Skemmtanahald á útihátíðum

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:53:58 (394)

2001-10-10 15:53:58# 127. lþ. 8.7 fundur 107. mál: #A skemmtanahald á útihátíðum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:53]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svörin og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Það er alveg ljóst að hér er um skelfilega og alvarlega hluti að ræða. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að halda þessum starfshópi það vel að verki að niðurstaða hans liggi fyrir sem allra fyrst þannig að þær reglur sem koma til með að verða endurnýjaðar verði endurnýjaðar með góðum fyrirvara fyrir næstu verslunarmannahelgi. Eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði þá megum við aldrei horfa aftur upp á hátíðir á borð við þá sem haldin var á Eldborg eða þær hátíðir sem haldnar voru um síðustu verslunarmannahelgi.

Tilkynntar voru hátt á annan tug nauðgana eftir þá helgi og enn eru að koma inn, herra forseti, tilkynningar um nauðganir sem áttu sér stað um verslunarmannahelgina síðustu. Þær eru svo sannarlega ekki allar komnar fram og þær verða ekki allar tilkynntar. Það verður að taka fljótt og vel á málum eins og talað hefur verið um því að það er ekki eðlilegt að á útihátíðum verslunarmannahelgarinnar skuli hátt í 200 manns þurfa að leita sér læknis vegna annars en þess sem hægt er að laga með plástri eða kremi. Gífurlegt ofbeldi fer fram á þessum hátíðum og það er virkileg þörf fyrir að taka fast á. Mér sýnist að hæstv. dómsmrh. hafi skipað í þennan starfshóp fólk sem við treystum auðvitað vel til verka. Ég er sannfærð um að þessi hópur getur skilað öflugri niðurstöðu. En það skiptir verulegu máli að henni verði fylgt fast eftir og ef þarf að breyta lögum til þess að koma lögum yfir menn sem stunda hópnauðganir þá þarf að gera það á þessu þingi. Svona mál, herra forseti, þarf að vinna hratt og örugglega.