Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 18:19:58 (638)

2001-10-16 18:19:58# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[18:19]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú ekkert sambærilegt við smábátana 1990. Árið 1990 var sett á hið svokallaða krókakerfi. Ég held ég fari ekki rangt með að gert var ráð fyrir því þá að í krókakerfinu mundu menn veiða milli 3 og 4 þús. tonn þremur til fjórum árum seinna. (Gripið fram í: 2.400.) Eða 2.400, ókei, enn þá minna. Aflinn sem verið var að veiða í þessu kerfi 1990 var því nánast enginn.

Núna eru þessir sömu bátaflokkar að veiða 60 þús. tonn. Ef þessu hefði verið lokað 1990 hefði enginn tekið eftir því. Það er nú bara staðreynd málsins. Það hefði enginn tekið eftir því. (Gripið fram í.) Aftur á móti fagna ég því reyndar að þessu var ekki lokað algjörlega þá. Ég (Gripið fram í.) hef alltaf viljað að smábátarnir fengju svigrúm til þess að reka heilsársútgerð þannig að menn hefðu af því fulla vinnu að reka smábáta og ég held að það hafi tekist ágætlega. Það eru aftur á móti takmörk fyrir því hvað hægt er að hleypa þessum útgerðarflokki langt því að endingu hlýtur þetta alltaf að vera þannig að það er tekið af öðrum. Ég held að komið sé ágætis jafnvægi á milli þessara flokka og þær tillögur sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram verða að mínu viti til þess að leysa það mál. Ég á ekki von á öðru en að þegar þær eru komnar fram og sú viðbót sem smábátarnir eiga að fá samkvæmt nýjum tillögum sem hafa verið kynntar, þá muni smábátaeigendur verða sáttir við sinn hlut.