Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 16:57:46 (610)

2001-10-16 16:57:46# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[16:57]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Kerfi þar sem verið er að reyna að takmarka veiðigetuna hlýtur að stangast á við kerfi þar sem verið er að reyna að auka veiðigetuna á einhverjum tilteknum stöðum nema menn ætli að minnka hana einhvers staðar annars staðar á móti. Og í þessu kerfi óstöðugleikans, uppboðs og fyrninga, eru það auðvitað þeir sem hafa verðmætustu eignirnar á bak við sig, sem hafa mesta andlagið gegn lánveitingunum, sem geta boðið hæst í veiðiheimildirnar. Og þá eru það auðvitað þessar veikari byggðir sem, eins og lýst hefur verið, búa við það að þar er fasteignaverð lægra en annars staðar og standa þannig veikast. Þær munu því fara halloka fyrir hinum sterkari byggðum þar sem fasteignaverðið er hærra og andlagið fyrir lánveitingunum er meira. Þess vegna segi ég að það mun koma nákvæmlega í ljós í svörum við þessum fyrirspurnum, sem auðvitað verður svarað, hvaða byggðir það eru sem standa sterkast og hafa sterkustu stöðuna til þess að bjóða í veiðiheimildirnar. Það eru ekki veiku sjávarbyggðirnar sem þingmenn þó vilja gæta hagsmuna fyrir.