Skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:37:43 (943)

2001-10-31 15:37:43# 127. lþ. 18.95 fundur 93#B skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég hef notað tækifærið til þess að biðja um utandagskrárumræðu á grunni viðamikillar skýrslu sem Byggðastofnun hefur nýlega látið frá sér fara. Skýrslan er yfir 180 blaðsíður þannig að ekki verður farið yfir hana efnislega. Skýrslan nefnist Byggðarlög í sókn og vörn. Síðan er annar hluti sem heitir landshlutakjarnar.

Þarna er tekið á mörgum málum og þetta er mjög þarft verk. En eins og gefur að skilja hefur skýrslan í sjálfu sér ekki verið yfir gagnrýni hafin og hefur reyndar komið við kaunin á mörgum.

Fólksflóttinn af landsbyggðinni er sem aldrei fyrr. Birst hafa tölur nýlega og enn þá eru sveitarfélög að gefa upp tölur sem benda til þess að ástandið verði enn verra en við höfum nokkru sinni upplifað. Sérstök jaðarsvæði verða einkum harðast úti. En þó verður að segja að landsbyggðin í heild sinni standi mjög höllum fæti með einstökum undantekningum.

Í mínum huga, eftir að hafa lesið skýrslu Byggðastofnunar, þá er það engum vafa undirorpið að stefna ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst í einkavæðingamálum í stoðkerfinu á stóran þátt í því sem við erum að upplifa varðandi stöðu landsbyggðarinnar. Af samtölum mínum við fólk á landsbyggðinni má ráða að það sé klárt mál að minnkandi þjónusta, eftir hlutafélagavæðingu eða einkavæðingu í stoðkerfinu, svo sem Landssímans, bankanna og póstsins, hefur gríðarleg neikvæð áhrif á stöðu byggðaþróunar í landinu. Auðvitað er hér líka um að ræða hagræðingu í fiskvinnslunni og fiskveiðistjórnarkerfi sem kemur þarna sterklega að.

Þau skilaboð sem stjórnvöld gefa með því að draga úr þjónustu í stoðkerfinu úti á landi hafa hrikalegar afleiðingar. Það verður að segjast að ríkisstjórnin hefur enga heildstæða stefnu í byggðamálum. Ef menn væru inni á slíkum kerfisbreytingum í atvinnulífinu sem hér hafa átt sér stað á undanförnum árum þá væri í öllum öðrum löndum löngu búið að setja fram heildstæða stefnu um mótvægisaðgerðir, hvort sem menn eru með eða á móti því sem verið er að gera, og þá er ég að tala um einkavæðingarstefnuna. Það væri löngu búið að því.

Við getum farið niður í hjarta Evrópu þar sem menn hafa farið í slíkar aðgerðir á grunni breytinga í atvinnulífinu og þar var gripið til slíkra aðgerða.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin horfir bara á afleiðingarnar af því sem hún hefur verið að gera undanfarin ár og ekki virðast vera nein áform til þess að rétta kúrs. Jafnvel er svo komið varðandi hina svokölluðu byggðakjarna víðs vegar um landið, sem ríkisstjórnin hefur sett fókus sinn á, að núna berast fregnir af því að þar eigi að fara í niðurskurð á ýmsum sviðum stoðkerfisins sem er algjör grundvallarforsenda þessara svokölluðu byggðakjarna sem ríkisstjórnin þó í orði segist ætla að styrkja til þess að þeir lifi og þá er sleppt baklandinu sem á í mestum erfiðleikum.

Virðulegi forseti. Ég hef nokkrar spurningar til hæstv. byggðamálaráðherra og vil fá svör við þeim.

Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við greiningu Byggðastofnunar og tillögum hennar?

Hvaða mótvægisaðgerðir áformar ríkisstjórnin vegna samdráttar í grunnþjónustu á landsbyggðinni, í samgöngumálum, í fjarskiptamálum, í menntun og heislugæslumálum?

Verður staðið við þau áform ríkisstjórnarinnar að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni?

Eins og menn muna hafði ríkisstjórnin þau áform að fjölga bara opinberum störfum á landsbyggðinni. Það lagðist nú út þannig að fækkun varð á landsbyggðinni en yfir 400 störf voru búin til á suðvesturhorninu.

Hvernig líður áformum um að flytja verkefni sem hægt er að vinna í fjarvinnslu úti á landi?

Telur byggðamálaráðherra að áform um stóriðjuuppbyggingu styrki stöðu landsbyggðarinnar í heild sinni?

Ég held að mjög nauðsynlegt sé að það komi fram vegna þess að mér segir svo hugur um að byggðamálaráðherra muni skýla sér á bak við þetta stórverkefni sem nú er á teikniborðinu, þ.e. að stóriðja á Austurlandi sé byggðaaðgerð fyrir landið allt. En við sem setjum okkur inn í þessi mál gerum okkur auðvitað fulla grein fyrir því að slík aðgerð mun kalla á samdrátt annars staðar í landinu, a.m.k. á meðan á framkvæmdum stendur.

Þess vegna er það mjög skýrt í mínum huga að ríkisstjórnin verður að gefa svör við því hvert hún stefnir í þessum málum.