Endurskoðun á EES-samningnum

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 13:59:31 (656)

2001-10-17 13:59:31# 127. lþ. 13.2 fundur 83. mál: #A endurskoðun á EES-samningnum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., BH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Samfylkingin leggur áherslu á að á Alþingi sem annars staðar í samfélaginu sé mikilvægt að gefa framtíð Evrópusamstarfsins mikinn gaum.

Ég vil jafnframt hvetja hæstv. utanrrh. til þess að halda fast á þessum málum og brýna hann sérstaklega, vegna þess hve hlutverk hans er óhemjumikilvægt í ríkisstjórninni að þessu leyti, til að gefa þeim gaum ef fram fer sem horfir að EES-samningurinn haldi ekki. Sérstaklega er þetta hlutverk hæstv. utanrrh. mikilvægt í ljósi þess að samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn hefur nú ákveðið allur sem einn að stinga hausnum endanlega í sandinn með formanni sínum og ákveða að ekki þurfi að neinu að huga hvað þessi mál varðar. Ég verð að lýsa því yfir að það er ábyrgðarhlutur fyrir ríkisstjórnina að láta þá skammsýni sem birtist í fréttum frá landsfundi sjálfstæðismanna um þessi mál ráða för. Því fagna ég sérstaklega hversu mjög hæstv. utanrrh. hefur gefið gaum þeim athugasemdum sem fram hafa komið um framtíð Evrópusamstarfsins.