Skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 16:04:38 (952)

2001-10-31 16:04:38# 127. lþ. 18.95 fundur 93#B skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[16:04]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka Byggðastofnun og atvinnuþróunarfélögunum fyrir að fara í svæðisbundna greiningu á styrk, veikleika, ógnunum og tækifærum byggðarlaganna í landinu sem birt er í nýútkomnum skýrslum.

Hin mikla byggðaröskun á undanförnum árum hefur sett svip sinn á allt mannlíf í landinu. Ef okkur á að takast að snúa þróuninni við þá verðum við að vinna markvisst að því að styrkja hinar veikari byggðir á þeirra eigin forsendum ásamt því að bæta samgöngur, efla opinbera þjónustu og jafna lífskjör. Því er greining eins og sú sem kemur fram í skýrslum Byggðastofnunar mikilvægt tæki til að beina opinberum aðgerðum í ákveðinn farveg svo að fjármagn nýtist sem best og aðgerðirnar beinist að því sem til er ætlast, þ.e. að efla atvinnulíf og mannlíf á landsbyggðinni.

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum mælti ég fyrir þáltill. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um sérstakt svæðisbundið átak til að treysta byggð og efla atvinnulíf á landsbyggðinni. Í tillögunni kemur fram að þegar á næsta ári skuli verja 400 millj. kr. í svæðisbundið átak á Austurlandi, þar sem mikil fólksfækkun hefur orðið í fjórðungnum á undanförnum árum, og til að styrkja byggð.

Herra forseti. Hæstv. byggðamálaráðherra gerði lítið úr tillögunni en ég fæ ekki betur séð en greining Byggðastofnunar vísi til þess að tækifæri byggðanna í landinu liggi í svæðisbundnum aðgerðum, aðgerðum sem byggja á forsendum hverrar byggðar.

Ef okkur á að takast að styrkja byggðir landsins til lengri tíma litið þá eigum við að byggja á greiningu Byggðastofnunar og auðlegð hvers byggðarlags, auka menntun og þróunarstörf, styrkja nýsköpun og koma á þróunarsetrum víða um land.

Herra forseti. Við eigum að byggja á fjölbreytni.