Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 17:28:51 (873)

2001-10-30 17:28:51# 127. lþ. 16.19 fundur 185. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[17:28]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Hér eru lagðar til breytingar á ákvæðum um kynferðisbrot gegn börnum sem miða að því að veita börnum ríkari refsivernd gegn slíkum brotum.

Breytingarnar sem lagðar eru til eru tvíþættar. Í fyrsta lagi er ráðgert að það verði afdráttarlaust refsiverð háttsemi að kaupa kynlífsþjónustu af einstaklingi undir 18 ára aldri og varði það allt að tveggja ára fangelsi. Samkvæmt núgildandi lögum kann slík háttsemi að varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Þar segir að hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir ungmenni á aldrinum 14--16 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skuli sæta fangelsi allt að fjórum árum. Einnig getur greiðsla til barns fyrir kynlífsþjónustu varðað við 65. gr. barnaverndarlaga, nr. 58/1992, sem kveður á um að hver sem hvetji barn til lauslætis eða leiði það með öðrum hætti á siðferðilega glapstigu skuli sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum árum. Þá er vitanlega það eitt að eiga kynferðisleg samskipti við ung börn refsivert. Varðar allt að 12 ára fangelsi að hafa samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára. Önnur kynferðisleg áreitni varðar fangelsi allt að fjórum árum, sbr. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

[17:30]

Með breytingunum verður börnum veitt aukin refsivernd miðað við gildandi löggjöf þar sem bannið við kaupum á vændi barna er fortakslaust og verknaður refsiverður án tillits til þess hvort barn hafi verið táldregið. Einnig felur ákvæðið í sér rýmri refsivernd þar sem aldursmörk þess ná til 18 ára aldurs í stað 16 ára.

Þótt ekki sé ástæða til að ætla að barnavændi hafi verið stundað í miklum mæli hér á landi þykir allt að einu brýnt að gefa þessum vanda sérstakan gaum og grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana. Því þykir rétt að slíkur verknaður verði lýstur refsiverður í almennum hegningarlögum og er það í samræmi við sambærilegar breytingar á hegningarlögum annars staðar á Norðurlöndum. Með því er lögð sérstök áhersla á alvarleika þessara brota. Bannið er liður í því að vernda börn og sporna við kynferðislegri misnotkun þeirra sem útbreidd er víða um heim. Einnig er þetta í samræmi við alþjóðlegt samstarf á þessu sviði sem hefur það markmið að vinna gegn kynferðislegri misnotkun barna. Má þar sérstaklega nefna skyldur okkar samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, um að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að barn sé talið á eða þvingað til að taka þátt í hvers konar ólögmætri kynferðislegri háttsemi eða notað til vændis eða annarra ólögmætra kynferðisathafna.

Í öðru lagi eru lagðar til í frv. breytingar á 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga um að þyngja refsingu fyrir vörslu barnakláms þannig að slík háttsemi varði allt að tveggja ára fangelsi ef brot er stórfellt.

Núgildandi ákvæði hegningarlaganna er frábrugðið hliðstæðum ákvæðum í norrænni refsilöggjöf að því leyti að refsingar geta ekki orðið þyngri en sektir. Á öllum öðrum Norðurlöndum getur varsla barnakláms varðað fangelsi. Í Danmörku og Finnlandi geta viðurlög við því varðað varðhald eða fangelsi allt að sex mánuðum. Í Noregi og Svíþjóð geta refsingar við þessum brotum verið fangelsi allt að tveimur árum en sé um stórfellt barnaklámsbrot að ræða getur allt að fjögurra ára fangelsisrefsing legið við því samkvæmt sænskum refsilögum.

Bann við því að hafa slíkt efni í vörslu sinni er talið geta dregið úr eða jafnvel fyrirbyggt kynferðislega misnotkun barna í tengslum við gerð slíks efnis. Að virtu þessu og alvarleika þessara brota þykir nauðsynlegt að þau geti varðað þyngri refsingum samkvæmt almennum hegningarlögum.

Að lokum vil ég leggja sérstaka áherslu á að þær breytingar sem hér eru lagðar til á ákvæðum um kynferðisbrot gegn börnum eru aðeins hluti af heildarendurskoðun á þessu sviði sem ekki þykir þó ástæða til að bíða með í ljósi mikilvægis þeirra. Á vegum dómsmrn. er fyrirhuguð frekari endurskoðun á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga varðandi kynferðisbrot gegn börnum.

Um þessar mundir starfar nefnd sem ég skipaði síðasta vor til að gera tillögur um viðbrögð við niðurstöðum fyrrgreindrar rannsóknar á vændi og félagslegu umhverfi þess. Meðal annars var nefndinni falið að kanna hvort unnt væri að veita börnum og ungmennum ríkari refsivernd gegn kynferðisbrotum. Að fengnum tillögum þessarar nefndar verður hugað að frekari lagabreytingum í víðara samhengi á þessu sviði sem ég vonast til að leggja fram tillögur um síðar á þessu þingi.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.