Skemmtanahald á útihátíðum

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:46:45 (391)

2001-10-10 15:46:45# 127. lþ. 8.7 fundur 107. mál: #A skemmtanahald á útihátíðum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Eins og fram kemur í fyrirspurn hv. þm. hefur verið skipaður starfshópur til þess að fara yfir reglur um skemmtanahald á útihátíðum. Taldi ég í ljósi þess ástands sem skapaðist um síðustu verslunarmannahelgi að þörf væri á að fara yfir gildandi lög og reglur er snerta útihátíðir.

Segja má að verslunarmannahelgin sé séríslenskt fyrirbæri þrátt fyrir að í nokkrum nágrannalandanna séu langar helgar með mánudagsfríi yfir sumarmánuðina. Það er bæði gömul saga og ný að fólki ofbjóði sú mikla ölvun og atgangur sem oft á sér stað á útihátíðum. Fréttaflutningur um gróf kynferðisbrot, líkamsárásir og fíkniefni er ekki nýr af nálinni.

Árið 1990 samdi starfshópur á vegum dómsmrn. viðmiðunarreglur um útisamkomur sem áttu að vera sýslumönnum til hliðsjónar í þessum málum. Þessar reglur eru að mörgu leyti góðra gjalda verðar en brýn þörf er á að endurskoða þær og móta nýjar og fastmótaðri.

Fréttaflutningur af atburðum síðustu verslunarmannahelgar fór ekki fram hjá neinum. Alls voru 17 skipulögð hátíðahöld í boði vítt og breitt um landið. Fjöldi þeirra kynferðisbrota sem tilkynntur var þessa helgi er mikið áhyggjuefni.

Í heimsókn minni á neyðarmóttöku vegna nauðgunar í vor var m.a. farið yfir stöðu og úrræði á kynferðisbrotamálum og þróun þeirra mála að undanförnu. Tilgangur þess fundar var m.a. sá að leiða saman sérfræðinga sem komu að málaflokknum og ræða leiðir til að bregðast við vandanum. Lýstu starfsmenn neyðarmóttökunnar yfir sérstökum áhyggjum yfir þeirri aukningu sem orðið hefur í hópnauðgunum. Er full ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri þróun.

Ungur aldur og mikil áfengisneysla virðist einkenna þær aðstæður þar sem kynferðisbrot eru framin, en viðnám brotaþola er þá lítið eða ekkert. Vakti ég þá athygli á því að í nágrannalöndum okkar hefur m.a. verið brugðist við þessu með því að leggja meiri áherslu á misneytingarþátt kynferðisbrota og tel ég rétt að skoða það sérstaklega hér á landi. Mér þótti hins vegar gleðilegt að heyra að samstarf neyðarmóttökunnar og lögreglunnar hefur verið með ágætum og á skipulögðum grunni.

Í kjölfar verslunarmannahelgarinnar síðustu fundaði ég með fulltrúum lögregluyfirvalda og landlækni ásamt fulltrúum frá neyðarmóttöku og Stígamótum þar sem farið var yfir stöðu mála. Í framhaldinu ákvað ég að koma á fót faglegum starfshópi til þess að fara yfir þennan málaflokk. Var óskað eftir tilnefningu fulltrúa í áðurnefndan starfshóp frá embættum ríkislögeglustjóra og landlæknis, frá Stígamótum, neyðarmóttöku vegna nauðgana, Sýslumannafélagi Íslands og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Enn fremur mun fulltrúi dómsmrn. eiga sæti í starfshópnum og stýra starfi hans.

Auk þeirra sem skipa starfshópinn munu fleiri aðilar koma að starfi hópsins með einum eða öðrum hætti. Er starfshópnum ætlað að samræma enn frekar en nú er samstarf þeirra aðila sem koma að lög- og heilsugæslu á útihátíðum. Við það er miðað að starfshópurinn skili af sér skýrslu þar sem fram komi m.a. tillögur um framtíðarfyrirkomulag þessa málaflokks.

Undanfarið hefur innan ráðuneytisins verið unnin undirbúningsvinna vegna þessa starfshóps þar sem m.a. hefur verið aflað gagna erlendis frá. Verður að telja eðlilegt að vel sé vandað til undirbúnings, enda um víðfeðmt verk að ræða. Áætlað er að hópurinn muni koma saman til fundar þann 12. október næstkomandi og að vinnu hópsins muni ljúka á vormánuðum.

Herra forseti. Því miður hafa hátíðahöld verslunarmannahelganna verið dýru verði keypt fyrir marga og því tel ég nauðsynlegt að útihátíðahald verði tekið til endurskoðunar og fært í fastari skorður. Telja verður að meiri hluti þeirra útihátíða sem jafnan eru í boði ár hvert fari vel fram. Mikið er t.d. um vel skipulagðar fjölskylduhátíðir og er það vel.

Þá má einnig nefna að þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum á sér t.d. ríka hefð en upphaf hátíðarinnar er raunar rakin til ársins 1874 þegar Vestmanneyingar komust ekki vegna veðurs á þjóðhátíð sem haldin var á Þingvöllum til að minnast 1000 ára byggðar Íslands. Þess í stað héldu þeir eigin þjóðhátíð í Herjólfsdal.

Margoft hefur heyrst það viðhorf að skipulagðar útihátíðar af því tagi þar sem unglingum er safnað saman til margra sólarhringa drykkju með öllum þeim vandamálum sem slíkt hefur í för með sér eigi ekki að láta viðgangast. Á móti má benda á að ef engar útihátíðir væru skipulagðar mundu unglingarnir samt sem áður safnast saman og neyta áfengis. Væru unglingarnir þá án eftirlits, aðhlynningar og öryggis sem þeir búa við á vel skipulagðri hátíð.

Ég vil að lokum enn fremur benda á að ég hef óskað eftir því við embætti ríkislögreglustjóra að gerð verði ítarleg úttekt á valdheimildum lögreglu á útihátíðum og hvort þörf sé á breytingum í þeim efnum.