Skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:42:55 (944)

2001-10-31 15:42:55# 127. lþ. 18.95 fundur 93#B skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn# (umræður utan dagskrár), iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Greining Byggðastofnunar, Byggðarlög í sókn og vörn, annars vegar sjávarbyggðir og hins vegar landshlutakjarnar, er unnin í samræmi við stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001, sem samþykkt var á Alþingi í mars 1999. Sú byggðastefna hefur nú skilað þeim árangri að dregið hefur úr fólksflutningi frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Árið 1997 var hann um 1.800 manns en í fyrra u.þ.b. 700 manns.

Greining Byggðastofnunar var unnin í nánu samstarfi við atvinnuþróunarfélög og embættismenn viðkomandi byggðarlaga, ásamt nokkrum sérfræðingum sem leitað var ráðgjafar hjá. Tilgangur greiningarinar er að finna staðbundin sóknarfæri varðandi atvinnu og búsetu og er hún lögð til grundvallar þeirri nýju byggðaáætlun sem nú er í mótun. Til að bregðast við byggðaröskun þarf bæði að líta á þá þætti sem lúta að atvinnuþróun og þáttum er lúta að öðrum þörfum íbúanna, oft nefndum búsetuþáttum.

Fjöllum fyrst um atvinnuþróun.

Hefðbundnar greinar eiga undir högg að sækja og ein leiðin til að ráða bót á byggðaröskuninni er að reyna að finna nýtt hlutverk fyrir bæina, þ.e. að finna nýjar atvinnugreinar og reyna að laða ný fyrirtæki til þeirra. Í skýrslu Byggðastofnunar, Atvinnuþróun og stoðkerfi atvinnulífs á landsbyggðinni, er m.a. bent á hugsanlegar stuðningsaðgerðir í atvinnuþróun.

Spurt er: Hvaða mótvægisaðgerðir áformar ríkisstjórnin vegna samdráttar í grunnþjónustu á landsbyggðinni?

Í samgöngumálum er talað um að byggja upp svonefnda jaðarbyggðavegi og er framkvæmd þess máls komin inn á vegáætlun. Þá má nefna vilja til þess að efla almenningssamgöngur og einnig er Byggðastofnun að vinna að athugun á því hvaða leiðir nágrannalönd okkar nota til að halda uppi innanlandsflugi til staða sem ekki er arðbært að fljúga til.

Í fjarskiptamálum má nefna að fjarskiptatækni hefur verið notuð til að efla fjarkennslu og til að jafna aðstöðu landsmanna til fundarhalda óháð búsetu. Flest sveitarfélög og skólar á landsbyggðinni eiga fjarfundabúnað og nýlega varði Byggðastofnun 4 millj. kr. til að styrkja minni sveitarfélög til kaupa á slíkum búnaði. Þó skortir enn mikið upp á að fjarfundabúnaður sé til staðar í ráðuneytum og ríkisstofnunum í Reykjavík. Það mundi að sjálfsögðu spara mörg ferðalög utan af landi til fundahalda í Reykjavík ef þar yrði bætt úr.

Í þeirri vinnu sem nú stendur yfir um nýja byggðaáætlun er mikil áhersla lögð á upplýsingatækni og fjarskiptamál og var sérstökum hópi falið að móta tillögur á þessu sviði.

Í menntamálum er lögð áhersla á uppbyggingu náms á háskólastigi á landsbyggðinni, bæði með eflingu þeirra háskóla sem þar eru til staðar og eins með eflingu fjarkennslu og fjarnáms. Að þessu er unnið í nánu samstarfi við símenntunarmiðstöðvar og samtök þeirra á landsbyggðinni.

Í heilsugæslumálum má benda á að ákveðið hefur verið að Akureyri verði miðstöð sjúkraflugs á landsbyggðinni. Einnig má benda á eflingu landsbyggðarlækninga og þróun á sviði fjarlækninga.

Spurt er: Verður staðið við þau áform ríkisstjórnarinnar að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni? Svo er undirspurning: Hvað líður áformum um að flytja verkefni sem hægt er að vinna í fjarvinnslu út á land?

Í skýrslu Byggðastofnunar um framkvæmd gildandi byggðaáætlunar sem lögð var fram á Alþingi sl. vor koma fram upplýsingar um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Þar kemur fram að nokkur mismunur er á milli ráðuneyta, en hafa ber í huga að aðstæður einstakra ráðuneyta og stofnana geta verið mjög misjafnar hvað varðar möguleika til þess að flytja störf og verkefni út á land. Í skýrslunni er sérstaklega bent á þau verkefni sem flutt hafa verið út á land og eru á verksviði félmrn. og samgrn. Á vegum iðnrn. má benda á Byggðastofnun og Orkusjóð. Þá lét iðn.- og viðskrn. á liðnu ári greina öll þau verkefni sem unnin eru á verksviði þeirra ráðuneyta með tilliti til þess að flytja þau út á land. Við gerð árangursstjórnunarsamninga við stofnanir sem starfa á verksviði iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta er gert ráð fyrir að tiltekin verkefni verði flutt út á land.

Síðasta spurningin varðar uppbyggingu stóriðju á Austurlandi og hvort ég telji að sú uppbygging muni styrkja stöðu landsbyggðarinnar í heild. Svarið er já. Ég tel svo vera. Ég tel reyndar að frekari uppbygging stóriðju muni ekki einungis styrkja landsbyggðina heldur landið í heild og lífskjör allra þeirra sem þar búa.