Samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:35:54 (450)

2001-10-11 14:35:54# 127. lþ. 9.4 fundur 136. mál: #A samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar# (reglugerð) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum.

Í frv. er í stuttu máli kveðið á um að viðskrh. sé heimilt að kveða nánar á um framkvæmd samningalaga með reglugerð. Þetta er gert með hliðsjón af þróun mála vegna upptöku EES-tilskipunar nr. 93/13/EB, um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum, í íslenskan rétt með breytingu á samningalögum árið 1995. Samningalögin voru sett 1936. Er þau voru sett var ekki talin þörf á að hafa reglugerðarheimild í lögunum. Þegar lögunum var breytt 1995 var ekki talið nauðsynlegt að setja sérstaka reglugerð vegna upptalningar á ósanngjörnum samningsskilmálum í viðauka við fyrrnefnda tilskipun, sér í lagi vegna þess að talið var að dómstólar og viðkomandi stjórnvöld mundu kynna sér upptalninguna í þingskjalinu.

Þar eð framkvæmdastjórn ESB hefur ekki talið að viðaukinn við tilskipunina sé tekinn upp með réttum hætti í rétt aðildarríki sambandsins, og málarekstur hefur verið í gangi gagnvart Svíþjóð fyrir dómstóli Evrópubandalagsins, svo og vegna þess að Eftirlitsstofnun EFTA hefur spurst fyrir um þessi atriði hér á landi, þykir rétt að hafa reglugerðarheimild í lögunum þannig að vöntun á slíkri heimild tefji ekki lausn málsins þegar og ef á reynir hér á landi. Ekki er gert ráð fyrir því að frv. þetta hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.

Hæstv. forseti. Ég óska þess að málinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.