Fjölskyldustefna utanríkisþjónustunnar

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:08:58 (661)

2001-10-17 14:08:58# 127. lþ. 13.3 fundur 113. mál: #A fjölskyldustefna utanríkisþjónustunnar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa spurningu. Þannig er að þessum tillögum nefndarinnar hefur verið fylgt eftir eftir því sem hægt hefur verið en það er enn þá unnið að framgangi nokkurra tillagna eins og vill oft verða.

Ég ætla að reyna að svara þessu í réttri röð og svara fyrst 1. spurningu.

Vegna sífelldra breytinga á búsetu er almennt ekki um það að ræða að makar flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar geti stundað atvinnu eða komið sér upp lífeyrisréttindum. Makar þeirra starfsmanna sem tilheyra B-deild Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna hafa eftir starfslok framfærslu af eftirlaunum starfsmanns og við andlát hans öðlast makar hluta þeirra lífeyrisréttinda til æviloka. Við skilnað verða makar hins vegar án lífeyrisréttar.

Þetta fyrirkomulag hefur í ljósi þjóðfélagsbreytinga undanfarinna ára sætt aukinni gagnrýni. Óeðlilegt þykir að makar flutningsskyldra starfsmanna sem fórnað hafa möguleikum sínum til starfsframa til að fylgja mökum sínum í þjónustu ríkisins skuli við starfslok eða skilnað vera án viðunandi lífeyrisréttinda.

Við þá breytingu sem gerð var á Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna í lok árs 1997 versnaði aðstaða maka flutningsskyldra starfsmanna enn. Makar þeirra sem hófu störf eftir árið 1997 og tilheyra þar af leiðandi A-deild lífeyrissjóðsins verða nú nánast án lífeyrisréttinda við fráfall maka eða hjónaskilnað. Kjör íslenskra sendierindreka hafa almennt verið miðuð við kjör í utanríkisþjónustum hinna Norðurlandanna. Í þeim löndum hafa hliðstæð sjónarmið leitt til þess að mökum hafa verið tryggð lífeyrisréttindi. Utanrrn. hefur skipað starfshóp sem er að störfum og er ætlað að vinna að tillögum í þessum efnum. Starfshópurinn er um þessar mundir að ljúka störfum sínum og mun ráðuneytið leggja fram tillögur sínar í framhaldi af þeirri vinnu.

Varðandi 2. spurningu vil ég segja þetta: Þegar starfsmaður þarf að greiða há skólagjöld í starfsríki til þess að afla börnum sínum eðlilegrar menntunar er heimilt að greiða honum skólagjaldsstyrk sem nemur 90% af skólagjöldum. Ráðuneytið greiðir hlut í skólagjöldum barna útsendra starfsmanna fram að upphafi háskólanáms eða þar til nemandi hefur lokið námi sem veitir honum rétt til inngöngu í Háskóla Íslands, þó ekki eftir lok þess skólaárs þegar barnið verður 21 árs.

Varðandi 3. spurningu: Heimilt er ef sérstakar ástæður mæla með því að greiða leikskólstyrk fyrir börn í eitt ár áður en þau ná skólaskyldualdri en þó aldrei fyrir börn yngri en fjögurra ára. Til frádráttar kemur upphæð sem samsvarar leikskólagjöldum í Reykjavík.

Svar mitt við 4. spurningu er eftirfarandi:

Þegar barn flutningsskylds starfsmanns dvelur langdvölum á Íslandi er heimilt að greiða flugfargjald fram og til baka fyrir það tvisvar á hverju 12 mánaða tímabili milli Íslands og þeirrar borgar þar sem foreldri starfar á vegum utanríkisþjónustunnar til loka þess almanaksárs að barnið verður 21 árs. Ef foreldrarnir eða annað þeirra kjósa þess í stað að heimsækja barnið eða börnin getur utanrrn. einnig styrkt slíkt. Í reglunum kveður á um að ætíð skuli kaupa lægsta fáanlega fargjald.

Varðandi 5. spurningu er um sama atriði að ræða og í svari mínu við 4. spurningu hér að framan.

Svar við 6. spurningu: Almennt eru öryggismál á heimilum flutningsskyldra starfsmanna erlendis í höndum starfsmanna sjálfra í samráði við sendiherra á viðkomandi stað. Í vissum tilvikum er heimilað að ráðuneytið greiði fyrir uppsetningu og rekstur þjófavarnarkerfis en það er ljóst að öryggiskröfur fara nú mjög vaxandi og við þurfum að líta til þess.

Svar við 7. spurningu: Utanrrn. og menntmrn. fengu árið 2000 sameiginlega 3 millj. kr. fjárveitingu til að undirbúa íslenskukennslu í fjarnámi fyrir íslensk börn sem búsett eru erlendis. Að þessu hefur verið unnið í tengslum við verkefni ríkisstjórnarinnar um íslenska upplýsingasamfélagið. Unnið er að þessu verkefni í Kennaraháskóla Íslands og er vinnsla þess á lokastigi.

Svar við 8. spurningu: Almennt eru slík bókasöfn ekki í íslenskum sendiráðum en starfsmönnum sjálfum látið eftir að útvega sér þetta efni. Vegna þess hversu mikið framboð er á slíku efni og hvað endurnýjun er hröð hefur ekki verið talið aðgengilegt fyrir íslensku utanríkisþjónustuna að standa að bókasöfnum í sendiráðum og fastanefndum erlendis.

Svar við 9. spurningu: Samkvæmt reglum utanrrn. er heimilað að veita styrk vegna stuðningskennslu, þar með talið við móðurmálskennslu á Íslandi fyrir börn sem flytja búferlum til Íslands vegna flutnings foreldris í starfi.

Herra forseti. Ég hef reynt að svara þessu mjög snarlega en ég mun sjá til þess að koma þessum svörum skriflega til hv. fyrirspyrjanda þannig að þetta kunni að liggja ljósar fyrir henni. Ég hef þurft að ástunda hér mikinn hraðlestur sem mér þykir miður en geri það af tillitssemi við hv. alþingismenn.