Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:24:47 (356)

2001-10-10 14:24:47# 127. lþ. 8.95 fundur 60#B fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:24]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Þegar ræddar eru aðhaldsaðgerðir hjá Ríkisútvarpinu er rétt að rifja upp að í desember á síðasta ári fékk Ríkisútvarpið heimild til þess að hækka afnotagjöldin um 7% og tók sú breyting gildi þann 1. jan. sl. Sú hækkun skilar um 280 milljónum í viðbótartekjur frá fjárlögum yfirstandandi árs.

Ég nefni þetta sérstaklega til að bregðast við málflutningi hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hér í upphafi um það að sífellt sé verið að þrengja að Ríkisútvarpinu. Hins vegar, og það er alveg ljóst, hefur þrengt að á auglýsingamarkaði. Það kemur að sjálfsögðu niður á Ríkisútvarpinu eins og öðrum fjölmiðlum. Og þá er von að spurt sé: Hvernig á að bregðast við því? Á þá að rjúka til og heimila meiri hækkun á afnotagjöldum? Ég segi nei. Ríkisútvarpið verður að mæta þeim tekjusamdrætti með aukinni hagræðingu í rekstri rétt eins og önnur fyrirtæki.

Ég get nefnt sem dæmi að það væri unnt að sameina t.d. fréttastofur útvarps og sjónvarps. Og mér þótti mjög athyglisverð hugmynd menntmrh. um að flytja Rás 2 til Akureyrar. Það gæti svo sannarlega styrkt svæðisútvarpið.

En ég vil draga það sérstaklega fram að það sem stendur Ríkisútvarpinu helst fyrir þrifum um þessar mundir er úrelt löggjöf sem þrengir að starfsemi stofnunarinnar og kemur í veg fyrir að hún fái lagað sig nægilega vel að breyttum aðstæðum í fjölmiðlarekstri. Sú ósk hefur komið fram frá forráðamönnum stofnunarinnar að Ríkisútvarpinu yrði breytt í hlutafélag og sú ósk kom eftir mjög ítarlega skoðun þar innan dyra. Það er orðið mjög brýnt að endurskoða lög um Ríkisútvarpið, breyta stofnuninni í hlutafélög í eigu ríkisins og skoða allar leiðir til tekjuöflunar fyrir Ríkisútvarpið. (ÖJ: Þetta var í andstöðu við samtök starfsmanna.)