Sala á hlutabréfum Landssímans hf.

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:00:34 (348)

2001-10-10 14:00:34# 127. lþ. 8.94 fundur 59#B sala á hlutabréfum Landssímans hf.# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:00]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Við í stjórnarandstöðunni og þingheimur allur heyrðum ekki svona ræður þegar verið var að setja Tal á markaðinn á sínum tíma. Þá komu ekki ráðherrar og þingmenn Sjálfstfl. og héldu stólparæður um að það þyrfti að gera allt sem hægt væri til þess að hjálpa Tal hf. og eigendum þess til að koma sér vel fyrir á markaðnum. En ég vænti þess auðvitað að þetta bendi til þess að það séu einhvers konar veðrabrigði í vændum hjá hv. þingmönnum stjórnarliðsins.

Ég er sammála því sem hæstv. samgrh. segir og hér hefur komið fram í umræðunni að Síminn er fínt fyrirtæki. Það stendur ákaflega vel tæknilega og viðskiptalega og er vonandi hægt að fá það verð fyrir fyrirtækið sem hæstv. ráðherra óskar eftir.

En mér þykir vænt um að hæstv. ráðherra hafi rifjað upp það sem ég sagði hér á vordögum, að fyrst menn á annað borð ákváðu að selja Símann þá hefðu þeir átt að fara í það fyrr. Hvers vegna? Vegna þess að þá væri Síminn ekki verðlagður á 40 milljarða, þá hefði hann verið seldur á 60--70 milljarða. Er það ég sem held því fram, herra forseti? Nei, það er formaður einkavæðingarnefndar sjálfur sem sagði í Kastljósi, tvítók það raunar, að fyrir ári hefði mátt selja Símann fyrir 60--70 milljarða. Hann sagði á sama vettvangi að undirbúningurinn hefði verið nægur, með leyfi forseti:

,,Við hefðum getað verið tilbúnir til þess í fyrra en það var ákveðið að gera það ekki. Það var ákveðið að fara ekki af stað vegna þess að þá voru fyrirhuguð útboð annarra fyrirtækja.``

Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af þessu en þá, herra forseti, að þessi töf hafi þá kostað íslenska ríkið ansi háar upphæðir.

Hvað var það sem stóð sem ein af lykilforsendunum í frv. um sölu Landssímans og sölu bankanna líka? Að fá sem mest fyrir bankana á markaði. Það er ekki það sem hæstv. ráðherra hefur gert. Honum hafa orðið á margvísleg mistök og hann væri maður að meiri ef hann axlaði þau og viðurkenndi einfaldlega að mönnum hefðu orðið á mistök. Í stað þess kemur hann hingað og notar ekki tækifærið til þess að biðja Búnaðarbankann afsökunar, hann notar ekki tækifærið til þess að draga ásakanir sínar á hendur honum til baka, hann notar ekki tækifærið til þess að biðja lífeyrissjóðina afsökunar, hann notar ekki tækifærið til þess að draga ásakanir sínar á hendur þeim til baka. Hann kemur hingað og hristir sig bara eins og reigður hani, honum finnst allt vera í góðu lagi. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Það eru ríkisstjórnin og einkavæðingarnefndin sem bera ábyrgð á þessum mistökum.