Milliliðalaust lýðræði

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 16:58:56 (787)

2001-10-18 16:58:56# 127. lþ. 15.13 fundur 144. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[16:58]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gleðst fyrir hönd Sjálfstfl. yfir því að hér eru alltént 14 þingmenn inni og einn af þeim er sjálfstæðismaður.

Ég held hins vegar að hv. þm. Kristján Pálsson kunni að hafa heyrt aðeins hluta ræðu minnar. Hann hefur a.m.k. misskilið hana. Ég var ekki að segja að það þyrfti að styrkja fulltrúalýðræðið. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn við hv. þm. þá er ég þeirrar skoðunar að í framtíðinni væri æskilegt að afnema það. Ég tel að sá þráður sem varpað er inn í framtíðina í þeirri tillögu sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson leggur hér fram sé einmitt það sem við eigum að reyna að spinna okkur eftir.

Ég er þeirrar skoðunar að það væri auðvitað æskilegast í óskaveröld framtíðarinnar, útópíunni, að taka upp kerfi hinna gömlu Aþeninga, þar sem einn maður hafði eitt atkvæði og það þurfti enga sérstaka fulltrúa til að ráða fyrir fólkið. Nú sé ég bjarma fyrir framtíð í krafti nýrrar tækni sem gæti fært okkur nær þessu. Ef ég á að vera fyllilega raunsær þá tel ég ekki að þetta sé mögulegt að öllu leyti, herra forseti, en ég tel hins vegar að það sé mögulegt að færa sig nær þessu.

Ég er þeirrar skoðunar að það ætti frekar að veikja fulltrúalýðræðið með því að koma beinu og milliliðalausu lýðræði á í fleiri málum. Ég tel t.d. að sú leið sem menn eru að fikra sig eftir í sveitarstjórnum, a.m.k. hér í Reykjavík undir ákaflega skeleggri forustu Reykjavíkurlistans þar sem menn fá tækifæri til þess að segja álit sitt á þungum deilumálum samtíðarinnar, sé mjög jávætt. Ég er þeirrar skoðunar að þetta eigi menn að taka upp í öðrum sveitarfélögum. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að taka upp þjóðaratkvæðagreiðslur um mál eins og stjórnkerfi fiskveiða og í öllum erfiðum deilumálum þar sem hægt er að setja upp valkosti með mjög skýrum og einföldum hætti. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi jafnvel að taka það upp að leyfa fólki í sveitarfélögum að kjósa sveitarstjórann. Ég er einnig alveg til umræðu um að fólkið í landinu eigi að hverfa frá þingræðinu og kjósa oddvita framkvæmdarvaldsins beinni kosningu. Ég er til umræðu um það.