenn Orkubús Vestfjarða kvörtuðu yfir því að vera gert að aðgreina í öllum rekstri sínum framleiðslu, dreifingu og sölu á orkunni. Ég átti þess einhvern tíma kost að spyrja þá út í þetta og þeir töldu þetta valda sér erfiðleikum og væri síður en svo til þess fallið að færa raforkuverðið niður. Þvert á móti yrði þetta til trafala og mundi ef eitthvað hækka raforkuverðið.

Gegnsæi í raforkumálum er nefnt um leið og talað er um að blása út eftirlitsiðnaðinn. Við erum búin að heyra þetta allt saman áður. Við þekkjum þetta í rafmagnseftirlitinu. Gegnsæi hefur ekki aukist þar. Þetta er svona tískuhugtak. Ef út í það væri farið þá væri hægt að hafa langt mál um hinar slæmu afleiðingar fyrir almenning vegna markaðsvæðingar raforkunnar í Evrópu. Ég vil í því sambandi benda hæstv. ráðherra á að kynna sér upplýsingar sem m.a. eru komnar frá verkalýðshreyfingunni um afleiðingar markaðsvæðingar raforku í París og London, en nýlega var gefinn út bæklingur eða bók sem heitir Frásögn frá tveimur borgum, þar sem talað er um vaxandi orkufátækt sem þeir kalla svo þar um slóðir.