Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:31:54 (359)

2001-10-10 14:31:54# 127. lþ. 8.95 fundur 60#B fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), SI
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:31]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Sérstaða Ríkisútvarpsins, útvarps allra landsmanna, hefur hingað til verið fólgin í því að sinna vel landsbyggðinni. Nú þegar kreppir að og skera þarf niður kostnað verð ég að lýsa undrun minni og áhyggjum vegna þess að niðurskurðinum skuli vera beint í svo stórum mæli að svæðisútvörpunum. Rekin eru þrjú svæðisútvörp úti um landsbyggðina. Á Vestfjörðum er tækniþjónustan skert verulega, á Austfjörðum dregst útsendingartími saman um fjórðung og útvarp Norðurlands fer langverst út úr þeim aðgerðum sem nú eru í gangi hjá Ríkisútvarpinu þar sem útsendingartími þess hefur minnkað um helming.

Þarna er á ferðinni stórlega skert þjónusta við þetta svæði sem nær frá Ströndum austur á Langanes og telur tæplega 40 þúsund íbúa. Starfsfólki hefur að sjálfsögðu verið sagt upp störfum í kjölfar breytinganna en 1996 voru tíu stöðugildi við RÚVAK en eru nú um sex.

Þar sem starfsfólk svæðisútvarpsins hefur einnig sinnt fréttaöflun og fréttavinnslu fyrir aðalfréttatíma Ríkisútvarpsins má búast við að fréttaþjónusta Ríkisútvarpsins almennt af landsbyggðinni verði ekki söm og áður.

Annað sem vert er að líta á hjá útvarpi allra landsmanna er dreifingarkerfið en útvarpið hætti að senda út á miðbylgju fyrir ári síðan þegar Skjaldarvíkursendir var lagður niður. Á Eyjafjarðarsvæðinu, í Fnjóskadal, í Víkurskarði og víða þar fyrir austan virðast útsendingar ekki nást, hvorki á FM né langbylgju eftir að Ríkisútvarpið hætti útsendingum um Skjaldarvíkursendi. En ég fagna þeirri yfirlýsingu sem fram kom í máli hæstv. menntmrh. varðandi framtíð svæðisútvarpsins á Akureyri, þ.e. að það verði miðstöð svæðisútvarpanna og þar með eflist þau og dafni um ókomna tíð.