2001-10-18 10:37:37# 127. lþ. 14.1 fundur 53. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 120/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 127. lþ.

[10:37]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hefur stjórnarandstaðan tekið undir þetta mál, bæði á fyrstu stigum þess þegar bráðabirgðalögin voru sett og jafnframt í umfjöllun nefndar um það.

Eins og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir gat um áðan hagar nú svo til að óljóst er hvort takist að verða okkur úti um endurtryggingavernd áður en kemur að þeirri dagsetningu sem var að finna í hinum upphaflegu bráðabirgðalögum sem hér eru til staðfestingar.

Nú hagar jafnframt svo til, herra forseti, að þingið er að fara í frí í kjördæmaviku og þess vegna þarf þessi heimild að vera fyrir hendi. Ég vil fyrir hönd Samfylkingarinnar lýsa því yfir að við styðjum þetta mál. Hér er um að ræða mál sem er í eðli sínu ákaflega snúið og gæti við vissar aðstæður bakað ríkissjóði mikla ábyrgð. Það er hins vegar þannig að ekki er öðruvísi hægt að tryggja að flug geti haldið áfram til og frá landinu. Þess vegna styðjum við þetta.

Hins vegar er nauðsynlegt að fram komi að í efh.- og viðskn. var það ákaflega eindregin ósk þess fulltrúa Samfylkingarinnar sem fjallaði um málið, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að áður en framlenging ábyrgðarinnar sem hér er lögð til á sérstöku þingskjali taki gildi 25. október þá verði hv. efh.- og viðskn. gerð grein fyrir því hvort aðrar þjóðir hafi með svipuðum hætti framlengt ábyrgð ríkissjóðs viðkomandi lands og jafnframt hvaða staða er þá uppi varðandi öflun endurtryggingaverndar að þessu leyti, herra forseti.

Ég vil líka geta þess að við fulltrúar Samfylkingarinnar höfum í umfjöllun málsins óskað eftir upplýsingum um hvað felist í þeim 15% sem tryggingafélag á að fá í sinn hlut af því gjaldi sem heimilt er samkvæmt síðasta málslið 1. gr. að innheimta fyrir hönd ríkissjóðs. Ég hef ekki enn fengið svör við þessu, herra forseti. Ég ætla ekki að ganga eftir þeim núna. Til þess er nægur tími í nefndinni þegar að því kemur. Ég vil einungis halda því til haga að þessar upplýsingar liggja ekki fyrir á þessu stigi málsins.

Herra forseti. Við í Samfylkingunni styðjum þetta mál eindregið.