Skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 16:09:15 (954)

2001-10-31 16:09:15# 127. lþ. 18.95 fundur 93#B skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu en koma því jafnframt að að í þeim löndum þar sem sú pólitík hefur verið rekin að stunda miðstýrða atvinnuuppbyggingu, ég tala nú ekki um í formi stóriðju, hefur það hvarvetna leitt af sér samþjöppun á höfuðborgarsvæði. Við getum farið út um víðan völl til þess að finna slík dæmi. Út frá þeim sjónarhóli og þeirri reynslu tel ég að slík uppbygging sé ekki heillavænleg fyrir okkar samfélag. Ég tel að beita eigi, eins og fram kom hjá hv. þm. Þuríði Backman, svæðisbundnum aðgerðum til að styrkja það frumkvæði sem býr í fólkinu sjálfu, á þeim svæðum sem eru í fókus hverju sinni. Slíkar aðferðir hafa ávallt gefist vel.

Ég vil líka koma því að í þessari umræðu að það er eins og ríkisstjórnin, stjórnvöld, geri sér enga grein fyrir þeirri þróun sem þau ýta undir með aðgerðum sínum á hverjum degi, t.d. í flugmálunum. Það var fyrirséð, vegna ýmissa aðstæðna, að ákvörðunarstöðum í flugi mundi fækka. Það eru engar mótaðgerðir settar fram sem mundu felast í að byggja upp nothæft almenningssamgöngukerfi, helst áður en fyrirsjáanleg þróun hefur skaðað samgöngurnar.

Ég hef þrívegis flutt þáltill. um vel undirbyggt og vel undirbúið almenningssamgöngukerfi í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Það mál hefur ekki fengist rætt. En núna eru menn að sjá afleiðingarnar af stefnunni í samgöngumálum á því svæði, t.d. hefur flugi verið hætt til Húsavíkur og Raufarhafnar eins og málin standa. Það er engin heildstæð stefna í málinu en eftir henni verðum við að kalla.

Virðulegi forseti. Við brýnum ríkisstjórnina og byggðamálaráðherra til heildstæðrar stefnu í byggðamálum. Þar þarf ekki að fara lengri veginn. Víða um heim eru til dæmi um aðgerðir sem hafa skilað árangri.