Endurgreiðsla virðisaukaskatts

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:08:20 (685)

2001-10-17 15:08:20# 127. lþ. 13.6 fundur 84. mál: #A endurgreiðsla virðisaukaskatts# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:08]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ber fram fyrirspurn til fjmrh. um hvað líði sérstakri úttekt á áhrifum lækkunar á endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 100% í 60% til byggjenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna á byggingarstað og til eigenda íbúðarhúsnæðis vegna viðhaldsvinnu.

Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er að á síðasta þingi fluttu nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar frv. til laga um að færa þessar endurgreiðslur til fyrra horfs. Frv. vísaði til þessara breytinga en það eru fjögur ár síðan endurgreiðsluhlutfallið var lækkað úr 100% í 60%. Þetta vildu þingmenn Samfylkingarinnar færa til baka þannig að skatturinn yrði 100% endurgreiddur.

Jafnframt var lagt til að bið eftir endurgreiðslu yrði stytt úr tveimur mánuðum í einn mánuð. Á sínum tíma var slík vinna undanþegin söluskatti og við breytinguna yfir í virðisaukaskatt hefði hún sjálfkrafa orðið að fullu skattskyld ef undanþága hefði ekki komið til. Ástæða undanþágunnar sem gerð var, miðað við grein Guðlaugar Valdimarsdóttur í tímaritinu Tíund í fyrra, var að full skattskylda hefði haft í för með sér hækkun á byggingarkostnaði og byggingarvísitölu og ástæða hafi verið til að halda verðbólgu í skefjum. En skilja hefur mátt að önnur ekki síðri ástæða endurgreiðslunnar hafi verið að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi.

Í ljós hefur komið að frá því að lækkun á endurgreiðslu tók gildi hefur umsóknum stórfækkað og endurgreiðslufjárhæðir lækkað. Það gefur til kynna að svört atvinnustarfsemi hafi aukist til muna. Ætla má því að með því að færa endurgreiðslu til fyrra horfs muni það stuðla að betri skilum til skattyfirvalda og þar með auknum skatttekjum þó endurgreiðslubeiðnum fjölgi og greiðslur hækki. Frv. Samfylkingarinnar um að færa endurgreiðsluna á ný í 100% fékk þá meðferð hjá efh.- og viðskn. á sl. vori að nefndin flutti till. til þál. um að fjmrh. gengist fyrir sérstakri úttekt á áhrifum lækkunar á endurgreiðslu virðisaukaskattsins og að í úttektinni yrði m.a. lagt mat á hvort lækkunin hefði aukið tekjur ríkissjóðs eins og vonir stóðu til, hvort svört atvinnustarfsemi hefði aukist og hvort hækka eigi endurgreiðsluhlutfall og auka aðgengi að því á ný.