Rekstur vélar Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 13:33:53 (893)

2001-10-31 13:33:53# 127. lþ. 17.91 fundur 86#B rekstur vélar Flugmálastjórnar# (aths. um störf þingsins), GE
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 127. lþ.

[13:33]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. samgrh. vegna máls sem nú er ofarlega á baugi og varðar rekstur flugvélar Flugmálastjórnar. Ástæða umræðunnar, virðulegur forseti, er að meiri hluti fjárln. hafnaði beiðni minni um afrit af loggbók Flugmálastjórnarvélarinnar sem ég tel nauðsynlegt að fá á borð nefndarinnar svo að ég geti sinnt eftirlitsskyldu minni sem þingmaður.

Nú hefur komið fram að gögnum um þá sem fljúga með vélinni er eytt eftir hverja ferð. Mér er ljóst að tímagjald er hið sama hvort sem hvert sæti er nýtt í leiguflugtíma eða eitt sæti þannig að þó að reikningar væru birtir þá segði það lítið. Það vakti athygli mína þegar fjölmiðlar óskuðu upplýsinga um ferðir og farþega flugvélarinnar að þá fengust þær ekki og að lokum er komið í ljós eins og áður sagði að gögnum er fleygt, um hverjir hafa verið tryggðir í flugi. Meðal annars þess vegna hef ég komið því til leiðar að málið er til skoðunar hjá Ríkisendurskoðun. Að gefnu tilefni vil ég því beina eftirfarandi spurningum til hæstv. samgrh.:

1. Hversu lengi hefur það tíðkast að gögn séu eyðilögð eftir hverja ferð vélarinnar?

2. Hver gefur þau fyrirmæli að gögnum sé eytt?

3. Er ákvæði um meðferð gagna sem þessara í verklagsreglum stofnunarinnar?

4. Var haft samráð við ráðuneytið eða Ríkisendurskoðun um heimild til að eyða þessum gögnum?

5. Hvaða aðili ber ábyrgð á því og gefur fyrirmæli um eyðingu þessara gagna?

Þetta eru margar spurningar en samt nauðsynlegt að halda þeim til haga og hægt væri að svara þeim í stuttu máli. Að lokum spyr ég: Er flugrekstrarleyfi umræddrar vélar svo víðtækt að það gildi um allar gerðir flugþjónustu?