Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 12:08:40 (731)

2001-10-18 12:08:40# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[12:08]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Hugleiðingar hv. þm. eru afskaplega gagnlegar og gagnrýnar og þannig þarf alltaf að ræða um heilbrigðiskerfið. Það þarf að ræða það á mjög gagnrýninn máta.

Mig langaði aðeins að ræða um þann þátt sem snýr að því sem ég tel vera misskilning í huga stjórnmálamanna á þingi, þ.e. þegar verið er að tala um einkarekstur. Stefna t.d. Sjálfstfl. er sú að heilbrigðisþjónusta sé samfélagsleg þjónusta sem að mestu eigi að greiða úr opinberum sjóðum. Ég ætla að endurtaka þetta. Heilbrigðisþjónusta er samfélagsþjónusta sem að mestu á að greiða úr opinberum sjóðum. Í dag er skiptingin þannig að 85% eru greidd úr opinberum sjóðum en 15% af þjónustugjöldum sem koma úr vasa einstaklinga. Það er með því minnsta sem gerist innan OECD. Þetta hlutfall hefur verið óbreytt.

Það sem skiptir máli í þessari umræðu er að þetta breytist ekki. Hins vegar segir enginn mér að ríkið eða sveitarfélögin séu best í að reka heilbrigðisþjónustu. Eitt er það sem ríkið á að gera, þ.e. að skilgreina þjónustuna, hvað eigi að kaupa, og síðan að láta það í hendur annarra aðila til að veita þjónustuna. Ríkið skilgreinir, borgar og hefur eftirlit. Aðrir aðilar, þess vegna einkaaðilar, veita þjónustuna undir þessu eftirliti samkvæmt ákveðnu verði.

Ég held einmitt að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hafi hitt naglann á höfuðið þegar hún nefndi sjúkrahúsið í Bandaríkjunum sem hún heimsótti. Var það ríkisrekið sjúkrahús? Nei, það var ekki ríkisrekið sjúkrahús. Það var einkarekið sjúkrahús, geri ég ráð fyrir.