Orkukostnaður lögbýla

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:12:35 (376)

2001-10-10 15:12:35# 127. lþ. 8.4 fundur 105. mál: #A orkukostnaður lögbýla# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Á liðnu ári spurði ég hæstv. iðnrh. nokkurra spurninga sem tengjast stöðu lögbýla sem ekki eru tengd veitukerfum. Ástæðan var einfaldlega sú, eins og við vitum, að gífurleg hækkun hefur orðið á olíukostnaði sem hefur haft ýmislegt í för með sér eins og menn þekkja, fjölskyldurnar þekkja og fyrirtæki þekkja. En þó hefur einkanlega einn hópur orðið sérstaklega illa fyrir barðinu á þessu miklu hækkunum og það er sá hópur bænda sem býr við þær aðstæður að geta ekki keypt orku frá veitukerfum orkufyrirtækjanna og hefur ekki aðstöðu til þess að setja upp heimarafstöð og verður þess vegna að kynda upp með olíu.

Í svari hæstv. ráðherra kom fram að orkukostnaður býlis sem þyrfti að nota 32.800 kwst. við beina hitun væri 222 þús. kr. á ári á þessum tíma ef olía væri notuð til kyndingarinnar. Áætlaður kostnaður við að kaupa frá Rarik við sambærilega orkunotkun væri um 80 þús. kr. Mismunurinn væri því 140 þús. kr. eða rúmlega 10 þús. kr. á mánuði sem er auðvitað gífurlegur aukakostnaður og baggi fyrir þau býli sem um er að ræða. Hér er um að ræða 45 lögbýli. Ég hygg að 20 séu í ábúð en 25 í eyði, en hluti þessara svokölluðu eyðibýla er í ábúð hluta úr árinu. Ég varð var við mikil viðbrögð eftir að ég fór að hreyfa þessu máli á hv. Alþingi. Fjöldi fólks hafði samband við mig, bæði fólk sem bjó við þennan kost en einnig fólk sem rann til rifja sá mikli kostnaður sem leggst á þessi býli.

Ég fagnaði því mjög þegar hæstv. ráðherra lýsti því yfir við lok svars síns að hæstv. ráðherra hefði ákveðið að fela nefnd á vegum ráðuneytisins að kanna stöðu þessara mála og gera tillögur um aðgerðir vegna lögbýla sem ekki eru tengd veitukerfum orkufyrirtækjanna.

Vegna þess að ég tel að hér sé um að ræða knýjandi mál --- mánuðirnir líða og orkukostnaðurinn hrannast upp --- og vegna þess að hæstv. ráðherra brást við þessum áhyggjum mínum með svo jákvæðum hætti þá hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. iðnrh. hvað líði störfum þeirrar nefndar sem hún fól að kanna stöðu lögbýla sem eru ekki tengd veitukerfum orkufyrirtækjanna.