Sala á hlutabréfum Landssímans hf.

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:03:00 (349)

2001-10-10 14:03:00# 127. lþ. 8.94 fundur 59#B sala á hlutabréfum Landssímans hf.# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:03]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu sem er að ljúka hér. Ég verð að viðurkenna að það er ekki nærri eins mikið afl í stjórnarandstöðunni í þessari umræðu og ég bjóst við miðað við allar þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar um framvindu sölunnar. (ÖJ: Menn hafa nú bara tvær mínútur.) En ég undraðist mjög orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar þegar hann nafngreindi hér símafyrirtæki og einstaklinga í þeim tilgangi að reyna með því að gera söluna tortryggilega. Það liggur fyrir að með auglýsingu var aðilum, væntanlegum kjölfestufjárfestum, gefinn kostur á því að vera í hópi þeirra sem fengju að gera tilboð. Það hefur engum verið boðið það sérstaklega og það hefur ekki verið fallist sérstaklega á að þeir aðilar sem hv. þm. nefndi geri tilboð. Úr þessu er verið að vinna og það er fullkomlega óeðlilegt (Gripið fram í.) að láta að því liggja að það sé sérstaklega verið að sækjast eftir einum frekar en öðrum. (Gripið fram í.) Og ég held að hv. þm. ætti að fara betur yfir ræðu sína áður en hann kallar hér meira fram í.

En varðandi framvindu þessarar sölu þá er alveg ljóst að við gerðum ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir kæmu að þessu. Hins vegar er þetta ekki í fyrsta sinn sem lífeyrissjóðirnir í landinu sitja hjá þegar ríkið selur, og mætti minnast þeirra fyrirtækja sem við höfum staðið að sölu á og m.a. held ég að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi verið áhugamaður um sölu fyrirtækisins og Þróunarfélagsins.

En hvað um það. Við höldum okkar striki. Ríkisstjórnin hefur ekki hugsað sér að fara að ráðum stjórnarandstöðunnar og lækka verðið eða falla frá þeim áformum sem uppi eru um söluna. Við munum halda okkar striki. Síminn stendur fyrir sínu.