2001-10-16 13:33:27# 127. lþ. 11.3 fundur 115. mál: #A heimild til að staðfesta samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó# frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[13:33]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó.

Með lögum nr. 7/1975 var ríkisstjórninni heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt frá 1972 um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó. Tilgangur var sá að auka öryggi skipa og mannslífa á höfunum og tryggja að íslensk lög séu í samræmi við alþjóðlegar siglingareglur. Flest aðildarríki Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar eru aðilar að þessum alþjóðareglum.

Í samræmi við 6. gr. samþykktarinnar hefur verið unnið að breytingum og lagfæringum á þessum alþjóðareglum, einkum er varða viðbótarmerki fyrir fiskiskip og ratsjárvara á björgunarbátum. Þegar vörpu í togara er kastað þá verður skip á togveiðum að hafa tvö hvít ljós en hvítt ljós lóðrétt yfir rauðu ljósi þegar varpan er hífð upp. Þetta var áður heimildarákvæði en er nú skylt. Einnig má nefna að lögfestir eru ratsjárvarar á björgunarbátum.

Með frv. þessu er lagt til að lögfestar verði framangreindar breytingar á samþykktum alþjóðareglum til að koma í veg fyrir árekstra á sjó.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.