Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 15:19:10 (578)

2001-10-16 15:19:10# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Mig langar til þess að gera að umræðuefni eina af meginforsendum stjórnar fiskveiða og sennilega meginástæðu þess að kvótakerfið var sett á árið 1984. Ætlunin með því var að bæta nýtingu okkar á auðlindinni, stækka fiskstofnana, vernda miðin og halda við byggð í landinu. Ef menn muna svo langt aftur í tímann að minnast þess hvernig kvótakerfið var 1984 þá byggðist það á því að flotinn gæti allur haldið til veiða. Þá voru beinlínis gerðar ráðstafanir til þess að allir hefðu einhvers konar afkomu af veiðunum, þrátt fyrir niðurskurð í þorski. Það geta menn séð með því að fletta upp í sögunni. Ég ætla ekki að rekja það frekar í máli mínu.

Ég staðhæfi að eitt markmið kerfisins var að viðhalda byggðinni í landinu og tryggja þar fulla atvinnu, með þeirri útfærslu sem þá var sett á, jafnvel þó að það markmið kæmi síðar inn í lögin. Reyndin er hins vegar sú að unnið var á móti því markmiði með lagasetningunni árið 1990, um frjálst framsal veiðiheimilda.

Það væri ágætt ef hæstv. sjútvrh. færi ekki mjög langt því að ég er að hugsa um að fara yfir það hvernig okkur hefur tekist til við að veiða þessa botnfiskstofna okkar. Um það hefur auðvitað aðalágreiningurinn í þessu veiðikerfi staðið, þ.e. nýtingu okkar á botnfiskafla vegna þess að botnfiskveiðar hafa verið meginstoð atvinnu víðast hvar um landið þó að ákveðin landsvæði hafi vissulega átt betri afkomu í uppsjávarveiðum en önnur.

Ef við skoðum hvað við höfum verið að aðhafast á Íslandsmiðum og hvað við höfum tekið af Íslandsmiðum í einstökum fisktegundum, þá höfum við fyrir okkur tímabil sem nær yfir hálfa öld, 50 ár. Á 50 árum kemur í ljós að við höfum að meðaltali, fram til 1998, verið að veiða 371 þús. tonn af þorski á hverju einasta ári. Núna veiðum við 190 þús. tonn. Það er kvótinn sem áætlað er að við veiðum. Mismunur á milli þessara tveggja talna er 181 þús. tonn, sem vantar inn í veiðina. Það er auðvitað rétt að draga það fram að síðasta áratug síðustu aldar var afli okkar iðulega undir 200 þús. tonnum.

Ef við lítum á meðaltalsveiðina á ýsu þá var hún 60 þús. tonn í 50 ár. Í dag veiðum við 30 þús. tonn. Þar vantar 30 þús. tonn upp á að við náum meðaltalsafla síðustu 50 ára.

Ef við lítum á ufsann þá veiddum við á ári 70 þús. tonn af ufsa í hálfa öld að meðaltali en erum núna að veiða 35 þús. tonn.

Ef við lítum á karfann þá veiddum við 92 þús. tonn á ári í 50 ár. Við erum núna að veiða 65 þús. tonn af gullkarfa og djúpkarfa.

Ef við lítum á steinbítinn þá veiddum við 15 þús. tonn að meðaltali en veiðum núna 13 þús. tonn. Þar er einna minnsti munurinn en steinbíturinn kom reyndar ekki aftur inn í kvótann fyrr en árið 1996 eins og menn muna. Hann fór inn í kvótakerfið 1994 en var tekinn út úr því aftur og kom svo aftur inn í kvótakerfið 1996.

Grálúðan. Þar höfum við aflaviðmiðun í 30 ár. Við byrjuðum eiginlega ekkert að veiða grálúðu af neinum krafti fyrr en eftir 1970. Þar er meðalveiðin 29 þús. tonn í 30 ár. Við erum núna komnir upp í 20 þús. tonn aftur en veiddum um 10 þús. tonn í nokkur ár.

Sé mið tekið af þessum 50 árum var meðalaflinn hjá okkur á Íslandsmiðum 637 þús. tonn af þessum botnfisktegundum. Núna vantar í þann afla, ef við ættum að skoða hver frádrátturinn er í þessu dæmi, 288 þús. tonn til að við náum meðalársafla. Það vantar nærri því helming upp á að við fáum svipaðan afrakstur af botnfiskstofnum okkar á því fiskveiðiári sem nú er að byrja og undanfarin fiskveiðiár hefur vantað u.þ.b. 240--250 þús. tonn í botnfiskveiðina til þess að við næðum svipuðum afla á land og við veiddum árlega að meðaltali í hálfa öld.

Það er ekki með nokkrum vitrænum rökum hægt að halda því fram, fyrir sæmilega menntaða þjóð eins og Íslendingar eru, að kvótakerfið okkar hafi byggt upp fiskstofnana eða að við séum að ná verulegum árangri við stjórn botnfiskveiðanna. Við getum vel sæst á að stjórn uppsjávarveiða með kvótakerfi hafi gengið upp. Ég held að það sé ekkert svo mikil ágreiningur um það í þjóðfélaginu að menn geti ekki búið við það, þó að vissulega hafi iðulega verið skilið eitthvað eftir af uppsjávartegundum í hafinu og heimildirnar ekki fullnýttar. Þar fyrir utan eru tegundir sem eru algerlega frjálsar uppsjávarflotanum, t.d. kolmunni. En þegar klifað er á því að við séum með heimsins besta fiskveiðistjórnarkerfi við stýringu á botnfiskveiðum þá verð ég að taka þannig til orða að mér finnst verið að ljúga að fólki. Ég get ómögulega orðað það öðruvísi.

Það stendur ekki steinn yfir steini í kvótakerfinu og vart hægt að segja að við höfum með því náð árangri við stjórn veiðanna og uppbyggingu fiskstofnanna, því miður. Það hefur allt farið á hinn veginn og ósætti meðal þjóðarinnar hefur aukist. Það verður enginn friður um að hafa til frambúðar þá útfærslu sem við búum við. Ég get ekki séð það, herra forseti og hæstv. sjútvrh., að kvótakerfið hafi nokkurn skapaðan hlut batnað þó að 600--700 manns á landsfundi Sjálfstfl. hafi samþykkt að bæta veiðileyfagjaldi ofan á óbreytt kerfi. Kvótakerfið hefur ekkert batnað við það, ekki nokkurn skapaðan hlut. Kvótakerfið lagast ekkert við að vera óbreytt og við að sett er veiðileyfagjald ofan á það. Það mun áfram viðhalda öllu ósættinu, byggðaröskuninni, takmörkun á nýliðun, lélegri nýtingu og ekki ná að byggja upp fiskstofnana og annað eftir því.

Þar fyrir utan er geysilegt ósætti um það meðal þjóðarinnar að á undanförnum árum hafi handhafar veiðiheimildanna getað tekið mjög mikla fjármuni út úr kvótakerfinu í gegnum sölu aflaheimilda. Það getur aldrei orðið sátt um að aflaheimildir sem er merktar í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sem sameign þjóðarinnar verði til frambúðar í eignarböndum fárra manna eða fárra fyrirtækja. Það er einfaldlega þannig að hinar dreifðu sjávarbyggðir landsins þurfa á því að halda að hafa atvinnufestu í sjávarútvegi og í veiðum. Það er m.a. sú niðurstaða sem t.d. stjórnarandstaðan komst að í álitum sínum í hinni svokölluðu endurskoðunarnefnd, þar að auki líka hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem sagði í séráliti sínu í niðurstöðukaflanum:

,,Að öllu ofanrituðu samanlögðu legg eftirfarandi til:

1. Að farin verði fyrningarleið.

2. Að veiðar smábáta grundvallist á samkomulagi Landssambands smábátaeigenda við sjávarútvegsráðherra sem gert var 1996, enda brjóti það ekki í bága við stjórnarskrá.

3. Að byggðakvóti verði aukinn.

4. Að dregið verði úr kvótasetningu fisktegunda sem veiðast sem meðafli.``

Skýrara getur það varla orðið.