Skemmtanahald á útihátíðum

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:55:56 (395)

2001-10-10 15:55:56# 127. lþ. 8.7 fundur 107. mál: #A skemmtanahald á útihátíðum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:55]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og þingmönnum fyrir þessa umræðu. Eins og fram kom í fyrri ræðu minni er starfshópnum ætlað að samræma enn frekar en nú er samstarf þeirra aðila sem koma að lög- og heilsugæslu á útihátíðum.

Hópurinn mun hafa víðtækt samráð við ýmsa aðila. Ég get nefnt m.a. Barnaverndarstofu, umboðsmann barna, samkomuhaldara og félagasamtök sem láta sig málefnið varða.

Þá vil ég líka geta þess að eins og menn þekkja er mikill viðbúnaður hjá lögreglu um hverja verslunarmannahelgi og fíkniefnalöggæsla mikil um land allt. Má þar sem dæmi nefna að allmargir fíkniefnaleitarhundar eru notaðir við löggæslu um þessa helgi og nýtur lögreglan einnig liðsinnis tollgæslu í þessu skyni. Þá eru á ferðinni teymi lögreglumanna sem öll hafa fíkniefnaleitarhund meðferðis. Þessi teymi eru hreyfanleg milli lögregluumdæma um allt land og falla undir lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi. Þetta er viðbót við aðra löggæslu og er það vel.

Eins og fram hefur komið í þessari umræðu þá eru kynferðisbrot alvarlegustu brotin sem framin eru á útihátíðum. Oft kemur fram gagnrýni á hve fá mál eru kærð miðað við þau mál sem tilkynnt eru. Í áðurgreindum starfshópi verður sérstaklega farið ofan í þennan blett á þjóðfélaginu með því að samþætta enn betur samstarf lögreglunnar og heilsugæslunnar sem starfar á útihátíðum.

Oft og tíðum er því miður ekki vitað hvern á að kæra. Enginn er til frásagnar um það hver hafi verið að verki eða ekki er hægt að bera kennsl á brotamann eftir mjög stutt kynni. Auðvelt er að hvefa í fjöldann á útihátíðum þar sem mörg þúsund manns eru saman komin kannski í niðamyrkri. Oft koma kærur inn mörgum mánuðum eftir útihátíðir og þá er erfiðara að rannsaka málin.

Þá vil ég aftur minna á þá staðreynd að ungur aldur og mikil áfengisneysla virðist einkenna aðstæður þegar kynferðisbrot eru framin þar sem viðnám brotaþola er þá lítið eða ekkert. Þá má einnig nefna til sektarkennd brotaþola.

Í lokin vil ég segja það, herra forseti, að starfshópnum er ætlað að leita leiða til að sporna við ýmsum neikvæðum hliðum þessara skemmtana, bæði með nánara samstarfi þeirra aðila sem helst koma að þessum hátíðum og öruggara skipulagi þeirra, og má í því samhengi líka skoða enn frekar auknar kröfur til skemmtanahaldara. Bind ég vonir við að starf nefndarinnar muni skila árangri í þessum efnum.