Lyfjastofnun

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:50:11 (366)

2001-10-10 14:50:11# 127. lþ. 8.2 fundur 104. mál: #A Lyfjastofnun# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Í fyrra gengu í gildi ný lög sem sameinuðu Lyfjaeftirlit og lyfjanefnd ríkisins þannig að úr varð ný stofnun, Lyfjastofnun ríkisins. Það var því að vonum að stjórn Byggðastofnunar ákvað á fundi sínum að rita viðkomandi ráðherra bréf og vekja athygli á þessu í samræmi við hina samþykktu byggðaáætlun þar sem kveðið var á um að lögð yrði áhersla á að opinberum störfum fjölgaði eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og að því markmiði yrði m.a. náð með því að leitast við að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins. Stjórnin leit svo á að með stofnun nýrrar stofnunar, Lyfjastofnunar, gæfist gott tækifæri til þess að efna þau fyrirheit sem gæti að líta í byggðaáætluninni sem samþykkt var hér á Alþingi.

Það var mat stjórnvalda, hæstv. þáv. heilbrrh., að hér væri strangt til tekið ekki um að ræða nýja stofnun heldur sameiningu tveggja stofnana og þess vegna ætti þetta ákvæði ekki við. Ég er að vísu alveg ósammála þessari lagatúlkun hæstv. ráðherra en látum það liggja á milli hluta vegna þess að hæstv. þáv. ráðherra lýsti því yfir í blaðaviðtali í Degi 12. ágúst árið 2000 að, svo ég vitni nú orðrétt í hæstv. ráðherra:

,,Ég mun leggja áherslu á það við nýjan forstjóra stofnunarinnar sem ráðinn verður innan tíðar að hann setji öll þau verkefni út á land sem hægt er að vinna þar. Þá á ég við þá eftirlitsþætti sem eru úti á landi og þau verkefni önnur sem mögulegt er að vinna annars staðar en í Lyfjamálastofnun.``

Þegar skoðuð eru þau ákvæði lyfjalaganna þar sem kveðið er á um hlutverk Lyfjastofnunar er auðvitað greinilegt að mjög mörg þau verkefni sem unnin eru innan vébanda þeirrar ágætu stofnunar eru þess eðlis að staðsetning starfsmanna skiptir ekki öllu máli. Það er kveðið á um að meta skuli lyf og aðrar vörur sem undir þessi lög heyra í samræmi við reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem að annast útgáfu, breytingu, niðurfellingu og afturköllun markaðsleyfa lyfja, afgreiða umsóknir um leyfi til að flytja lyf inn og selja gegn lyfseðli, annast útgáfu leyfa til rannsókna með lyf, annast skráningu aukaverkana lyfja og upplýsingagjöf o.s.frv., hvers konar eftirlit, skráningu og náttúrlega sérstaklega skráningarstarfsemi sem er augljóst að getur vel átt heima utan höfuðborgarsvæðisins og jafnvel utan þeirrar stofnunar þó að hún sé staðsett á höfuðborgarsvæðinu.

Þess vegna hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. um þetta mál með eftirfarandi spurningu:

Hver varð árangurinn af tilmælum ráðherra á árinu 2000 um að færa verkefni hinnar nýju Lyfjastofnunar, svo sem eftirlitsþætti, í auknum mæli út á land?