Fjarskipti

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 13:41:33 (564)

2001-10-16 13:41:33# 127. lþ. 11.4 fundur 145. mál: #A fjarskipti# (jöfnunargjald, heimtaugar) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Það frv. til laga sem hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir er svo sem ekki frv. sem þarf að vera ágreiningur um. Eins og fram kom eru meginmarkmið frv. tvö, þ.e. að tryggja rekstrarleyfishafa sem hafa umtalsverða markaðshlutdeild aðgang að heimtaugum og hins vegar að koma gjaldstofni vegna jöfnunarsjóðs alþjónustu í varanlegt form.

Aðeins varðandi jöfnunarsjóðinn, herra forseti. Ég er sammála því atriði. Ég á sæti í hv. samgn. og þangað fer frv. til frekari útfærslu en mér sýnist að hér sé verið að fara inn á það að búa til gjaldstofn sem geri það að verkum að hæstv. samgrh. þarf ekki að koma með frv. til laga á hverju ári til að ákveða þann gjaldstofn sem á að vera. Það er svo með mörg önnur gjaldskrárákvæði sem koma frá hinu háa Alþingi að menn hafa verið að því undanfarin ár að festa þetta í lög og koma síðan með lagafrv. til að breyta þeim. Það var eftir kröfu frá einhverjum eftirlitsstofnunum sem það er gert en hér er farið inn á það svið að búa þetta til til lengri tíma. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. samgrh. út í það rétt að lokum hvað þennan lið varðar hvort engin hætta sé þá á því að við verðum rekin til baka með þetta vegna kröfunnar um að þetta þurfi að ákveða í lögum fyrir hvert og eitt ár.

Í annan stað er í frv. farið inn á það að setja fastar niður ákvæði um skilyrðislausan aðgang fjarskiptafyrirtækja að heimtaugakerfi landsmanna sem er vistað hjá Landssíma Íslands, því stóra fyrirtæki. Þetta atriði er auðvitað ákaflega mikilvægt, að fest sé í lög og fest sem allra fastast um skilyrðislausan aðgang og að ekki sé hægt að nota neinar aðferðir til að hefta aðgang fjarskiptafyrirtækja að heimtaugum landsmanna. Það vinnst náttúrlega margt með því og er þjóðhagslega hagkvæmt að allir fái aðgang að heimtaugunum. Og ef ég má aðeins minna á það frá umræðum um sölu Landssímans á sl. vori, þá rifjaðist það upp fyrir mér að við erum að tala um allt að 140 þús. heimtaugar í landinu sem eru grafnar í jörðu, sem eru koparleiðslur sem Póstur og sími, eins og hann hét þá, gróf í jörðu vítt og breitt um landið inn á hvert heimili og margar línur inn á sum. Það eru með öðrum orðum 95 þús. einstaklingar sem eru með þessar heimtaugar og 45 þús. fyrirtæki.

Hér, herra forseti, er það sett fastar niður, eftir tilskipun og ákvörðun frá hinu Evrópska efnahagssvæði, að festa í reglugerð og lagabálk hjá okkur þessar afdráttarlausu kvaðir á rekstrarleyfishafa um að veita aðgang að heimtaug, festa það betur en verið hefur hingað til. Eins og kom fram í máli hæstv. samgrh. hefur það þurft að fara í gegnum Póst- og fjarskiptastofnun þó að ég vilji taka skýrt fram að ég telji að það hafi ekki verið neinum vandkvæðum bundið en þarna er þetta sett miklu fastar og betur niður.

[13:45]

Ég vil rétt nefna annað atriði í lokin. Við getum endalaust deilt um á hvað eigi að selja aðganginn að þessum heimtaugum. Í umræðum um sölu á Landssímanum kom það fram, m.a. hjá nokkrum viðmælendum okkar í hv. samgn., að leigugjaldið sem þeir greiddu Landssímanum nálgaðist allt að því okur, eins og einn samkeppnisaðilinn komst að orði.

Ég minni á að leigulínuverðið, þ.e. leiga fyrir heimtaug, er 1.111 kr. í dag, hafi það ekkert hækkað frá því í vor.

Það kom fram hjá einum viðmælanda, einum fulltrúa fjarskiptafyrirtækis sem er að hasla sér völl á hinum íslenska markaði, að ýmislegt benti til þess að hvati væri til að auka þann kostnað af kerfinu, heimtaugakerfinu og grunnlínukerfinu. Hann taldi að það mundi síðan hafa þær afleiðingar að gjaldið yrði reiknað út, eftir einhverjum forsendum sem Landssíminn, leyfishafinn fyrir allar þessar heimtaugar hefur, til Póst- og fjarskiptastofnunar sem gæti ekki annað en samþykkt gjaldskrána.

Hjá starfsmönnum Landssímans, á þessum fundi með samgn. út af sölu Landssímans eins og ég hef áður vikið að, kom fram að um 29% starfsmanna Landssímans vinna við grunnlínukerfið. Ekki veit ég hve margir tengjast eingöngu heimtaugakerfinu, en það eru auðvitað fjölmargir.

Herra forseti. Ég held að það sé ekki mikill ágreiningur um þetta mál. Hér er verið að stíga eðlilegt skref í takt við nútímann, þar sem allir aðilar á fjarskiptamarkaðnum eiga að fá skilyrðislausan og óhindraðan aðgang að heimtaugum, sem Landssíminn ræður yfir, sem liggja í hvert hús og eru mikil verðmæti. Verðmæti þeirra á sennilega eiga eftir að aukast sitt ef eitthvað er með nýrri tækni eins og málin eru að þróast í dag.

Herra forseti. Ég á sæti í hv. samgn. þar sem málið verður tekið fyrir og ég held að hér sé hið besta mál á ferðinni.