Sala á hlutabréfum Landssímans hf.

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 13:45:10 (341)

2001-10-10 13:45:10# 127. lþ. 8.94 fundur 59#B sala á hlutabréfum Landssímans hf.# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Alþingi samþykkti sölu Landssímans á vordögum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs voru sölunni andvígir. Við höfum síðan þá ítrekað mótmælt sölunni og varað ríkisstjórnina við að hún væri á rangri leið. Einkavæddur Landssími, ég tala nú ekki um í meirihlutaeigu útlendinga, mun koma á fullkominni einokun á markaðnum. Sú einokun mun koma niður á neytendum og ekki síst bitna á hinum dreifðu byggðum landsins. Þess vegna á ekki að selja Landssímann. Þjóðin verður ekkert sáttari við söluna þó að Búnaðarbankinn sé skammaður eða forstjóri Landssímans látinn víkja úr starfi. En þetta segir sína sögu um þennan vef og vandræðagang sem í kringum söluna hefur verið.

Síminn og fjarskiptin eru grunnþættir í öryggisneti þjóðarinnar. Nú eru ekki tímar gáleysis í öryggismálum þjóðarinnar né til fjárhættuspils með eignir ríkisins á alþjóðapeningamörkuðum.

Landssíminn er sterkt fyrirtæki sem skilar milljörðum króna á ári í beinar tekjur til ríkissjóðs. Landssíminn á áfram að vera opinbert fyrirtæki í eigu allra Íslendinga. Styrk fyrirtækisins á að beita með auknum krafti til að byggja áfram upp öflugt dreifikerfi um allt land. Það á að tryggja öllum landsmönnum jöfnuð og góða þjónustu án tillits til búsetu. Þetta les ég sem skilaboð þjóðarinnar þegar hún hafnaði sölu Landssímans. Það er krafa þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. staldri hér við í einkavæðingunni og endurmeti allar áætlanir sínar um sölu Landssímans.