Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 18:12:04 (882)

2001-10-30 18:12:04# 127. lþ. 16.14 fundur 13. mál: #A kosningar til Alþingis# þál., Flm. SvH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[18:12]

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 13 flytjum við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson till. til þál. um kosningar til Alþingis. Þessi tillaga kom til umfjöllunar og umræðu á hinu háa Alþingi hinn 8. mars sl. Þá fóru fram allítarlegar umræður um tillöguna. Tillagan er flutt af þeirri brýnu nauðsyn að þau kosningalög og kjördæmaskipan sem menn festu í lögum fyrir skemmstu eru ömurleg mistök og verður best lýst með því að vísa til 2. varaforseta Alþingis, hv. þm. Vesturl. Guðjón Guðmundssonar, þar sem hann sagði að hún væri arfavitlaus, sem mun vera áhersluauki við kolvitlaus eða snarvitlaus.

Ég leyfi mér, herra forseti, að vísa til þessarar umræðu og efnis þáltill. sjálfrar og hef ekki lengri signingar yfir málinu nú en legg til að þegar þessari umræðu lýkur verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. allshn.