Orkukostnaður lögbýla

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:15:34 (377)

2001-10-10 15:15:34# 127. lþ. 8.4 fundur 105. mál: #A orkukostnaður lögbýla# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Á vegum nefndarinnar sem hv. fyrirspyrjandi minntist á í máli sínu hafa verið unnin drög að mögulegu fyrirkomulagi niðurgreiðslna á olíu til hitunar íbúðarhúsa. Miðað við þau drög er gert ráð fyrir að olíustyrkir nái til þeirra íbúðarhúsa sem ekki eiga kost á að tengjast raforkukerfi orkufyrirtækjanna. Umræðan í nefndinni er því ekki bundin við lögbýli eins og fram kemur í fyrirspurninni heldur er verið að fjalla um vanda allra þeirra íbúðareigenda sem kynda með olíu og ekki eiga kost á að tengjast raforkukerfinu. Gert er ráð fyrir að nefndin ljúki störfum fyrir lok þessa mánaðar.

Þá vil ég einnig taka fram að í ráðuneytinu er nú unnið að smíði frv. til laga um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar af almannafé. Stefnt er að því að leggja frv. fyrir Alþingi í næsta mánuði. Það er löngu tímabært að setja heildstæða löggjöf um jöfnun húshitunarkostnaðar, enda miklum fjármunum varið í því skyni. Verði tekin ákvörðun um greiðslu olíustyrkja, sem ég mun stefna að, er gert ráð fyrir að ákvæði þess efnis verði í hinu boðaða frv.