Kynning á alþjóðlegum viðskiptafélögum

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:29:03 (384)

2001-10-10 15:29:03# 127. lþ. 8.5 fundur 117. mál: #A kynning á alþjóðlegum viðskiptafélögum# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hreyfi þessu máli á Alþingi. Ég gerði það m.a. í fyrirspurn 10. nóvember á síðasta ári og þá svaraði hæstv. viðskrh., sá sami og nú svaraði, fyrirspurn minni svo, með leyfi forseta:

,,Lög nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, eru á meðal þeirra laga og reglna sem komið hafa til skoðunar. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að lögin geti mögulega talist skaðleg. Þar ráði tveir þættir einkum úrslitum: Annars vegar hið lága skatthlutfall, þ.e. 5% samanborið við 30% almennt hlutfall. Hins vegar það að alþjóðleg viðskiptafélög eru að hluta girt af gagnvart innlendri atvinnustarfsemi þar sem alþjóðleg viðskiptafélög mega ekki eiga hluti í innlendu fyrirtæki. Af hálfu OECD er ætlunin að fara nánar yfir listann og því er ekki ljóst hvað verður á endanlegum lista yfir lög og reglur sem fela í sér skaðlega skattasamkeppni.``

Nú spyr ég hæstv. viðskrh.: Getur verið að íslenska ríkisstjórnin hafi haldið áfram að kynna þessi lög og reyna að laða fyrirtæki til landsins á meðan OECD telur það vera álitamál hvort þau standist þá grundvallarreglu sem menn vilja setja til að sporna gegn skaðlegri skattasamkeppni? Getur verið að ríkisstjórninni finnist sæmandi að fara fram með þessum hætti? Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað líður þessari skoðun hjá OECD? Ég ítreka þessa spurningu mína: Finnst hæstv. ráðherra að sæmandi og ríkisstjórninni að ganga gegn alþjóðlegri viðleitni til að setja þjóðunum einhverjar siðareglur í þessum efnum?