Fjarskipti

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 13:47:50 (565)

2001-10-16 13:47:50# 127. lþ. 11.4 fundur 145. mál: #A fjarskipti# (jöfnunargjald, heimtaugar) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Norðurl.v. fyrir undirtektir við frv. Vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. þá vil ég í fyrsta lagi nefna að eins og fram kom í ræðu minni áðan er verið að setja þessi ákvæði inn í fjarskiptalögin, þ.e. ákvæði um gjaldstofn vegna jöfnunargjaldsins. Gert er ráð fyrir því að það gjald verði innheimt með álagningu og innheimtukerfi þinggjalda þannig að það þurfi ekki á hverju einasta ári að taka málið upp í þinginu og afgreiða sérstaklega. Þetta skiptir heilmiklu máli, ekki síst fyrir fyrirtæki eins og Neyðarlínuna sem hefur þurft að sæta því að vera í óvissu fram eftir ári um það hvort Alþingi féllist á þessa heimild. Með þessu er rekstrargrundvöllur og aðstaða fyrirtækisins sem rekur Neyðarlínuna tryggð að því marki sem lögin gera ráð fyrir. Það er afskaplega mikilvægt og þannig er hægt að innheimta jafnframt fyrir fram hjá fyrirtækjunum þar sem það á við.

Að hinu leytinu vil ég segja að vonandi er engin hætta á því að þingið reki okkur til baka með þetta, eins og hv. þm. orðaði það. Umgjörðin um þetta ákvæði er afskaplega traust og í öllu falli í samræmi við heimildir til skattlagningar, sem eru styrktar mjög með þeirri aðferð sem við höfum hér.

Hvað varðar heimtaugarnar, aðgang að þeim og verðlagningu, þ.e. fastagjaldið sem hv. þm. talaði um að væri okur, þá vil ég aðeins rifja það mál upp.

Verðlagningin á heimtaug er byggð á kostnaðarmati og yfirferð Póst- og fjarskiptastofnunar, sem er eftirlitsstofnunin sem á að gæta hagsmuna neytenda og annarra fjarskiptafyrirtækja gagnvart markaðsráðandi fyrirtæki. Það skiptir miklu máli að öllum sé það ljóst. Ég veit að hv. þm. er það vel inni í þessu máli að honum er það ljóst. Verðlagningin er byggð á gögnum frá Landssímanum sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur farið yfir. Reynt er að leggja vandað mat á hver raunkostnaður er við heimtaugarnar. Hvers vegna er það? Jú, það er til þess að sú hætta sé ekki fyrir hendi að það sé verið að undirverðleggja heimtaugargjaldið. Þannig er komið í veg fyrir að önnur fjarskiptafyrirtæki sem velja þann kost að selja aðgang að heimtaug lendi í vandræðum í samkeppninni við stóra markaðsráðandi fyrirtækið, þ.e. vegna þess að verðinu sé haldið óeðlilega lágu. Það er í raun og veru í þágu annarra fjarskiptafyrirtækja að verðið sé rétt metið, það sé nægjanlega hátt til að dekka þann kostnað sem sannarlega er af lagningu heimtaugar. Þetta er mikið grundvallaratriði og skiptir miklu til þess að tryggja samkeppni á þessu sviði.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því að í frv. er gert ráð fyrir því, það er partur af regluverki Evrópusambandsins og hins Evrópska efnahagssvæðis, að hægt sé að koma á viðskiptum um heimtaug, annað hvort vegna símaþjónustu eða vegna internetþjónustu. Fólk getur því valið að nýta heimtaugina sem Landssími Íslands á með viðskiptum við eitt fyrirtæki vegna símaþjónustunnar og annað fyrirtæki vegna internetþjónustunnar. Neytendur eiga hverju sinni kost á að tryggja sér hagstæðustu viðskiptin á grundvelli þessarar löggjafar og samkeppninnar.