Skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:55:23 (948)

2001-10-31 15:55:23# 127. lþ. 18.95 fundur 93#B skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:55]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson rakti ítarlega hvernig skerðing almannaþjónustunnar hefur veikt samkeppnisstöðu byggðanna í landinu. Veikleikar og styrkleikar hvíla m.a. á menntunarframboði í byggðum og þetta er margítrekað í nýrri skýrslu Byggðastofnunar. Með flutningi grunnskólans frá ríkinu til sveitarfélaganna fylgdu ekki með nægir tekjustofnar og það bitnar nú harðast á fámennustu og dreifbýlustu sveitarfélögunum.

Mér sýnist, herra forseti, að flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna eins og þau mál hafa þróast hafi verið mjög röng ákvörðun og muni verða landsbyggðinni þungur baggi og leiða til mismununar í námi eftir búsetu.

En hver eru skilaboð ríkisstjórnarinnar um menntun á landsbyggðinni? Verkmenntunarskólar, starfsmenntunarskólar og heimavistarskólar búa við mikið fjársvelti. Sérstaða þeirra er hvergi viðurkennd. Framhaldsskólar verða að skera niður námsframboð. Landsbyggðarunglingar sækja í iðnnám og því iðnnámi er í stórauknum mæli þjappað sama á suðvesturhorninu.

Stefnunni í menntamálum verður að breyta. Á fjárlögum hefur verið upphæð, hún er þó lítil, til að styrkja framhaldsdeildir þar sem ekki eru reknir framhaldsskólar. Þetta voru 7,8 millj. kr. Þær eru nú í frv., herra forseti, skornar niður í núll í sparnaðarskyni. Svo mikil er reisnin og höfðingsskapurinn. Hefði ekki verið nær að standa betur að framhaldsdeildunum, t.d. í Stykkishólmi eða Ólafsvík, framhaldsnáminu í Grundarfirði eða koma til móts við óskir Ólafsfirðinga og Dalvíkinga og Hólmvíkinga um framhaldsnám heldur en að skera niður þessar örfáu milljónir sem þó hafði verið varið til að styrkja framhaldsnám á landsbyggðinni? Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar í reynd gagnvart landsbyggðinni í menntamálum.

Herra forseti. Framtíðarhagur og velferð þjóðarinnar byggist á öflugu menntakerfi um allt land og fyrir alla óháð búsetu.