Rekstur vélar Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 13:47:19 (900)

2001-10-31 13:47:19# 127. lþ. 17.91 fundur 86#B rekstur vélar Flugmálastjórnar# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Nú hefur verið upplýst í þessari umræðu að allt tilefnið byggist á því að fram hafi verið settar órökstuddar getgátur og svo er verið að ýja að því að það sé óeðlilegt að fjárln. hafi hafnað slíkum beiðnum. (Gripið fram í.) Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt af hálfu fjárln., eins og málið er lagt fyrir, að fjárln. synji slíkri beiðni sem er greinilega byggð á mjög vafasömum forsendum. Hér er um að ræða órökstuddar getgátur eins og fram hefur komið og þess vegna mjög eðlilegt að þingmaðurinn leiti annarra leiða sem hann þá sjálfur kýs.

Hér hefur það verið upplýst í umræðunni hvað eftir annað að það séu til ýmsar leiðir í þessu sambandi, bæði gegnum Ríkisendurskoðun og með ýmsum öðrum hætti eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur lýst. Þess vegna er auðvitað alveg fráleitt að tala um að verið sé að binda hendur þingmanna eða koma í veg fyrir að þingmenn geti unnið störf sín þó að menn sinni ekki beiðnum eins og þeim sem þarna komu fram. Þvert á móti hefur það komið glögglega fram í þessari umræðu að það eru fjöldamargar leiðir fyrir þingmenn eins og almenning í landinu að fá upplýst mál sem eðlilega eru fram borin. Þess vegna er alveg fráleitt að tala með þeim hætti að reynt sé að koma í veg fyrir slíkar beiðnir.