Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 18:46:55 (645)

2001-10-16 18:46:55# 127. lþ. 11.6 fundur 4. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[18:46]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Þannig vill til að ég er ósammála hv. flutningsmönnum, bæði í þeim forsendum sem þeir gefa sér og í aðferðunum sem þeir vilja beita í þessu efni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé frekar styrkur íslensks sjávarútvegs en hitt, þ.e. sú samtvinning sem er og hefur verið milli veiða og vinnslu í gegnum tíðina. Það má hins vegar alltaf deila um hver hlutföllin eigi að vera í atvinnugreininni, hve mikið þetta eigi að tvinnast saman og hve mikið eigi að vera sitt í hvoru lagi. Ég tel heppilegast að það ráðist af markaðsaðstæðum á hverjum tíma og almennum leikreglum.

Ég tel að þegar við komum kvótakerfinu á þá höfum við að vissu leyti flutt þyngdarpunktinn í sjávarútveginum frá vinnslunni og til útgerðarinnar. Ég tel að aðrar aðgerðir sem gerðar hafa verið síðan hafi þá frekar ýtt undir þetta en hitt. Ég held að til þess að markaðurinn og almennar leikreglur geti ráðið því hver hlutföllin eru ættum við frekar að nálgast þetta mál með því að auka frjálsræðið og auka möguleika þeirra sem að þessu koma, og bendi þá m.a. á tillögur endurskoðunarnefndarinnar sem eru mjög athyglisverðar. Ég tel það vænlegra en að setja reglur og hindra menn með boðum og bönnum í að gera það sem þeir mundu e.t.v. telja skynsamlegt að öðrum kosti.

Þetta mál er endurflutt og ef mig misminnir ekki hef ég tjáð mig um það áður á Alþingi og læt þetta nægja að sinni.