2001-10-10 15:04:05# 127. lþ. 8.3 fundur 100. mál: #A mat umsjónarnefndar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma á gildi lands norðan Vatnajökuls# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:04]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á síðasta þingi urðu nokkur orðaskipti á milli mín og hæstv. umhvrh. um mat á ólíkum nýtingarkostum lands á svæðinu norðan Vatnajökuls og samanburð á þeim tveimur kostum að virkja á svæðinu eða stofna þar þjóðgarð. Hæstv. umhvrh. upplýsti Alþingi þá um að hún hefði sent hæstv. iðnrh. ákveðið erindi þar sem þess var óskað að ráðuneytið fæli verkefnisstjórn rammaáætlunar að kanna hvort og með hvaða hætti verkefnisstjórnin gæti tekið á þeim þáttum að meta eða leggja einhvers konar mat á möguleika svæðisins fyrir uppbyggingu á sviði þjóðgarðs eða náttúruverndar.

Ég spurði hæstv. iðnrh. síðar á þinginu hvað hefði gerst varðandi þetta erindi og hvernig vinnunni yndi fram. Hæstv. ráðherra svaraði mér og hv. þingmenn geta kynnt sér svar hennar á þskj. 1414 í máli 698 frá síðasta þingi. Hæstv. ráðherra sagði eftirfarandi í svarinu, með leyfi forseta:

,,Umsjónarnefndin er að leggja lokahönd á fyrstu drög skýrslu sinnar um gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð.``

Þar kemur fram að umsjónarnefnd með verkefninu hafi verið skipuð. Síðan segir í svarinu, herra forseti:

,,Ætlunin er að kynna þau á fundi verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Það fer eftir viðbrögðum verkefnisstjórnar hvenær endanleg skýrsla verður tilbúin. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun verður skýrsla um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar auglýst á næstunni. Skýrslurnar ættu því að geta legið frammi á sama tíma.``

Þegar þetta er ritað, herra forseti, er liðið undir vor á Alþingi. Eins og menn vita kom skýrsla Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og um hana var fjallað í eðlilegu ferli. En aldrei hefur komið upp á borðið umtöluð skýrsla þessarar umsjónarnefndar svo að ekki var því að heilsa að hún lægi frammi til skoðunar á sama tíma og matsskýrsla Landsvirkjunar um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar. Nú tel ég því fyllilega tímabært, herra forseti, að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður þessari skýrslu téðrar umsjónarnefndar?