2002-05-03 05:24:30# 127. lþ. 136.1 fundur 662. mál: #A raforkulög# (heildarlög) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 127. lþ.

[29:24]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um að hv. þm. hefur leitað eftir einhverju neikvæðu um heim allan til þess að koma hér á framfæri í tengslum við þessa umræðu. En það er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir að innleiða þessa tilskipun. Eins og ég sagði áðan tel ég ekki að það sé neikvætt vegna þess að ég tel að mikilvægt sé að við tökumst á við þetta verkefni. Ég nefni sem dæmi að Norðmenn höfðu innleitt kerfi sem þetta án þess að vera tilneyddir og töldu sig hafa mikinn hag af því.

Hv. þm. gaf hér til kynna að það þyrfti að aðskilja á milli allra þátta. Það er ekki rétt. Það þarf að aðskilja milli einokunarþátta og samkeppnisþátta. Það þarf ekki að aðskilja hvað varðar fyrirtækjaaðskilnað heldur einungis hvað varðar bókhaldslegan aðskilnað miðað við það frv. sem nú er lagt fram. Ég held að með því sé komið mjög til móts við þá aðila sem fyrst og fremst fundu að því frv. sem lagt var fram fyrir ári síðan.