Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 16:53:50 (606)

2001-10-16 16:53:50# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[16:53]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekkert að falla í neina gryfju hér. Ég er bara að lýsa þeirri staðreynd sem hin nýja Gugga er auðvitað tákn um, þær breytingar sem hafa orðið á útgerð fyrir vestan. Þar er bara annars konar útgerð í dag og sá afli sem þar kemur að landi er mjög svipaður og hefur verið síðustu áratugina, og er það vel.

Varðandi síðan spurninguna um hvað verður í framtíðinni, þá hef ég lýst því hvernig staðið verður að þeirri vinnu og á hverju þar verður byggt þannig að þingmaðurinn getur leitt að því líkur hver niðurstaðan verður.

Varðandi síðan það að auðlindanefndin hafi skilað af sér í sátt sem var gott og að endurskoðunarnefndin hafi skilað af sér í ósátt sem var auðvitað lakara en það er auðvitað auðveldara, með allri virðingu, að ná sátt um tvo valkosti en þegar menn verða að komast að niðurstöðu um bara einn valkost. Við getum ekki samþykkt lög frá Alþingi þar sem sami flotinn á að vera í tvenns konar kerfum. Við verðum að velja þar á milli og það gerði endurskoðunarnefndin.