Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 17:44:14 (626)

2001-10-16 17:44:14# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[17:44]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég áttaði mig ekki á síðustu orðum hv. þm. Í þessari tillögu kemur berlega fram og það er beinlínis sagt að útgerðarmönnum hafi verið afhent ákveðin sérréttindi. Hver voru þau? Að útgerðarmennirnir máttu veiða minna en áður?

Ég vil líka spyrja hv. þm. vegna þess að hann segir: ,,Við erum reiðubúnir til að bæta þeim útgerðarmönnum skaðann sem hafa keypt sér kvóta.`` Þetta segir hv. þm. Hvað heldur hann að ríkið sé reiðubúið til að greiða mikla peninga til þess að bæta slíkt tjón? Eiga skattgreiðendur að greiða það? Hver á að greiða það? Er verið að tala um að ríkið geti boðið upp veiðiheimildir og með þeim staðið undir að endurgreiða útgerðunum? Ef það er gert, spyr ég þá á móti, yrði það þá ekki til þess að hækka verðið kvótanum, þ.e. ef þannig er staðið að málum? Auðvitað yrði það til þess.

Ég vil enn fremur segja að ef við hugsum okkur að það eigi að skera kvótann niður um 10% á ári, þá jafngildir það tveim til þrem togurum á Eyjafjarðarsvæðinu, tveim til þrem togurum á ári. Hve lengi skyldu eyfirskar byggðir þola það? (Gripið fram í.) Hvernig geta þingmenn Eyjafjarðar lagt slíkt til, menn sem eru kjörnir á þing af því fólki sem þar býr? Og þegar verið er að tala um þessar aflaheimildir, hvað er þá að segja um þær fiskverkakonur sem vinna í frystihúsinu á Akureyri, frystihúsinu á Dalvík, frystihúsinu á Neskaupstað og frystihúsinu á Eskifirði? Er þetta fólk gjörsamlega réttlaust í huga hv. þingmanna? (Gripið fram í.)