Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 12:15:28 (734)

2001-10-18 12:15:28# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[12:15]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kem upp í lokin til að fyrirbyggja þann hugsanlega misskilning að ég hafi ekki tekið undir þetta frv. Ég fagna því sem hér á að gera. Ég fagna því að það á að nánar eigi að fjalla forgangsröðun. Ég fagna því að skoða eigi stofnanir. Ég hef tekið undir að það er mikilvægt að skoða hvað best sé að fari fram inni á sjúkrahúsunum. Ég vil að það sé tekið kröftuglega á þessum málum. Ég vil að menn séu gagnrýnir. Mér líkar það ekki að þessi mál hafi verið eins og opinn krani þar sem sumir, alls ekki allir, hafa getað farið út í bæ, opnað það sem þeim hefur sýnst og sent reikninginn á samfélagið. Þetta geta ekki allar fagstéttir.

Ég vil líka taka það fram að þeir læknar sem hafa verið með aðgerðir úti í bæ eru margir hverjir frábærir. Ég hef farið til þeirra og fundist ég örugg. Ef verið var að vísa í dæmi sem ég tók þá var það ekki kirtlataka. Það eru gerðar heilmargar vandasamar aðgerðir úti í bæ.

Ég vil að við förum að skoða þetta. Ég vil að menn fari að ákveða hvað er einkarekinn skóli og hvað ekki. Og hvað er einkarekin starfsemi á heilbrigðissviði og hvað ekki.