Fjarskipti

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 13:35:45 (563)

2001-10-16 13:35:45# 127. lþ. 11.4 fundur 145. mál: #A fjarskipti# (jöfnunargjald, heimtaugar) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[13:35]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir breytingu á lögum nr. 107/1999, um fjarskipti.

Breytingarnar eru tvíþættar. Annars vegar er um það að ræða að tryggja enn frekari aðgang að heimtaug en gildandi fjarskiptalög mæla þegar fyrir um og hins vegar að tryggja varanlega fjármögnun alþjónustukvaða sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið.

Samskipti á fjarskiptamarkaði hafa stóraukist frá því að gildandi fjarskiptalög voru samþykkt á Alþingi. Ein meginbreytingin sem varð við gildistöku þeirra var að aðgangur nýstofnaðra fjarskiptafyrirtækja var tryggður að heimtaugum Landssíma Íslands hf. Ísland var þannig eitt af fyrstu ríkjum til að tryggja þennan aðgang með lögum. Nú hefur Evrópusambandið sett reglugerð um sama efni sem er orðinn hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Sú EES-regla sem hér um ræðir er reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2887/2000, frá 18. desember 2000, um opinn aðgang að heimtaugum. Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 47/2001 frá 30. mars sl. um breytingu á XI. viðauka EES-samningsins, var ákveðið að reglugerðin yrði hluti samningsins. Alþingi staðfesti þá ákvörðun með þál. 11. maí 2001.

Efni hinnar nýju reglugerðar leiðir til þess að nauðsynlegt er að endurskoða gildandi ákvæði fjarskiptalaga þar sem hún mælir afdráttarlaust fyrir um rétt fjarskiptafyrirtækja til aðgangs að heimtaugum fjarskiptafyrirtækja með umtalsverða markaðshlutdeild. Gildandi lagaákvæði mæla hins vegar aðeins fyrir um að Póst- og fjarskiptastofnun geti ákveðið aðgang að heimtaugum þegar það er réttlætanlegt vegna eðlis eða umfangs fjárfestinga í heimtaug sem er forsenda viðskiptasambands, þ.e. fjarskiptafyrirtæki ætti rétt á að fá aðgang að heimtaug í umráðum fjarskiptafyrirtækis með umtalsverða markaðshlutdeild þegar það gæti ekki sjálft komið honum á vegna þess kostnaðar sem það hefur í för með sér að grafa fyrir símalögnum í grónum hverfum.

Í reglugerðinni felst að rekstrarleyfishafar með umtalsverða markaðshlutdeild skuli uppfæra viðmiðunartilboð sín þannig að þau innifeli aðgang að heimtaug og ýmiss konar aðstöðu og þjónustu sem er nauðsynleg til að sambandi verði komið á milli notanda og fjarskiptafyrirtækis. Viðmiðunartilboð eru eins konar heildsöluverðskrá fyrir fjarskiptaþjónustu. Þetta getur falið það í sér að ef nýstofnað fjarskiptafyrirtæki vill bjóða almenningi almenna talsímaþjónustu eða háhraðagagnaflutningaþjónustu í samkeppni á það þess kost að leigja af Landssíma Íslands hf. aðgang að koparþráðum í jörðu hvort sem heimtaugin er leigð í heild sinni eða afmarkað tíðnisvið. Fyrirtækið ætti einnig rétt á því að leigja aðgang í símstöð fyrir búnað sem nauðsynlegur er fyrir tenginguna.

Reglugerðin hefur einnig ákvæði um skyldur innlendra stjórnvalda til að tryggja að gjaldtaka fyrir aðganginn stuðli að sanngjarnri og lífvænlegri samkeppni. Með þessu öllu er stuðlað að því að þrátt fyrir áratuga forskot eins fyrirtækis á fjarskiptamarkaði geti samkeppni komist á og þrifist. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að talið er sannað að ekkert efli eins framþróun fjarskiptaþjónustu í síbreytilegu umhverfi og lágt verð til neytenda og heilbrigð samkeppni.

Frv. þetta hefur einnig að geyma ákvæði um gildistöku í þágu jöfnunarsjóðs alþjónustunnar. Samkvæmt gildandi fjarskiptalögum er gert ráð fyrir að hægt sé að kveða á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita alþjónustu. Umfang alþjónustu er skilgreint í 13. gr. laganna og ákvæðum reglugerðar nr. 641/2000, um alþjónustu, þar sem nánar er mælt fyrir um hvaða þættir fjarskiptaþjónustu geta fallið þar undir. Þurfi fjarskiptafyrirtæki að veita alþjónustu þrátt fyrir að hún sé rekin með tapi eða óarðbær vegna ákvörðunar stjórnvalda getur það öðlast endurkröfurétt á hendur sérstökum jöfnunarsjóði. Sá sjóður er fjármagnaður með gjaldi sem lagt er á fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja almenn fjarskiptanet og/eða almenna talsímaþjónustu í hlutfalli við bókfærða veltu þessarar starfsemi. Þjónusta Neyðarlínunnar sem lýtur að neyðarsímsvörun verði talin til alþjónustu sem fjármagna bæri með framlögum úr jöfnunarsjóði.

Tvö undanfarin ár hefur gjaldstofn sjóðsins verið ákveðinn með sérstökum lögum fyrir hvert einstakt ár en með frv. þessu er ætlunin að gjaldstofn verði ótímabundinn og því þurfi ekki að leggja sérstakt frv. fram á hverju þingi nema breytingar verði á fjárþörf eða tekjum jöfnunarsjóðsins.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.